03.02.1953
Neðri deild: 63. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 966 í B-deild Alþingistíðinda. (1040)

42. mál, verðlag

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Ég skal ekki fara í það að deila við hv. 3. landsk. um verðlagsákvæði. Við erum búnir að tala svo mikið um þau mál. Það vita allir, hvar hans flokkur stendur í þeim málum. Þeir vilja hafa verðlagsákvæði á öllu; þeir vilja hafa innflutningshöft á öllu; þeir vilja yfirleitt hafa höft á öllu og að ríkið hafi þar hönd í bagga með, svo að þetta er engin ný stefna, en ég hygg nú, að hann kristni ekki marga hv. þm. í þessu máli, hversu lengi sem hann talar í því.

Hann sagði, að hér væri einmitt verið að framkvæma verðlagsákvæði með því að fara inn á þessa braut. Ég vildi nú gjarnan spyrja hv. þm.: Hvernig hugsar hann sér, að það sé hægt að ákveða óhóflega álagningu, nema þá í hundraðstölu? Ég veit ekki, hvernig hann hugsar sér að framkvæma það. Ég viðurkenni fyllilega sjónarmið hv. þm. A-Húnv., að það væri ákaflega skemmtilegt að geta komið inn á þá braut, að það væri miðað við útsöluverð, alveg án tillits til þess, hvað lagt væri á vörurnar. Það sýndi þá kannske í mörgum tilfellum, eins og það dæmi, sem hann tók fram, að þeir menn, sem virkilega gera góð innkaup, eiga að sínu leyti að hafa einhvern rétt til þess að hafa upp úr vörunni, ef þeir selja landsmönnum vöruna ódýrari en ella, því að þegar allt kemur til alls, þá er það ekki álagningin, sem um er að ræða, það er verðið, sem neytandinn verður að greiða fyrir vöruna. En við erum alltaf að deila um álagninguna, vegna þess að það er það eina, sem hægt er að miða við. Það er ákaflega erfitt að framkvæma till. hv. þm. A-Húnv. Ef það væri auðvelt að framkvæma hana, þá er hún sjálfsagður grundvöllur, en ekki hitt, en það, að við höngum í hundraðstölunum, er einmitt vegna þess, að það er það eina, sem við getum borið nokkuð saman.

Hann talaði um, að ég hafi sett álagningargrundvöll fyrir þessum vöruflokki, sem ég ræddi um, sem væri svo hár, að engum lifandi manni dytti í hug, að það væri nokkur sanngirni í því, — að það mundi enn fremur gefa mönnum hugmynd um það, að þeir gætu lagt þetta á vöruna framvegis, sem hér hefði verið ákveðið. Ég tók fram í minni fyrri ræðu, að það er tekið skýrt fram í þessum reglum, að þetta er gert í fyrsta skipti, sem þessi birting er gerð, og það er ekkert fordæmi fyrir því, hvað verði gert í næsta skipti. Það er m.ö.o. ekki slegið neinu föstu um það, hvað sé talin yfirleitt óhófleg álagning í þessu efni, og ég er ekki að gefa upp það, hvort ég tel 25% hóflegt eða óhóflegt. Ég segi bara: Nöfn þeirra, sem fara yfir það mark, verður að birta. Hvernig það verður svo framvegis, skal ég ekki segja um, en það verður þá annaðhvort mitt verk eða einhvers annars, sem með þau mál fer, að kveða upp úrskurð eða fá hann framkvæmdan.