03.12.1952
Sameinað þing: 20. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 133 í D-deild Alþingistíðinda. (2548)

119. mál, varahlutir til bifreiða

Flm. (Steingrímur Aðalsteinsson):

Herra forseti. Þáltill. sú, sem hér liggur fyrir á þskj. 171, fer fram á það, að Alþ. álykti að skora á ríkisstj. að fella niður varahluta til bifreiða af skrá um bátagjaldeyrisvörur, en veita í staðinn samtökum bifreiðarstjóra og bifreiðaeigenda innflutningsleyfi fyrir nauðsynlegu magni bifreiðavarahluta. Þó að þess sé getið hér í grg. og allmiklar umr. hafi farið fram um það hér á hv. Alþ., að sú ráðstöfun ríkisstj. að auglýsa hinn svo kallaða bátagjaldeyrisvörulista sé ólögleg, þá ætla ég ekki að gera það að sérstöku umtalsefni í sambandi við þessa till. Hitt er aftur á móti staðreynd, að þessi fyrirmæli hafa verið gefin út af stjórnarvöldunum og það hefur síðan orðið til þess, að bifreiðarstjórar og bifreiðaeigendur hafa meðal annarra orðið fyrir því, að allir varahlutar til bifreiðanna eru settir á, þennan bátagjaldeyrislista, og það hefur aftur valdið því, að þessar vörur hafa hækkað svo geysilega í verði, að samtök bifreiðarstjóra telja nú orðið næstum ókleift fyrir bifreiðaeigendur og bifreiðarstjóra að halda bifreiðum sínum í því lagi, sem nauðsynlegt er, bæði vegna almenns öryggis og eins vegna þæginda þeirra farþega, sem bifreiðarnar nota.

Ég hef m. a. leyft mér að birta hér sem fskj. með þessari till. ályktun, sem samþ. var í vörubílstjórafélaginu Þrótti 19. okt. s. l., þar sem komizt er svo að orði, að allur fjöldinn af meðlimum þess félags sjái sér nú engin ráð til þess að framkvæma nauðsynlegasta viðhald á bifreiðum sínum. Enn fremur hef ég leyft mér að birta hér sem fskj. verðskrá, sem bifreiðarstjórafélagið Hreyfill hefur fengið uppgefna hjá h/f Ræsi hér í Reykjavík yfir fjölmarga þá hluti, sem nauðsynlegastir eru taldir til viðhalds fólksbifreiðum, og sýnir þessi skrá verð þess magns af varahlutum, sem hér er um að ræða, í maí 1949, í maí 1950, maí 1951 og febrúar 1952. Þessi verðsamanburður sýnir það, að í maí 1949 hefur það magn varahluta, sem þarna er upp talið og að vísu er ekki tæmandi, en þó, eins og ég nefndi áðan, yfir fjölmarga þá hluti, sem sérstaklega þarf á að halda í sambandi við viðhald bifreiða, — að í maí 1949 hefur þetta magn varahluta kostað kr. 10.986.20. Þetta er sem sagt áður en gengisfellingin er framkvæmd og áður en bátagjaldeyririnn kemur til sögunnar. Í maí 1950, eða ári síðar, er þetta sama magn varahluta komið upp í kr. 21.095.40 og hefur þar með hækkað um rúmar 10 þús. kr. á einu ári, eða um 92%. Þegar þetta er orðið, — þá er gengisfellingin komin til sögunnar og byrjuð að verka, þó að hún að vísu eigi eftir að verka meira, þegar fram líða stundir. Í maí 1951 er þetta sama magn varahluta komið upp í kr. 33170.40. Hefur þá orðið á því á því ári ný hækkun, sem nemur kr. 12.075.00, eða ný hækkun, sem nemur 57% til viðbótar við þá hækkun, sem hafði orðið á næsta ári á undan. Þá er gengisfellingin sennilega farin að verka til fulls, eða a. m. k. því sem næst, og þá er einnig byrjað á bátagjaldeyriskerfinu, og er það farið eitthvað að verka til verðhækkunar á þessum hlutum. Í febrúar 1952, þegar gengisfellingin og bátagjaldeyriskerfið er farið að verka til fulls, að því er maður getur ætlað a. m. k., þá er þetta sama magn varahluta komið upp í hvorki meira né minna en kr. 44.180.00. Ný hækkun á þessu ári er rúmar 11 þús. kr., eða 33%a hækkun til viðbótar við þær tvær hækkanir, sem ég hef áður nefnt, og heildarverðhækkunin þá orðin frá því í maí 1949 og þangað til í febrúar 1952 hvorki meira né minna en það, að hún er komin úr kr. 10.986.00 upp í kr. 44.180.00, hækkunin alls á þessu magni varahluta kr. 33.193.83, eða samtals rúmlega 302% hækkun á þessu tímabili frá maí 1949 og fram í febrúar 1952.

Það virðist þess vegna liggja nokkuð augljóst fyrir, að þessi hækkun er alveg gífurlega mikil, og þrátt fyrir það að mikil dýrtíð sé í landinu, þá virðist þessi hækkun vera miklu meiri og ekki sambærileg við — að því er mér er kunnugt um — nokkra aðra verðhækkun á því, sem talizt getur jafnmikill nauðsynjavarningur og hér er um að ræða. Gefur því að skilja, að þau ummæli, sem ég áðan nefndi hér, að voru samþykkt í bifreiðarstjórafélaginu Þrótti um það, að bifreiðarstjórum sé að verða erfitt og jafnvel ókleift að halda bifreiðum sínum í tilskildu og nauðsynlegu lagi, eru ekkert út í bláinn, heldur er það bláköld staðreynd.

Nú gefur að vísu að skilja, að þrátt fyrir það að gengisfellingin og það álag, sem heimilað hefur verið á bátagjaldeyrinn, hlyti óhjákvæmilega að hafa beinar verðhækkanir í för með sér, svo að talsvert miklu næmi, þá er augljóst, að þessi geysilega verðhækkun er ekki aðeins bein afleiðing af gengislækkuninni og af bátagjaldeyriskerfinu, heldur er augljóst, að þessar aðstæður hafa verið notaðar til þess að leggja alveg óhæfilega á þann varning, sem hér er um að ræða, enda mun það vera staðreynd, að svo er gert. En það er þetta kerfi, sem hefur gefið möguleikana til þess, jafnframt því sem lagt var niður verðlagseftirlitið. Afleiðingin er svo þessi, sem ég hér hef verið að lýsa, að þetta er að gera bifreiðarstjórum og bifreiðaeigendum næstum ókleift að halda bifreiðum sínum í því ástandi, sem þær þurfa að vera í, og það því fremur sem kunnugt er og ekki þarf að rekja hér, — hefur enda verið gert í öðru sambandi, — að mikill fjöldi af þeim bifreiðum, sem hér eru í notkun, t. d. leigubifreiðum til mannflutninga, eru orðnar óhæfilega gamlar, vegna þess að bifreiðarstjórar hafa ekki átt þess nokkurn kost að endurnýja þær með eðlilegum hætti, vegna þess að þeim hefur um langt árabil verið gersamlega neitað um allan innflutning á bifreiðum til þess að endurnýja bifreiðar sínar, og þessi aldur bifreiðanna veldur því, að enn erfiðara er og útgjaldafrekara að halda þeim við á þann hátt, sem gera þarf.

Ég held þess vegna, að það sé mjög sanngjörn krafa, að þessum óeðlilega og óhæfilega skatti verði létt af bifreiðarstjórunum og bifreiðaeigendum og þeim gefinn kostur á því, eins og till. fer einnig fram á, að fá sjálfir innflutningsleyfi fyrir varahlutum til bifreiða sinna með eðlilegum hætti, svo að þeir geti á sem hagkvæmastan hátt orðið sér úti um þá og þá áreiðanlega með miklu lægra verði en þeir verða nú að borga fyrir þá, og að það geti þá orðið þeim einhver léttir í því að halda við sínum gömlu bifreiðum, svo að þeir geti notazt við þær eitthvað lengur og kannske þá þangað til ríkisvaldinu þóknast að greiða eitthvað úr, meira en nú hefur verið gert, um innflutning á bifreiðum, svo að þeir geti losnað við gömlu bifreiðarnar og fengið sér nýjar, sem ekki eru þá eins viðhaldsfrekar.

Ég vænti þess vegna, að þessari till. verði vel tekið hér á hv. Alþ., og þó að nú sé nokkuð liðið á þing, — það er nú orðinn mánuður síðan þessari till. var útbýtt, þó að hún sé nú fyrst að koma til umr., — þá vinnist þó tími til þess að fá málið afgreitt og að það verði tekið tillit til þess ástands, sem bifreiðarstjórar og bifreiðaeigendur eiga hér við að búa, og þessum óhæfilega skatti af þeim létt.

Það hefur verið ákveðin ein umr. um till., en ég geri ráð fyrir, að það sé nú samt rétt, að umr. verði frestað og till. fái athugun í n., sem þá ætti sennilegast að vera allshn.