10.12.1952
Sameinað þing: 24. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 141 í D-deild Alþingistíðinda. (2557)

159. mál, hafnarsjóður Ísafjarðar

Flm. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Ég flyt þáltill. á þskj. 261. Till. er flutt að beiðni bæjarstjórnar og hafnarnefndar Ísafjarðar.

Þannig er mál vaxið, að fyrir sex árum byrjaði hafnarsjóður Ísafjarðar að byggja hafnarbakka úr stáli í Ísafjarðarhöfn. Þessi hafnarbakki átti að vera 220 m langur, og við hann átti að vera 6½–7 m dýpi. Þetta átti sem sé að vera aðalathafnasvæði Ísafjarðarhafnar.

Nú hefur framkvæmd þessa verks staðið yfir í sex ár, og hefur dráttur á verkinu orðið vegna verulegra skemmda, sem á því urðu.

Þegar farið var að ramma niður fyrir járnþilinu, kom í ljós, að ekki þótti traust botnlag undir nokkrum hluta af hafnarþilinu. Verkstjórinn við verkið gerði vitamálaskrifstofunni þegar aðvart um þetta og spurðist fyrir um, hvað gera skyldi. Hafnar- og vitamálaskrifstofan sendi verkfræðing á staðinn, danskan mann, sem Kindt heitir, og hann sagði, að það væri um tvær leiðir að ræða, annaðhvort að færa járnþilið til, stytta það í annan endann og lengja það í hinn, þannig að það héldi sömu lengd, ellegar að gera vissar ráðstafanir, grafa í burt hið ótrausta botnlag, taka í burt vinnupalla, sem búið var að ramma niður, setja traust botnlag í staðinn og byggja upp vinnupallana á ný. Þessari seinni ráðleggingu verkfræðingsins var fylgt.

Þegar þessar aðgerðir höfðu farið fram, dýpkunarskipið Grettir hafði annazt gröftinn og fyllt með malarlagi í staðinn undir yfirstjórn verkfræðings frá vitamálaskrifstofunni, þá var ekki hafizt handa um framhald verksins fyrr en fyrir lá símskeyti frá vitamálaskrifstofunni um, að nú væri óhætt að hefja verkið á ný samkvæmt því, sem fyrir hefði verið mælt. Síðan var alltaf haft samband við vitamálaskrifstofuna og beðið um hennar fyrirmæli um framkvæmd verksins af verkstjóra hafnarinnar.

Öll þau gögn sem fylgja þessu máli, eru hér prentuð á fskj. með þáltill., þ. e. a. s., það eru bókanir hafnarnefndar jafnóðum og verkinu skilaði áfram, símskeyti frá vitamálaskrifstofunni og fyrirmæli frá henni úr bréfum um það, hvernig verki skyldi að öllu leyti haga.

Þegar búið var að ramma niður járnþilið og farið var að fylla upp bak við það, þá kom í ljós, að járnþilið seig fram og niður, svo að smátt og smátt myndaðist lægð — í járnþilið, þannig að við seinustu mælingu reyndist það hafa sigið um einn metra og tíu cm. Þetta þýðir það, að eftir síðustu mælingu á þessu á s. l. hausti taldi verkfræðingur vitamálaskrifstofunnar, að ekki væri óhætt að ljúka verkinu og byggja ofan á járnþilið, en það yrði að gera með járnbentum, steinsteyptum bita, sem væri af 110 cm hæð, og taldi ekki heldur ráðlegt að ljúka uppfyllingunni þarna bak við. Þessu verki er þess vegna að því leyti ólokið enn þá.

Nú kostaði það mikið fé á sínum tíma, haustið 1947, að gera þær varúðarráðstafanir, sem verkfræðingar heimtuðu. Í annan stað hefur komið mikill aukakostnaður á framkvæmd verksins vegna þess, að allur síðari hluti þess verður nú að framkvæmast á miklu dýrari tíma en áður. Í þriðja lagi komu svo fyrirmæli frá vitamálaskrifstofunni um það núna í fyrrahaust, að allur bakkinn yrði að hækka um 25 cm, þar sem ölduborð í stormum í Ísafjarðarhöfn heimtuðu það, að bakkinn væri hærri en upphaflega hafði verið ákveðið. Það verður því að bæta steinsteyptu bitalagi ofan á allan hafnarbakkann vegna þessarar ráðstöfunar, en ella hefði þess ekki þurft, þá hefði járnþilið ekki verið rammað svo djúpt niður sem gert var. En þetta leiðir enn af sér aukinn kostnað. Hafnarstjórn Ísafjarðar þykist enga sök eiga á þessum mistökum og telur, að þarna verði að líta á líkt og litið hefur verið á þar, sem hafnarmannvirki hafa orðið fyrir fjárhagslegum skakkaföllum í sambandi við náttúruhamfarir. Þetta er mjög óvenjulegt tilfelli, hygg ég, hér á landi, að botnlag reynist svo ótraust, að hafnarmannvirki sigi og skemmist og framkvæmdin tefjist þannig, að af leiði mikinn kostnað, ekki aðeins kostnað, eins og ég sagði áðan, vegna þess að framkvæma verður verkið á dýrari tíma, heldur einnig vegna þess, að dráttarvextir af þessu mannvirki í sex ár eru orðnir allveruleg upphæð. Það, sem nú er eftir að ljúka af þessu verki, er áætlað að kosti 900 þús. kr., og það, sem búið er af verkinu, kostar á fimmtu millj. króna. Það er gersamlega útilokað, að hafnarsjóður Ísafjarðar hafi bolmagn til að rísa undir þessum kostnaði, og þess vegna er farið fram á það í þessari till., að Alþ. heimili ríkisstj. að greiða Ísafjarðarhöfn allt að 400 þús. kr. án mótframlags vegna skemmda, sem orðið hafi á hafnarmannvirkjunum. Og skemmdirnar liggja í þessu, að hafnarbakkinn hefur sigið niður og fram, og verður að bæta úr því með ærnum tilkostnaði.

Ég treysti því, að hv. alþm. kynni sér þau ýtarlegu fskj., sem með þessu fylgja og eru sönnunargögn fyrir því, að hafnarnefnd Ísafjarðar leitaði í hvívetna ráða hjá vitamálaskrifstofunni, þó að það dygði ekki til. Ég tel, að þarna sé um eins óviðráðanleg atvik að ræða og þegar grefur undan hafnarmannvirki í stórsjóum, brimum, og hefur það verið bætt oft og tíðum úr ríkissjóði án mótframlags viðkomandi hafna. Þannig eru a. m. k. þrjú eða fjögur tilfelli slík, þar sem ríkið hefur bætt án mótframlags skemmdir, sem hafa orðið á hafnarmannvirkjum. Ég tel, að hér sé um hliðstæðu að ræða að verulegu leyti, og er a. m. k. eins ástatt um þessa höfn og þær hinar, sem bætur hafa fengið, að hér hafa þær skemmdir á orðið, sem viðkomandi höfn ræður ekki við fjárhagslega.

Ég tel svo ekki ástæðu til að fylgja þessari till. úr hlaði með fleiri orðum og legg til, að till. verði að umr. lokinni vísað til fjvn.