16.12.1952
Efri deild: 41. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1197 í B-deild Alþingistíðinda. (1597)

186. mál, almannatryggingar

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Ég er sammála meðmn. mínum um að mæla með því, að frv., eins og það liggur fyrir, verði samþ., að undantekinni 4. gr., um óbreytta framlengingu bráðabirgðaákvæðis laganna, sem mælir svo fyrir, að elli- og örorkulífeyrisgreiðslur skuli skertar hjá þeim mönnum, sem hafa tekjur umfram visst lágmark. En auk þess vil ég bæta inn í frv. nokkrum fleiri atriðum, eins og brtt. mínar á þskj. 468 bera með sér. Að því er 4. gr. frv. snertir, vil ég taka það fram, að með tilliti til ummæla, sem hæstv. fors.- og félmrh. viðhafði hér í þessari hv. d., þegar framlenging bráðabirgðaákvæðisins var til umr. á siðasta þingi, þá leyfði ég mér að vænta þess, að hæstv. ríkisstj. mundi bera fram á þessu þingi till. um annaðhvort afnám skerðingarákvæðisins eða verulega linkun á þeim ákvæðum. Og allt fram undir síðustu daga hef ég búizt við því, að frá hæstv. ríkisstj. mundu koma till. um þetta efni, eins og líka ljóst verður á þeirri grg., sem fylgdi frv. frá hæstv. ríkisstj., því að þar er frá því skýrt, að ýmsar ábendingar hafi verið athugaðar í þessu sambandi og fengin áætlun um kostnað við þær breyt., sem þar hefur verið drepið á. Nú hefur, mér til mikilla vonbrigða, ekki neitt af þessu orðið, og flyt ég því þessar brtt., sem hér eru prentaðar á þskj. 468. Eru þær allar, að undantekinni 2. brtt., um mæðralaun, við það miðaðar, að ákvæðinu um skerðingu lífeyris sé breytt sem næst í það form, sem ég taldi mig hafa ástæðu til að ætla að hæstv. ríkisstj. mundi leggja til, þó að ekki hafi nú af því orðið.

Ég skal svo ekki hafa þennan formála lengri, en víkja að brtt.

Fyrsta brtt. fjallar um breyt. á 2. málsgr. 13. gr. í lögunum frá 1946 og er þess efnis, að þeir, sem njóta eftirlauna af opinberu fé, sem eru lægri en nemur hálfum öðrum lífeyri, skuli fá ellilífeyrisgreiðslur frá Tryggingastofnuninni allt að því að fylla upp í þá upphæð, hálfan annan lífeyri. Lífeyrisgreiðslan nemur nú á fyrsta verðlagssvæði 6.120 kr., þannig að þeir menn, sem njóta eftirlauna samkv. 18. gr. eða eftirlauna frá sérstökum lífeyrissjóðum og hafa lægri eftirlaun en 9.180 kr., ættu að fá viðbót frá Tryggingastofnuninni allt að þeirri upphæð. Það er 50% hækkun á því skerðingarmarki, sem núna er miðað við, þ.e.a.s. úr 6.120 kr. upp í 9.180 kr. Því hefur margsinnis verið hreyft hér á hv. Alþ., að þessir menn hafi að vissu leyti orðið hart úti, þegar tryggingalögin voru sett, þannig að þeir, sem höfðu ekki hærri lífeyrisgreiðslur eða eftirlaun heldur en lífeyrir frá Tryggingastofnuninni nemur, höfðu ekki bætt sín kjör neitt frá því, sem áður var. Þeir einir, sem höfðu lægri upphæð í eftirlaun heldur en lífeyrisgreiðslur námu, fengu einhverjar bætur frá Tryggingastofnuninni, þ.e.a.s. fyllt upp í sem svaraði einföldum lífeyri. Hér er gert ráð fyrir að ganga til móts við þessar réttmætu kvartanir með því að hækka það mark, sem miðað er við að lífeyrir og eftirlaun samtals megi nema, upp í hálfan annan lífeyri, eða sem svarar 9.180 kr. fyrir einstakling á 1. verðlagssvæði.

Önnur brtt. er um að taka upp nýjan bótaflokk, mæðralaun til ekkna, fráskilinna kvenna og ógiftra mæðra, sem hafa 2 börn eða fleiri á sínu framfæri. Frv. um þetta efni hefur nokkrum sinnum verið lagt fyrir þingið á undanförnum árum, og nú liggur fyrir hv. Nd. frv. um þetta sama efni, og eru meginatriði þess tekin upp í brtt. mína. Samkv. henni er gert ráð fyrir því, að einstæð móðir, sem hefur fyrir 2 börnum að sjá, skuli fá árlega sem svarar 1/3 úr lífeyrisupphæð, eða 1.360 kr. í grunn. Það eru liðlega 2 þús. kr. með núverandi vísitölu. Ef börnin eru 3, er ætlazt til að hún fái sem svarar 2/3 úr lífeyrisupphæð, en séu börnin 4, þá fái hún fulla lífeyrisupphæð fyrir sig, auk þess barnalífeyris að sjálfsögðu, sem greiddur er með börnunum.

Í þessari till. er miðað við það, að einstæð móðir, sem er sæmilega hraust og vinnufær, eigi að geta séð fyrir barni, ef það er ekki nema eitt, með þeim barnalífeyri, sem Tryggingastofnunin greiðir henni. Séu börnin 2, leiðir að sjálfsögðu af því, að hún á óhægara með að vinna sér inn tekjur. Séu börnin fleiri, þá fer þeim mun meira af hennar tíma til að sjá um börnin, og þeim mun minni möguleikar eru fyrir hana til að afla sér tekna. Séu börnin orðin 4, verður að telja, að undir flestum kringumstæðum sé fullkomið verk fyrir konuna að annast um þau, og það er því gert ráð fyrir því, að hún fái þá greitt sem svarar fullum lífeyri.

Það skal tekið fram, af því að ýmsir hafa fundið að þessari till., að það mundi sérstaklega falla í hlut ógiftra mæðra, að skýrslur sýna, að meginþorrinn af óskilgetnum börnum eru einbirni, en tiltölulega lítill hluti af mæðrum óskilgetinná barna á fleiri en eitt barn og mjög fáar fleiri en tvö.

Þá vík ég að 4. till., sem í sjálfu sér er meginefni minna brtt., en það er, að skerðingarmarkið fyrir þá, sem hafa aðrar tekjur en lífeyrinn, verði hækkað um 50% frá því, sem nú er. Samkv. gildandi reglum eiga menn rétt á óskertum lífeyri, þó að aðrar tekjur nemi jafnhárri upphæð eins og lífeyririnn nemur samkv. lögunum, en það er fyrir einstaklinga á 1. verðlagssvæði nú 6.120 kr. Ef tekjurnar fara fram úr því marki, þá lækkar lífeyririnn um 1 kr. fyrir hverjar 2, sem tekjurnar nema, og fellur siðan niður með öllu fyrir einhleypinga á 1. verðlagssvæði, ef tekjurnar ná 18.360 kr. Eftir brtt. mínum er gert ráð fyrir því, að þó að maðurinn hafi 9.180 kr. í tekjur á 1. verðlagssvæði, þá fái hann fyrir því óskertan lífeyri, þannig að lífeyrir og tekjur megi þá nema samtals nokkuð yfir 15 þús. kr. án nokkurrar skerðingar á lífeyri. Séu tekjurnar meiri, þá á lífeyririnn að lækka eftir þeim reglum, sem ég gat um áðan, og falla niður, þegar tekjurnar eru komnar í liðlega 21 þús. kr. Tilsvarandi breyt. verður svo á 2. verðlagssvæði og eins tilsvarandi breyt. á greiðslu lífeyris til hjóna.

Ég verð að telja, að þessi breyt. á skerðingarákvæðunum sé alveg sjálfsögð. Það var ekki tilætlunin, þegar lögin voru sett, að skerðing vegna tekna almennt gilti lengur en fyrstu 5 árin eftir að lögin tækju gildi. Nú hefur þetta verið framlengt um eitt ár, og það verður að játa, að það er býsna hart að fara strax að skerða lífeyri manns, sem ekki hefur nema 6 þús. kr. tekjur, t.d. hér í Rvík, ef hann kemur eitthvað upp fyrir það mark. Hér er því lagt til, eins og ég gerði grein fyrir áðan, að skerðingarmarkið verði hækkað um 50%, upp í liðlega 9 þús. kr., en skerðingarreglurnar að öðru leyti látnar haldast óbreyttar.

Þriðja brtt. er svo bein afleiðing af hinum, sem ég hef nefnt. Þar er gert ráð fyrir því, að iðgjöld og framlög verði hækkuð eins og í gr. segir, þ.e.a.s., iðgjöld kvænts manns á 1. verðlagssvæði hækki úr 390 kr. upp í 410 kr., eða um 20 kr. á ári í grunn, — ég tala hér alls staðar um grunnupphæðir. Fyrir kvæntan mann á 2. verðlagssvæði nemur hækkunin 15 kr., og fyrir aðra iðgjaldsgreiðendur nemur hún 15 kr. á ári, einnig miðað við grunnupphæðir. Iðgjöld atvinnurekenda er gert ráð fyrir að hækki á 1. verðlagssvæði um 25 aura á viku, en á 2. verðlagssvæði um 20 aura á viku. Þá er gert ráð fyrir, að framlag sveitarfélaganna hækki um hér um bil 500 þús., úr 10.8 upp í 11.3 millj., og að framlag ríkissjóðs hækki úr 17.4 upp í 18.3 millj., eða um 900 þús. kr. í grunn. Þessar hækkanir nema rétt í kringum 5% til uppjafnaðar. Aukinn kostnaður Tryggingastofnunarinnar vegna breyt. á skerðingarmarkinu er áætlað að nemi nokkuð yfir 2 millj. kr. og kostnaðaraukinn vegna mæðralaunanna nálægt 2 millj., eða samtals nokkuð yfir 4 millj. kr. á ári alls, sem útgjöld Tryggingastofnunarinnar mundu aukast af þessum sökum. En sú upphæð nemur rétt í kringum 5% af þeim tekjuliðum, sem stofnunin nú hefur samkv. lögum. Eru þessar till. um breyt. á 24. gr. laganna frá 1952 við það miðaðar, að þessi tekjuauki fáist. Af þessu mundu grunnupphæðir framlags ríkissjóðs og sveitarsjóða hækka, eins og ég hef gert grein fyrir, um 500 þús. kr. í grunn, eða samtals útgjaldaauki þessara aðila verða nokkuð yfir 2 millj. kr. ári. Þessi hækkun, sem hér er um að ræða, er að minni hyggju ekki það mikil, að neinum sérstökum erfiðleikum valdi, enda var mér kunnugt um það, að ríkisstj. var allt fram undir það síðasta mjög að hugsa um það að taka upp og gera að sínum till. þær breyt. á skerðingarmarkinu, sem hér eru bornar fram, hvað sem því nú veldur, að hæstv. ríkisstj. hefur ekki séð sér fært að bera þessar till. fram. Ég álít, að þessar breyt. séu aðkallandi, — ég vil segja alveg sjálfsagðar, — og ég álít, að sá kostnaðarauki, sem af þessu stafar, 5% aukning á framlögum til trygginganna, sé ekki það mikill, að það valdi sérstökum erfiðleikum og að af þeim sökum ætti ekki að vera hægt að gera þessar breyt. nú þegar.

Meðnm. mínir telja rétt að láta þessar breyt. bíða, þar til heildarendurskoðun laganna fari fram, sem væntanlega verður fyrir árslok 1954, og er ég þeim sammála um, að nauðsynlegt verði að endurskoða lögin fyrir þann tíma, vegna þess að ýmis ákvæði í þeim eru miðuð við þau áramót. Hins vegar held ég, að það væri mjög gott að vera þá búinn að fá nokkra reynslu af þessum breyt., sem hér er gert ráð fyrir og áreiðanlega verða kröfur uppi um að gerðar verði á lögunum, þannig að hægt sé að sjá fyrir með fullri vissu þá, hver kostnaður fylgdi þessu og hvort ekki væri þá bætt úr þeim stærstu ágöllum, sem nú eru á lögunum, eins og ég hygg að margir mundu telja að gert væri, ef þessar till. fengjust samþykktar.