23.01.1953
Efri deild: 55. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1027 í B-deild Alþingistíðinda. (1104)

199. mál, almannatryggingar

Frsm. meiri hl. (Rannveig Þorsteinsdóttir):

Herra forseti. Ég skal ekki vera mjög margorð. Ég ætlaði aðeins að segja örfá orð út af því, sem fram hefur komið hérna. Því hefur nefnilega verið hreyft hér af hvorugum minni hl., hvað þeir geta gert ráð fyrir að mundi sparast við þá skerðingu bótanna, sem þeir gera ráð fyrir í till. sínum. Nú er það sannast sagna, að þó að hér sé ekki um háa upphæð að ræða, sem miðað er við, 44 þús. kr. árslaun, sem ætlað er að verði á 1. verðlagssvæði, og lægra á 2. verðlagssvæði samkv. boðaðri brtt. hv. þm. Barð., þá ætla ég, að það muni verða tiltölulega mjög fá heimíli, sem komast í það að vera þar yfir. Hins vegar er gert ráð fyrir því samkvæmt upplýsingum, sem fram komu í n. og var hreyft hérna, að breyt., sem felst í till. þeim, sem hér eru bornar fram í 2. málsgr. brtt. hv. þm. Barð. um 10% hækkun á elli- og örorkulífeyri, muni kosta a.m.k. 5 millj. kr. Ef það, sem sparast vegna skerðingarinnar, ætti að nægja til þess að greiða þá hækkun, sem hér er ætlazt til, þá þyrfti við þessa skerðingu að sparast rúmlega 1/3 hluti þess, sem áætlað er. Það er gengið út frá, að fjölskyldubæturnar allar kosti um 14 millj. kr., en hér mundu þurfa að sparast um 5 millj. kr. Ég hygg, að það sé öllum ljóst, að það sé ekki nokkur möguleiki á því, þótt ekki sé nú um það vitað, enda engar skýrslur fyrir um það, — það sé ekki nokkur möguleiki á því, að neitt nærri þeirri upphæð muni sparast við þá skerðingu, sem hér er gert ráð fyrir, og þá er náttúrlega auðséð, að samkvæmt till. hv. þm. Barð. vantar tekjur til þess að mæta till. hans. Samkvæmt till. hv. 7. landsk. þm. er að vísu gert ráð fyrir því að taka það, sem á vantar, beint úr ríkissjóði til Tryggingastofnunarinnar, en þá þarf líka að gera ráð fyrir því í því fjárlfrv., sem hér verður afgreitt. Ég hygg, að mönnum verði ljóst, ef þeir bera saman þessar tölur, 14 millj. í heild og 5 millj., að það mundi þýða, að það væru ekki ætlaðar nema 9 millj. í fjölskyldubætur til allra þeirra manna, sem hafa undir 44 þús. kr. árstekjum á 1. verðlagssvæði og þá 33 þús. á 2. verðlagssvæði, og auðséð, að það er allt of litil upphæð, og hlýtur að vanta mikið til. Að öðru leyti er náttúrlega allt í óvissu um það, hvað þetta kostar, — þetta er áætlun, — og mun ekki sjást fullkomlega, fyrr en eftir árið.

Varðandi brtt. hv. þm. Barð. um, að skerðingarákvæði ellilífeyris verði fellt niður á næstu áramótum, þá má segja það, að það hafi komið nýtt sjónarmið upp núna við það frv., sem hér hefur verið borið fram. Hins vegar er rétt um það bil mánuður síðan Alþingi gekk frá því, að breyting á þessu ákvæði skyldi bíða eftir heildarendurskoðun laganna. Nú mundi náttúrlega vera æskilegt, að þessi endurskoðun gæti farið fram á næsta ári, og hefði ég viljað styðja að því, að svo gæti orðið, en forstjóri Tryggingastofnunar ríkisins telur, vegna þeirra stórfelldu breytinga, sem nú eru ráðgerðar, að slík endurskoðun mundi alls ekki ná tilgangi sínum, þar sem ekki verða neinar skýrslur fyrir um útgjöld stofnunarinnar fyrr en eftir árið, og legg ég því til sem frsm. meiri hl. þessarar n., að 2. till. hv. þm. Barð., um það, að ákveðið sé að fella niður skerðingarákvæðið í árslok 1953, verði felld með tilliti til þeirra raka, sem við byggðum á hér í þessari hv. d. afstöðu okkar fyrir áramótin.

Ég skal svo ekki tefja lengur. Það væri eitt og annað kannske, sem væri ástæða til að taka fram. En ég vil þó aðeins segja það út af ræðu hv. 7. landsk., er hann hélt því fram, að samkomulag það, sem gert var í verkfallsdeilunni, hefði eingöngu verið miðað við þá tekjulægstu, að þetta er algerlega rangt, vegna þess að það samkomulag var yfirleitt miðað við alla með þeirri stefnu, sem tekin var. Þá var tekin verðlækkunarstefnan. Hún kemur öllum jafnt til góða, og þess vegna verður að segja það, að hvernig sem líta má á það atriði, sem hér er deilt um, þá verður ekki hjá því komizt að líta svo á, að höfuðstefna úrlausnar verkfallsins hafi verið sú að láta þær bætur, sem veittar voru, ganga jafnt til allra, hvernig sem þeir voru settir fjárhagslega. Ég get svo sagt það, að það er náttúrlega ekki aðeins um þetta atriði, sem hér er um að ræða nú, sem hefur komið fram mismunur.

Það, sem ég vildi segja, er þetta: Ég hef ævinlega verið á þeirri skoðun um tryggingarnar, að meðan ekki væri sæmilega séð fyrir þeim, sem verst eru staddir og þurfa mest á bótunum að halda, þá mundi vera rétt að takmarka bætur til þeirra, sem hafa mikil laun og miklar tekjur. Hin stefnan hefur aftur á móti verið ráðandi, að það, sem er kallaður tryggingargrundvöllur, hefur verið látið ráða. Það hefur verið aðalreglan. Eina undantekningin frá þeirri reglu hefur verið með gamla fólkið, þar sem skerðingarákvæðið hefur verið látið gilda. En þá er þess að gæta, að þegar tryggingarnar byrjuðu, hafði sá maður, sem stóð á því aldursmarki, að hann átti að taka við ellilífeyrisbótum, aldrei greitt einn eyri í þessa sjóði. Aftur á móti hafa t.d. þeir, sem nú er ætlað að taka við fjölskyldubótum, eða vel flestir, greitt í tryggingarnar frá byrjun, og mér finnst e.t.v., að þetta sjónarmið geti komið nokkuð til greina, þegar borin er saman skerðing á ellilífeyri og á fjölskyldubótum. Ég mun svo ekki hafa þessi orð fleiri.