11.12.1952
Neðri deild: 38. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1183 í B-deild Alþingistíðinda. (1551)

167. mál, skattgreiðslu Eimskipafélags Íslands

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég hafði flutt brtt. við þetta frv. Þar sem þetta frv. var flutt af meiri hl. fjhn., þá hafði því verið lofað, að það yrði tekið fyrir í fjhn. og athugað í millitíðinni, og það hefur nú enn þá ekki verið gert. Hins vegar skildist mér það við 1. umr. málsins, að raunverulega væri málinu þá vísað til fjhn. aftur eins og oft kemur fyrir um mál, sem meiri hl. n. flytur, og það hefði verið nauðsynlegt, að það hefðu legið fyrir nokkrar upplýsingar í sambandi við þetta mál, sem n. hefði getað tekið fyrir.

Það minnsta, sem getur legið fyrir, þegar verið er að ræða um að gefa Eimskipafélaginu skattfrelsi, er, hverju það nemur. Hvað þýðir það að gera Eimskipafélag Íslands skattfrjálst? Hvað eru eignir og hvað eru tekjur þessa fyrirtækis? Hvað er verið að veita mikið fé úr ríkissjóðnum?

Ég hefði gjarnan viljað, að hér hefði legið fyrir reikningur Eimskipafélagsins eins og hann nú raunverulega lítur út, þar sem skipin eru sett upp á því verði, sem þau nú mundu seljast, — ekki þar sem þau eru sett upp á t.d. 1 krónu, 1.000 kr. eða 5.000 kr. eða eitthvað þess háttar og þar yfir, heldur á því verði, sem þau mundu seljast, og hvað það er af eignum, sem Eimskipafélagið á í peningum, t.d. inni í Landsbankanum. Því hefur verið haldið fram og ekki veríð mótmælt, að eignir Eimskipafélags Íslands mundu vera svo sem upp undir 150 millj. kr., það sé með öðrum orðum langríkasta fyrirtækið í landinu. Því hefur enn fremur verið haldið fram og ekki heldur verið mótmælt, að bara sjálf eignarafstaða ýmissa hlutabréfa, þ.e. hlutabréfaeignin í því, sé orðin þjóðfélagslegt vandamál. Þetta félag með þeim sérréttindum, sem það nýtur, hlýtur að verða slíkt bákn, að ef einhvern tíma kæmi að því, að venjulegur kapítalískur eignarréttur kæmi til greina viðvíkjandi hlutabréfum þess og ekki væri hægt að samblanda eiginlega eins konar þjóðnýtingu og einkaeign, sem Eimskipafélagið hefur verið frá því það var stofnað, þá mundi þjóðfélagið standa frammi fyrir hinum mestu vandamálum, því eins og hv. 3. landsk. hefur tekið hér fram nokkrum sinnum í umr., þá mundu það, ef t.d. ætti að slíta Eimskipafélaginu, verða ógurlegar fúlgur, sem yrði að gefa þar einstökum mönnum, ef allt gengi fram með venjulegum hætti.

Enn fremur hefði verið eðlilegt, að fyrir hefði legið, hverjar eru tekjur Eimskipafélagsins. Um það hefur verið deilt. Eins og leit út á reikningi s.l. árs, þá minnir mig, að það hafi verið eitthvað 2.8 millj. kr., sem Eimskipafélagið hafði í tekjuafgang, en þá var búið að afskrifa mikið af raunverulegum tekjum félagsins; raunverulegur gróði mun hafa verið 12–14 millj. kr. á því ári, en hins vegar afskrifað ákaflega mikið. Með öðrum orðum er hér um að ræða áreiðanlega miklar fúlgur, og það er ekkert óeðlilegt, að í fyrsta lagi viti þingheimur, hvað hann er að gera, þegar hann er að veita þessa undanþágu, og í öðru lagi sé þetta athugað með nokkurri hliðsjón bæði af eignarafstöðu Eimskipafélagsins, af skyldu þess gagnvart þjóðfélaginu, afstöðu þess í þjóðfélaginu og af því, hvernig breytt er við aðra þegna þjóðfélagsins. Þetta hefði ég nú óskað eftir, að hefði verið tekið fyrir í fjhn. Það hefur ekki verið gert, og það væri náttúrlega tími til þess enn þá, jafnvel hefði mátt skjóta á fundi um það, ef þessari umr. væri frestað.

Ég vil aðeins geta þess sem mynd af, hvernig hv. d. hefur farið að og hv. meiri hl. fjhn., þegar fluttar hafa verið hér kröfur frá fjöldanum og þegar ríkasta félag landsins fer hér fram á hlunnindi. Meiri hl. fjhn. mælir með þessu frv. óbreyttu, setur hér skattfrelsi handa félagi, sem á 150 millj. kr. Hins vegar flutti ég í sambandi við tekjuskattsl., sem hér lágu fyrir nýlega, ósköp litla brtt., út af fyrir sig máske lítilvæga; hún þýddi ósköp lítið fyrir ríkið. Skattstofan hefur reiknað út, hvað till. mín, sem hér lá fyrir og felld var fyrir nokkrum dögum, um að gera alla þá skattfrjálsa hvað tekjuskatt snertir, sem hafa undir 30 þús. kr. tekjum, og að draga nokkuð úr tekjuskatti þeirra, sem hafa milli 30 og 40 þús. kr., hefði þýtt. Þessi eftirgjöf hefði þýtt, eftir því sem skattstofan hefur reiknað út, fyrir ríkið hvað snertir tekjuskattinn hér í Reykjavík rúmar 3 millj. kr., en tekjuskattsgreiðendum í Reykjavík hefði fækkað um 41%. Með öðrum orðum er 41% af reykvískum tekjuskattsgreiðendum, sem hefur það litlar tekjur, að þeir hefðu, miðað við 30 þús. kr. núna, orðið skattfrjálsir. Þarna var um það að ræða með litlum kostnaði fyrir ríkissjóð að sýna sig í því að gefa skattfrelsi 41%, þ.e. mörgum þúsundum fátækra manna hér í Reykjavík, sem rétt hafa til að bíta og brenna og eru fyrir neðan það, sem hagstofan reiknar sem þurftartekjur núna handa fimm manna fjölskyldu. Það var ódýrt fyrir ríkið, en það var réttlætismál. Það var steindrepið hér. Meiri hl. fjhn. leggst á móti því, og till. er steindrepin. Svona er farið að, þegar fjöldinn á í hlut, þegar hinir fátæku eiga í hlut. Svo kemur hér sá ríkasti, og þá er ekki verið að diskútera sérstaklega mikið.

Nú hef ég lagt hér fram brtt. Hún er að vísu ekki stór og snertir aðeins einn einasta þátt í þessu máli. Hún snertir þátt, sem ég minntist á við 1. umr. málsins. Hún snertir það, að það mætti þó raunverulega ekki minna vera, en að ríkisstj. hefði nokkra hugmynd um, hvað er að gerast viðvíkjandi hlutabréfum Eimskipafélags Íslands. Eigum við að standa frammi fyrir því, eftir að hafa ár eftir ár, í áratugi, veitt Eimskipafélaginu skattfrelsi og viðurkennum allir, hve gífurlegt þjóðnytjastarf Eimskipafélagið hefur unnið, viðurkennum allir, að þetta félag eigi það fyllilega skilið, að alvarlega sé við það rætt um þess kröfur og tekið tillit til þeirra, og engum okkar blandast hugur um, hvaða hlutverk það hefur unnið okkar þjóð, — um það er ekki deilt, — en eigum við að standa frammi fyrir því einn góðan veðurdag, að það sé búið að svæla undir sig af klíku ósvífinna peningamanna hér í Reykjavík öll hlutabréfin í Eimskipafélagi Íslands? Eigum við að standa frammi fyrir því, að einhverjir braskarar hér í Reykjavík, undir hvaða formi sem þeir klæða sig, kannske agentar amerískra auðhringa eða einhverjir svindlarar, séu búnir að kaupa upp öll hlutabréf Eimskipafélags Íslands? Eigum við að standa frammi fyrir því, að hinir og þessir huldumenn hafi menn á launum til þess að kaupa upp hlutabréf Eimskipafélags Íslands? Og svo stöndum við bara einn góðan veðurdag frammi fyrir því, að hlutabréf Eimskipafélags Íslands eru í höndum einhverrar smáklíku hérna, sem setur þjóðinni stólinn fyrir dyrnar. Við erum búnir að verða varir við þessa þróun á allmörgum sviðum. Við sjáum, hvert stefnir með þeim aðferðum, sem beitt er. Við sjáum frammi fyrir okkur, hvernig er verið að stela stærstu fyrirtækjum landsins og hvernig stjórnarfl. hjálpa til þess. Við sjáum, hvernig er verið að fara með áburðarverksmiðjuna. Við sjáum nú, hvernig 104 millj. kr. verða veittar úr ríkissjóði sem lán eða framlag. Við heyrum hæstv. landbrh., Hermann Jónasson, koma fram í útvarpinu og skrökva að þjóðinni, segja, að ríkið hafi aðeins lagt fram 6 millj. kr. til áburðarverksmiðjunnar, og sleppa því að segja frá því, að það sé verið að samþ. lög hér á þinginu, þar sem verið er að lána 98 millj. kr. til þessarar sömu áburðarverksmiðju, og að við búumst nú meira að segja við, að lánið til áburðarverksmiðjunnar fari kannske fram úr 100 millj., því að ef til vill kemur hún til með að kosta meira en þær 108 milljónir, sem ríkisstj. nú þegar hefur gefið upp. Við sjáum hér á því, hvernig féð er notað, sem er í höndunum á ósvífnustu fésýslumönnunum í Reykjavík. Framsfl. og og Sjálfstfl. eru að taka eignirnar, sem ríkið á, og setja þessar eignir undir yfirráð nokkurra ósvífinna fjárplógsmanna, auðvitað undir kjörorðinu: „Segjum fjárplógsstarfseminni stríð á hendur.“ Það er þess vegna fyllilega þess vert, að það sé upplýst, hverjir það eru, sem skipuleggja nú uppkaup á hlutabréfum Eimskipafélags Íslands. Og það hefði verið fyllilega viðkunnanlegt, að það hefði fengizt hér fram, og ég vil skora á hv. þm. og ekki sízt hæstv. ráðh., ef þeir hafa einhverja hugmynd um, hvað sé að ganga fyrir sig í sambandi við hlutabréfakaup Eimskipafélags Íslands, þá geri þeir svo vel að gefa upplýsingar um það. Ég lýsti ekki þessu við 1. umr. málsins. Það var gengið út frá því, að það yrði ef til vill rætt um þetta á milli umr. í fjhn. Það hefur ekkert verið gert, og nú hef ég flutt till., sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: „Aftan við 1. gr. bætist: Skattfríðindi þessi eru bundin því skilyrði, að ríkissjóður hafi forkaupsrétt að hlutabréfum félagsins, þegar þau eru seld.“

Þegar Eimskipafélag Íslands upprunalega var stofnað, þá munum við allir, hvers konar þjóðernisalda gekk yfir okkar land. Fátækir og ríkir lögðu fram sína hluti, frá sínum 25 kr., sem þá voru stórir peningar, og upp í hundruð eða þúsundir, eftir því sem þeir áttu til. Og ég býst við, að fæstir okkar telji það raunverulega eftir, að þeir menn, sem upphaflega lögðu fram þessi hlutabréf, raunverulega fyrst og fremst sem fóru í okkar þjóðfrelsisbaráttu, eigi þarna eign, sem sé orðin mikils virði. En þegar farið er að ná þessari eign af þeim, kaupa hana upp, gera þessi hlutabréf, sem lögð voru fram sem þáttur í efnahagslegri sjálfstæðisbaráttu Íslands, ef til vill að snöru um háls þjóðarinnar til þess að hafa valdið á henni efnahagslega hvað flutningana snertir, þegar farið er að kaupa þetta upp af nokkrum einstökum mönnum og öllu haldið leyndu, sérstaklega passað, að það komi hvergi við skatta og uppboð, þá er ekkert undarlegt, þó að maður vilji, að hægt sé að fylgjast með þessu. Mín till. fer þess vegna fram á það, að þegar seld eru gömul hlutabréf í Eimskipafélaginu, þá sé ríkinu boðinn forkaupsréttur. Það mundi þýða tvennt: Í fyrsta lagi, að ríkið getur keypt þessi bréf og þar með eignazt meira og meira af hlutabréfum í Eimskipafélagi Íslands. Og ég efast ekki um, að það yrði mjög hátt verð á slíkum bréfum, og út af fyrir sig sé ég nú ekkert eftir, þó að ríkið kaupi þessi bréf allháu verði. Við vitum það allir, að þau ganga á allháu verði, ef þau eru seld. Hins vegar yrði það auðvitað alltaf á valdi ríkisstj., hvort hún kaupir þessi bréf. Það er ekki verið að setja skyldu á ríkissjóð að kaupa þau með þessu móti. Og það má vel vera, að fjmrh. mundi kannske stundum af einhverjum ástæðum, annaðhvort af því að hann væri nískur á fé ríkissjóðs, sem náttúrlega kannske er ekki alltaf hægt að lá honum, eða af einhverjum öðrum ástæðum, neita forkaupsréttinum, sem ég áliti þó rangt. En þá væri þó eitt a.m.k. komið í ljós. Það væri komið í ljós, á hvað hlutabréf Eimskipafélags Íslands eru seld manna í milli. Nýlega var t.d. frá því sagt hér í bænum, að einn af eigendum hlutabréfa í Eimskipafélagi Íslands, sem átti þar allmikið af hlutabréfum, hefði sett þau á uppboð. Það hafði verið ákveðið uppboð á þessum hlutabréfum og uppboðið skyldi fara fram einn ákveðinn dag. Svo var hætt við uppboðið. Og hlutabréfin munu hafa verið seld án opinbers uppboðs.

Það er vitanlegt, að ef uppboð færi fram á hlutabréfum Eimskipafélags Íslands, þá er það opinbert. Þá kemur í ljós, á hvað bréfin seljast. Þá kemur í ljós, hver kaupir bréfin og hvað hann gefur fyrir þau. Og það þýðir, að skattayfirvöldin vita hvort tveggja, á hvað bréfin seljast, hver kaupir þau, hver á þau og fyrir hvað hann hefur keypt þau. Og stundum þykir máske viðkomandi fésýslumönnum það betra, að slíkt komi ekki í ljós, og ef til vill hefur þess vegna verið hætt við uppboðið og ef til vill hafa bréfin þess vegna verið seld á laun.

Hefði nú þessi setning, sem ég legg til að bætist þarna við, verið orðin að lögum og Eimskipafélagið hefði heldur kosið, að hún væri í lögum heldur en að skattfrelsi væri ekki samþykkt, þá hefði það komið í ljós, hvers konar eigendaskipti voru þarna að verða. Og jafnvel þó að ríkissjóður hefði ekki notað forkaupsréttinn, þá hefði þess vegna þetta farið alveg hreint opinberlega fram, og það er ekki nema eðlilegur hlutur. Ég held þess vegna, að þetta væri engum til trafala. Ég gæti meira að segja trúað, að stjórn Eimskipafélags Íslands hefði ekkert á móti þessu, og ég hefði ekkert á móti því, að stjórn Eimskipafélags Íslands væri að því spurð, hvort hún hefði nokkuð við það að athuga, að slíkt ákvæði væri sett um sölu hlutabréfanna.

Ríkissjóður hefur átt í Eimskipafélaginu frá upphafi, og það væri ekkert óeðlilegt, þó að hann eignaðist eitthvað meira í því, þannig að þó að þessi forkaupsréttur yrði notaður, þá væri það sem sé síður en svo hvorki Eimskipafélaginu né ríkinu til annars en góðs.

Ég vildi nú eindregið mælast til þess, að nokkurt hlé væri gert á þessari umr., þannig að minnsta kosti að fengist úr því skorið, hvort það væri hægt að skjóta á fundi í fjhn., þótt ekki væri nema snöggvast, og vildi þess vegna mjög eindregið mælast til þess, að hæstv. forseti a.m.k. frestaði umr. um skeið nú á fundinum, svo að það gæfist tóm til þess að athuga þetta. En það er ekki vegna þess, að ég vilji neitt tefja fyrir málinu, heldur aðeins af þeim ástæðum, sem ég hef skýrt fyrr.