07.11.1952
Efri deild: 22. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 87 í B-deild Alþingistíðinda. (121)

43. mál, bann við okri, dráttarvöxtum o. fl.

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Eins og sjá má á nál. meiri hlutans, lagðist ég gegn þessu frv. í n., þótt ég hafi ekki séð ástæðu til að skila sérstöku nál. af þeim ástæðum. Ég vil í örstuttu máli gera grein fyrir minni afstöðu.

Þegar Landsbankinn ákvað í byrjun aprílmánaðar að hækka vexti sína, innlánsvexti og útlánsvexti, voru ástæðurnar fyrir þeirri ráðstöfun einkum taldar tvær, í fyrsta lagi að draga úr óeðlilegri eftirspurn eftir lánsfé og í öðru lagi að ýta undir sparifjármyndun almennings. Ég tel, að hvorug þessara röksemda fái staðizt. Eins og nú er ástatt í landinu, er eftirspurn eftir fjármagni geysilega mikil og útlánastarfsemi bank- anna þannig, að það fé, sem tiltækt er, er í engu samræmi við þær miklu framkvæmdir, sem verið er að vinna. Og hækkun á vöxtum um 1% gerir ekkert til þess að hamla á móti neinni óeðlilegri eftirspurn eftir fjármagni. Ég tel það einnig ekki vera rétt, að hækkun á innlánsvöxtum muni að nokkrum mun ýta undir sparfjármyndun, eins og nú er ástatt, vegna þess að það er alkunna, að kaupmáttur peninganna rýrnar svo ört, að jafnvel þeir vextir, sem bankarnir borga núna, vega engan veginn upp á móti þeirri rýrnun. Og enginn maður, sem komið getur peningum sínum fyrir á annan hátt, leggur í það að geyma peninga, — hann veit, að það er sama og að bjóða upp á að ræna af sjálfum sér. Hins vegar eru áhrifin af hækkun útlánsvaxt- anna skaðleg og eru einn þáttur í lánsfjárpólitík, sem ég tel mjög hættulega og skaðlega, og væri hægt að rekja það í löngu máli, en ég geri ráð fyrir, að hv. þm. sé kunnugt um afstöðu míns flokks í því máli.

Þegar Landsbankinn tók þessa ákvörðun að hækka vextina, þá er mér nær að halda, að hæstv. ríkisstj. hafi samþ. það með allmiklum semingi. Og mér er einnig kunnugt um, að Útvegsbankinn og Búnaðarbankinn voru andvígir þessari hækkun, þótt þeir gerðu hana, eftir að Landsbankinn var búinn að framkvæma hana. Og ég þykist hafa nokkuð fyrir mér í því, að meiri hluti alþm. muni hafa verið á móti þessari vaxtahækkun, þegar hún kom til framkvæmda, enda kom það einnig fram í hv. n., að meiri hl. nm. lýsti því yfir, að hann hefði verið andvígur þessari breyt., þegar hún var gerð. Hins vegar fjallar þetta mál, eins og það liggur fyrir, ekki um Landsbankann eða Útvegsbankann eða Búnaðarbankann, heldur um sparisjóðina. Og mína afstöðu, að vera á móti þessu frv., ber engan veginn að skoða sem fjandskap við sparisjóðina eða ég vilji kveða upp dauðadóm yfir þeim, eins og hv. frsm. meiri hl. komst að orði. Mín afstaða er þannig hugsuð, að ef Alþingi lýsti yfir andstöðu sinni við vaxtahækkunina með því að fella þetta frv., þá væri Landsbankanum ekki stætt á því að halda fast við ákvörðun sína frá því s.l. vetur. Nú, en ef Landsbankinn hins vegar vildi standa á þeirri afstöðu, eftir að Alþingi væri búið að lýsa yfir eindregnum vilja sínum í þessu efni, þá gæti Alþingi náttúrlega með annarri lagabreyt. komið vilja sínum fram.