02.02.1953
Neðri deild: 62. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1365 í B-deild Alþingistíðinda. (1978)

66. mál, leigubifreiðar í kaupstöðum

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Ég held, að það skorti kannske nokkuð á, að menn geri sér rétta grein fyrir, hvað raunverulega felst í þessu máli eins og það nú er orðið.

Þegar frv. var upphaflega flutt í þessari d., þá var gert ráð fyrir, að heimilt skyldi undir vissum kringumstæðum að takmarka tölu bifreiða, hvort heldur sem væri fólksbifreiðar eða vörubifreiðar. Málíð er hins vegar orðið þannig núna, að það tekur eingöngu til vörubifreiða — og eins og frv. er eingöngu vörubifreiða í Reykjavík. Það er mjög mikill munur á aðstöðu fólksbifreiðaeigenda og vörubifreiðaeigenda varðandi þetta mál, sem ég vildi mega vænta, að hv. þm. gerðu sér fulla grein fyrir. Í Reykjavík er það svo, að fólksbifreiðastöðvarnar eru reknar annaðhvort sem sameignarfélög eða hlutafélög. Og ef þetta frv. yrði samþ. eins og það fór héðan frá d. á sínum tíma og eins og það er nú, þá má segja, að fólksbifreiðastöðvarnar hér í Reykjavík hafi í hendi sér að takmarka aðstreymi í atvinnugreinina, þó að það sé búið að taka út úr frv. heimildina, sem var til takmarkana varðandi fólksbifreiðarnar. Þetta er vegna þess, að þessi viðkomandi félög fólksbifreiðaeigendanna eða bifreiðarstjóranna geta samið um þessa hluti og hafa gert það og gera það hér í Reykjavík, — gera samninga um það sín á milli, hversu marga bifreiðarstjóra hver stöð skuldbindur sig til þess að hafa hjá sér og fleiri ekki. Það er þess vegna, eins og frv. er, þegar skylt er að vera á stöð, eins og segir í frv.: „að þeir skuli hafa afgreiðslu á bifreiðastöð“ — varðandi fólksbifreiðarnar raunverulega í framkvæmd takmörkun á leigubifreiðum til fólksflutninga, þar sem bifreiðastöðvarnar hafa sjálfar í hendi sér að takmarka aðganginn að stöðvunum. Þessu víkur allt öðruvísi við hér í Reykjavík varðandi vörubifreiðarnar, vegna þess að vörubifreiðastöðin Þróttur er eign stéttarfélagsins og verður þar af leiðandi að standa opin þeim, sem þangað vilja, eða m.ö.o., þeir hafa ekki aðstöðu til þess að meina neinum að gerast aðili að stöðinni. Af þessum sökum hygg ég einnig að það hafi verið, sem hv. Ed. féllst á að taka inn í frv. heimild til takmörkunar fyrir vörubifreiðarnar og samþ. þá breytingu á málinu, að vísu bara í Reykjavík, og það var af augljósum ástæðum gert, vegna þess að það var nokkur andúð hjá þm.samþ. þetta frv. og það mátti ætla, að andúðin yrði þeim mun minni, sem frv. yrði takmarkaðra. Það hafði ekki legið fyrir beiðni frá neinum stað nema hér í Reykjavík um takmörkun á bifreiðunum. Þar af leiðandi var till. hæstv. dómsmrh. í Ed. takmörkuð við Reykjavík eina og náði þar samþykki.

Nú eru að vísu fluttar hér brtt. um, að þetta skuli ná til annarra kaupstaða, takmörkunin varðandi vörubifreiðarnar, og það er skiljanlegt. Það eru hv. flm. frv., sem vilja leggja til, að heimildin til þess að takmarka vörubifreiðar nái einnig til annarra kaupstaða en Reykjavíkur. Ég skil þeirra sjónarmið fyllilega. Það eina, sem ég vildi um það segja, er það, að ég óttast ef til vill, að það kunni að hafa einhver áhrif á afgreiðslu málsins, þannig að sumir vilji síður vera með frv., eftir því sem það er víðtækara, en þó er að vænta þess bezta í því efni.

Það er alveg augljóst mál, að þessari heimild mundi verða beitt varlega. Það eru þrír aðilar, sem eiga um hana að fjalla, áður en til takmörkunarinnar kemur. Það er stéttarfélag vörubifreiðaeigendanna, það er bæjarstjórn viðkomandi staðar og það er, eins og frv. er nú, dómsmrn. — eða samgmrn., ef sú brtt. yrði samþ. Hins vegar er það svo, og þeir vita það, sem eru nokkuð kunnugir þessu máli hér í Reykjavík, að akstur vörubifreiða er með mjög sérstökum hætti, og það hefur verið vissulega mjög varhugavert og skapað ótrúlega mikla erfiðleika, hversu atvinnan hefur verið skrykkjótt í þessari atvinnugrein — gengið upp og niður. Það hafa komið þau tímabil, þar sem atvinnan hefur verið ákaflega mikil, og menn hafa beinlínis þust að þessari atvinnugrein, sem svo á öðrum stundum hefur skapað tilsvarandi erfiðleika, þegar menn standa uppi með þessi dýru tæki og eyðslusömu. Þannig hefur það verið hér í Reykjavík að undanförnu, að það hefur eiginlega verið viðloðandi atvinnuleysi í atvinnugreininni og ýmsar ráðstafanir verið gerðar til þess á stundum að reyna að létta undir hjá mönnum með skiptivinnu og eins konar takmarkaðri atvinnubótavinnu, sem ef til vill hefði verið hægt að komast hjá, ef á þeim tíma, þegar betur horfði, hefðu verið settar nokkrar skorður við því, hversu menn komust inn í þessa atvinnugrein.

Þó að ég sem sagt geti alveg fallizt á sjónarmið þeirra manna, sem segja: Við eigum að hafa þetta frjálst og ekki að takmarka aðganginn í atvinnustéttirnar, — þá vil ég biðja menn að taka eftir því, að þessi heimild, sem hér er farið fram á, er á þann hátt þríþætt, að það kemur ekki til með, að henni verði beitt, nema allir þeir aðilar, sem hér eiga hlut að máli, séu því samþykkir, þ.e.a.s. stéttarfélagið, bæjaryfirvöldin og rn., dómsmrn. eða samgmrn. — Það er náttúrlega mesti misskilningur hjá hv. þm. Dal., að þetta mál sé fyrst og fremst samgöngumál. Það má kannske segja, að það hafi fremur verið samgöngumál meðan takmörkunin tók líka til fólksbifreiðanna, en um það er ekki deilt núna. Það er nú um það að ræða, hvort það eigi að heimila takmörkun á vörubifreiðunum. Hins vegar læt ég mér það algerlega í léttu rúmi liggja, hvort það er samgmrn. eða dómsmrn., sem á fyrir sitt leyti að taka ákvörðun um það, hvort það vill heimila takmörkunina eftir beiðni bæjarstjórnar og stéttarfélagsins. Þó er það mín skoðun, að það sé eðlilegri sá háttur, sem upphaflega var og er enn í frv., að um slíkar takmarkanir sem þessar sé fjallað af dómsmrn. fremur en samgmrn., jafnvel þó að málið væri í eðli sínu meira samgöngumál, en það er nú að minni skoðun, enda heyrir framkvæmd bifreiðalöggjafarinnar undir dómsmrn.

Þetta mál er mjög fast sótt af þeim, sem mestra hagsmuna hafa af þessu að gæta, sjálfum vörubifreiðarstjórunum. Og reynsla þeirra manna, sem starfað hafa hér í bæjarstjórn á undanförnum árum, hefur orðið sú, að við hv. fim., borgarstjórinn og ég, sem báðir eigum sæti í bæjarstjórn og bæjarráði, höfum á grundvelli þeirrar reynslu, sem við höfum öðlazt í samskiptum við þessa atvinnugrein á undanförnum árum að því er tekur til bæjarfélagsins, komizt að þeirri niðurstöðu, að rétt væri að fallast á þá beiðni, sem fram kemur hjá bifreiðarstjórunum, enda þótt menn „principielt“ kynnu ef til vill að óska fremur, að slík mál væru frjáls og óbundin. En það má segja, og verður ekki hrakið, að varðandi vörubifreiðarstjórana sérstaklega stendur þannig á, að ég hygg, að það séu ekki margar atvinnugreinar, sem séu sambærilegar að því leyti, hversu atvinnan hefur gengið upp og niður á stundum, elns og ég sagði, þegar mjög mikil eftirspurn hefur verið eftir þessum atvinnutækjum og starfsemi þeirra, en því miður í annan tíma miklar breytingar og dalir í þessari atvinnu, sem hefur bæði skapað bifreiðarstjórunum mikla erfiðleika og leitt af sér óhóflegan kostnað í þjóðfélaginu vegna þess, hversu dýr tæki er hér um að ræða. Ég vil þess vegna eindregið mega mælast til þess við hv. þingmenn, þar sem frv. er nú orðið það þröngt, að það nær bara til Reykjavíkur, að þá fallist menn á að samþ. það og jafnvel einnig þó að það næði til kaupstaðanna annarra en Reykjavíkur, eins og lagt er til af hv. þm. Ak. og hv. þm. Hafnf.