05.02.1953
Sameinað þing: 37. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 150 í D-deild Alþingistíðinda. (2567)

159. mál, hafnarsjóður Ísafjarðar

Hannibal Valdimarsson:

Mér þykir nú ærið nóg, herra forseti, um misskilning í þessu máli. Það er ekki við þann hluta hafnarbakkans, sem fullgerður er, sem á að reisa það mannvirki, sem ég hér hef minnzt á. Það er einmitt við þann hlutann, sem er ófullgerður vegna skemmdanna, sem h/f Ísfirðingur, togarafélagið á Ísafirði, hefur sótt um að byggja stórt fiskverkunarhús, og samkvæmt skipulagi hafnarinnar verður það ekki byggt svo nálægt bátahöfninni, að hægt sé að byggja það við þann hluta hafnarbakkans, sem nú er fullgerður. Það er vitanlegt, að það hefði þurft að byrja á þessu mannvirki núna í maímánuði í vor, en rannsókninni verður sennilega ekki lokið miklu fyrir júlíbyrjun. Þetta kemur því vissulega til þess að torvelda togarafélaginu að hefja byggingu síns mikla og dýra mannvirkis, sem er þó brýn nauðsyn á að geta byggt. Og það er annar aðili, en hafnarsjóður Ísafjarðar, sem á að reisa það mannvirki og kosta, svo að það hefði sannarlega vel getað verið í gangi hvort tveggja, áframhaldið á byggingu þess hafnarbakka, sem nú hefur staðið yfir að byggja á sjöunda ár, og bygging þess mannvirkis, sem nú er orðið aðkallandi að byggja fyrir privatfyrirtæki í bænum. Menn virðast því hafa sýnt meiri rósemi í þessu heldur en efni standa til. Hér var vissulega þörf á því, að málinu gæti miðað áfram og hægt væri að taka á því þannig, að því lyki. Það er auðsætt mál, að við það, að nú verður að framkvæma síðari hluta mannvirkisins á miklu dýrari tíma en ella hefði orðið, þá kemur mikill kostnaður af því einu, auk þess sem það kostar mikið fé að bæta skemmdirnar, svo að nemur hundruðum þúsunda króna áreiðanlega.

Ég lofaði því áðan að fara ekkert inn á efnishlið málsins og skal halda mér við það. Þetta mál verður sennilega með gögnum lagt fyrir Alþingi næst.