30.01.1953
Neðri deild: 60. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1032 í B-deild Alþingistíðinda. (1115)

199. mál, almannatryggingar

Forsrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Það var eitt af síðustu verkum Alþ., áður en jólaleyfi hófst, að afgreiða sem lög breytingu á almannatryggingalöggjöfinni, sem þurfti að gera fyrir áramótin. Ég gat þess þá, að í sambandi við þá vinnudeilu, sem þá dagana var einmitt að leysast í Reykjavík, mundi verða nauðsynlegt að leggja nýtt frv. um breyt. á almannatryggingalöggjöfinni fyrir Alþ., þegar fundir þess byrjuðu aftur eftir áramótin, því að eins og öllum hv. alþm. er kunnugt, þá var eitt í þeim till., sem ríkisstj. lagði fram sem málamiðlun í vinnudeilunni fyrir áramótin, að vissar breytingar yrðu gerðar á almannatryggingalöggjöfinni. Það veigamesta í þeim breytingum var að auka fjölskyldubætur frá því, sem verið hefur í okkar löggjöf í þessu efni, og það á þann hátt, að í stað þess, að eins og almannatryggingalöggjöfin er nú, þá er fyrst farið að veita fjölskyldubætur með 4. barni, var í þeim till., sem ríkisstj. lagði fram sem málamiðlun í vinnudeilunni, gert ráð fyrir, að strax yrðu veittar nokkrar fjölskyldubætur með 2. barni, nokkru hærri með 3. og svo fullar bætur miðað við það, sem nú er í löggjöfinni, þ.e. með 4 barni og fleirum. Á þessum grundvelli og með nokkrum smærri breytingum öðrum, sem varð að gera á löggjöfinni í sambandi við þá nýju samninga, sem gerðir voru milli vinnuþega og vinnuveitenda, var þetta frv. fram borið. Það var lagt fram í hv. Ed. og hefur verið rætt þar allmikið, en afgr. þaðan með einni lítilfjörlegri breytingu frá því, sem það var lagt fyrir þá hv. þd.

Ég tel rétt að geta þess, að þar kom fram — í hv. Ed. — það sjónarmið frá nokkrum hv. þdm., að of langt væri gengið um veitingu á fjölskyldubótum í þessum till., miðað við ýmsa aðra þætti tryggingalöggjafarinnar, og var þá sérstaklega bent á þá skerðingu, sem er á ellilífeyrir og var framlengd enn fyrir jólin í þeim breyt., sem þá voru gerðar á almannatryggingalöggjöfinni. Og einmitt vegna þess, að þessi skoðun kom fram hjá sumum hv. þm. í Ed., þá leitaði ég álits þeirra, og voru það þá helzt þeirra till., að fjölskyldubæturnar yrðu skertar þannig, að þessar nýju fjölskyldubætur með 2. og 3. barni yrðu aðeins veittar mönnum eða fjölskyldum, sem hefðu innan við ákveðið tekjuhámark, þannig að þeir, sem hefðu hærri tekjur, kæmu ekki til greina í þessu sambandi.

Ríkisstj. leit svo á, að það væri ekki hægt að breyta þessu ákvæði vegna þeirra samninga, sem búið væri að gera, þar sem ekki var þar gert ráð fyrir neinni slíkri skerðingu. Til þess að athuga þetta sem nánast bað ég þá sáttanefnd, sem starfaði í þessari vinnudeilu og skipuð var af ríkisstj., um álit hennar í þessu máli. Þessi nefnd var þannig skipuð, að form. hennar var sáttasemjari ríkisins, Torfi Hjartarson tollstjóri, og aðrir nm. voru Emil Jónsson alþm. og vitamálastjóri, Gunnlaugur Briem skrifstofustjóri og Jónatan Hallvarðsson hæstaréttarforseti. Þeir hafa tjáð mér það, að þeir litu svo á, að ekki væri hægt annað, en líta svo á, að samningum væri riftað, ef breytt væri þeim ákvæðum, sem sett voru inn í samningana þegar vinnudeilan var leyst, á þann hátt að miða þessar nýju fjölskyldubætur við eitthvert ákveðið tekjuhámark. Að sjálfsögðu er þetta enginn úrskurður í þessu máli, en það er álit n. og a.m.k. gerir það að verkum, að ríkisstj. lítur enn ákveðnar svo á, að ekki sé unnt að breyta þessu ákvæði eins og er.

Ég taldi aðeins rétt að nefna þetta hér, um leið og þetta frv. er lagt fram, vegna þeirra umræðna, sem um þetta urðu í hv. Ed. Ég ætla ekkert að fara út í það frekar, hvort sú skoðun sé rétt, að hér sé gengið of langt í fjölskyldubótum, miðað t.d. við ellilífeyrinn; það kann að vera, að það megi segja það að vissu leyti, þó að ég persónulega sé nú eiginlega ekki á þeirri skoðun, því að ég lít svo á, að í okkar þjóðfélagi hafi yfirleitt illa verið séð fyrir þeim fjölskyldum, sem ala upp meginþorra þjóðarinnar. Það eru einmitt barnafjölskyldurnar, sem þarf fyrst og fremst að styðja, og hefur hlutur þeirra verið gerður knappur oft og tíðum, bæði í skattalöggjöf og á annan hátt. Og á þeim grundvelli tel ég, að ekki sé óeðlilegt, þó að fjölskyldubæturnar séu nokkuð auknar. Sumar nágrannaþjóðir okkar — eins og Svíar — veita strax fjölskyldubætur með 1. barni og svo áfram, en fara ekki eins hátt upp eins og við förum aftur með krakka, þegar fjölskyldurnar eru að verða stórar. Allt þetta er náttúrlega til athugunar. En nú stendur þetta svo af sér, að gert er ráð fyrir, að allsherjar endurskoðun fari fram á almannatryggingalöggjöfinni á næsta ári, 1954. Reglugerðir t.d., sem settar hafa verið, hafa verið við það miðaðar, að þær giltu ekki lengur, og það út frá því sjónarmiði, að þá ætti að fara fram almenn endurskoðun á allri tryggingalöggjöfinni, enda mun sterk nauðsyn vera til þess, að þessi geysilegi lagabálkur, eins margþættur og flókinn og hann er að ýmsu leyti, verði tekinn til gagngerðrar endurskoðunar. Ég nefni þetta m.a. af því, að ég tel þá minni ástæðu til að fara að bera saman ýmis atriði í tryggingalöggjöfinni nú, vegna þess að þessi endurskoðun liggur fyrir, en vil aðeins taka það fram, að ríkisstj. telur, að hún sé bundin við það að koma þeim ákvæðum, sem í þessu frv. eru, fram á þessu þingi, ef hún á að geta staðið við þau loforð, sem hún gaf í vinnudeilunni.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum nú í framsögunni um þetta mál, en leyfi mér að leggja til að, að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og til hv. heilbr.- og félmn.