17.10.1952
Efri deild: 10. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 30 í B-deild Alþingistíðinda. (18)

19. mál, tekjuöflun til íþróttasjóðs

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Herra forseti. Fjhn. hefur athugað brtt. hv. 4. þm. Reykv. á þskj. 88 nú á fundi sínum í dag, og telur hún þær ekki eiga heima í frv. þessu, sem aðeins er um skattfrelsi af vinningum. Er það ekki af andúð nefndarinnar til sjúkrahúsa, að hún er á móti till. eins og þær nú liggja fyrir. Tekjur af þessum vinningum virðast vera sáralitlar enn sem komið er, og eftir því, sem upplýst er, svara þær rétt kostnaði þeim, sem orðið hefur við getraunastarfsemina, — að því er mér er tjáð, — og þar af leiðandi sýnist það ekki til margskiptanna, enda er svo farið um íþróttasjóð, að hann þarf á sínu að halda, þótt einhver ágóði yrði. Nú voru, eftir því sem mér er tjáð, nokkrar tekjur fyrst af starfseminni, en hafa farið mjög þverrandi, og meðan ekki er séð fyrir, hvernig því lyktar, þá tel ég frá mínum bæjardyrum séð ekki tímabært að fara að skipta þessum tekjum upp, þótt einhverjar kunni að verða, sem vafasamt er.

Nefndin hefur ekki tekið afstöðu til brtt. að efni til, ef þær koma fram í sérstöku frv., en eins og þær nú liggja fyrir, þá leggur hún til, að þær verði felldar, ef flm. dregur þær ekki til baka, og að frv., eins og það nú liggur fyrir, verði samþykkt óbreytt.