16.10.1952
Efri deild: 9. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 513 í C-deild Alþingistíðinda. (3454)

63. mál, húsaleiga

Forsrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. allshn. fyrir að hafa að beiðni minni flutt þetta frv., og eins og eðlilegt er, gerir n. það með þeim fyrirvara, að hún sem heild bindi sig ekki við frv. hvorki sem heild né í einstökum atriðum.

Ég held, að það sé rétt, að ég segi örfá orð um þetta frv., hvernig það er til orðið og hver er tilgangur með því, af því að það hefur ekki verið kynnt hér í þessari hv. d. fyrr. En eins og hv. frsm. allshn. tók fram, var frv. lagt fram í hv. Nd. seint á þinginu í fyrra. Var það til meðferðar í allshn., en þá náðist engin afgreiðsla um frv., enda kom það svo seint fram, að það var ekki við því að búast, að svona stór lagabálkur og að sumu leyti með nýmælum gæti þá gengið fram.

Það er nú svo, eins og öllum hv. dm. er kunnugt, að húsnæðismálin eru einhver allra mestu vandamál, ekki einungis okkar þjóðar, heldur allra menningarþjóða, er óhætt að segja, og þó fyrst og fremst þeirra, sem búa við loftslag svipað og við gerum, kalt, umhleypingasamt og að ýmsu leyti erfitt, svo að það er ekki hægt annað en búa í vönduðum húsum. ef fólki á að geta liðið svona sæmilega þolanlega. Það liggur því í hlutarins eðli, að með slík mál, sem kosta jafngeysilega mikið fé eins og það kostar í okkar landi að koma upp íbúðum yfir fólkið, þá getur ekki annað verið en að löggjafarvaldið láti þessi mál allmikið til sín taka. En þó er það nú svo, að enn er ekki til nein almenn húsaleigulöggjöf hér í okkar ágæta landi. Það er engin almenn húsaleigulöggjöf til um samskipti leigutaka og leigusala og hvernig með þau mál skuli farið. Má segja, að það sé í raun og veru óeðlilega stór gloppa í félagsmálalöggjöf okkar, en þetta stafar vissulega af því, að bæir hér hjá okkur og stærri þorp hafa risið upp mjög skyndilega á síðustu áratugum, og af þeim ástæðum hefur þetta dregizt m. a., að Alþ. hafi tekið þessi mál til meðferðar á þann hátt að afgr. þau eins og virðist að eðlilegt væri. En ég lít svo á, að Alþ. geti ekki lengur skotið sér undan þeirri skyldu að ganga frá fyrst og fremst almennri húsaleigulöggjöf, er snertir samskipti leigutaka og leigusala, svona í almennum atriðum. Auk þess er svo eðlilegt, að þegar sérstakar ástæður eru fyrir hendi annaðhvort vegna rásar viðburðanna, eins og þegar styrjaldir ganga, eins og komið hefur nú fyrir okkar kynslóð oftar en einu sinni að undanförnu, — styrjaldir, sem raunverulega hafa haft sömu áhrif á líf okkar Íslendinga eins og við værum beinir þátttakendur í þeim, að þá séu aftur sett ýmis sérákvæði varðandi þessi mál, sem þá er ekki víst að þurfi að standa nema mjög takmarkaðan tíma. — Ég vil skjóta því hér inn í, að þetta frv., sem hér liggur nú fyrir á þskj. 63, er greinargerðarlaust, en það stafar af því, að samhljóða frv., sem lagt var fram í fyrra, fylgdi ýtarleg grg., og það er ætlazt til þess, að hv. alþm. geti fengið þá grg., sem mun vera á þskj. 268 frá Alþ. í fyrra, þannig að óþarfi hafi verið að fara að prenta hana upp aftur. Ég hygg að allir geti fengið aðgang að henni, það sé nóg til. Vildi ég fyrst og fremst benda hv. dm. á þetta.

Það er enn einkennilegra, að mér virðist, að ekki skuli nein almenn húsaleigulöggjöf vera komin hér hjá okkur varðandi hús í bæjum og þorpum, þegar við aðgætum það, að við eigum ábúðarlöggjöf frá árinu 1883, — ábúðarlög, sem fjalla um ábúð á jörðum og eru í raun og veru algerlega hliðstæð við það, sem húsaleigul. ættu að vera fyrir þá, sem í þéttbýli búa. Ég er ekki í neinum vafa um það, að það þætti vera stór gloppa og alveg óhafandi, ef ábúðarlöggjöfinni hvað jarðeignir í sveitum snertir, væri kippt burt; það þætti óhæfa á allan hátt. En í raun og veru er engu minni ástæða til þess, að almenn ákvæði gildi um samskipti leigutaka og leigusala í kaupstöðum og kauptúnum, heldur en hvað jarðir snertir. Og að því leyti má segja, að það sé enn meiri ástæða, að nú eru þau heimilin orðin miklu fleiri, sem þetta snertir, heldur en sveitaheimili og þess vegna a. m. k. alls ekki síður ástæða til þess, að um þau séu sett ákveðin ákvæði. Það tók nú Alþ. í þann tíma milli 20 og 30 ár að komast að samkomulagi um ábúðarlöggjöfina. Hún var búin að flækjast fyrir þinginu í — held ég — yfir 20 ár, þegar l. voru loks sett árið 1883. Ég vil nú vona, að það taki ekki Alþ. eins langan tíma að koma sér saman um hæfilega og sanngjarna húsaleigulöggjöf eins og það tók það á þessum tímum. En nú er þetta þó búið að vera hér fyrir Alþ. í nokkur ár, allt frá 1949, án þess að Alþ. hafi verulega fjallað um málið enn þá.

Það er svo, að afskipti Alþ. af húsaleigumálum hafa hingað til eingöngu verið þau, að þegar sérstaklega hefur hert að í þeim tveim heimsstyrjöldum, sem geisað hafa, þá hafa verið sett ákvæði um húsaleigu, að mestu leyti miðuð við Reykjavík og einstaka staði aðra, en ekki nokkur almenn ákvæði um þetta efni. Það er fyrst með l. nr. 24 frá 1917, um húsaleigu í Reykjavík, sem afskipti Alþ. hefjast af þessum málum, og þau l. voru svo í gildi með nokkrum breytingum til ársins 1927. Þá voru þau afnumin að öllu. Og það er svo ekki aftur fyrr en með l. nr. 10 frá 1939, um gengisskráningu og ráðstafanir í sambandi við það, að aftur voru leidd í l. ákvæði um húsaleigu, viss ákvæði, sem fjölluðu sérstaklega um húsaleigu hér í Reykjavík, en þó um fleiri staði. Þessum l. var svo á ýmsan hátt breytt á árunum 1940 og 1941 og kannske oftar, ég man það ekki svo vel. En þetta sýnir það mjög áþreifanlega, hver þörf er á almennum húsaleigul., því að þegar sérstaklega herðir að fyrir slík áhrif sem þessar styrjaldir hafa haft á athafnalíf okkar á ýmsum sviðum, þá er einmitt gripið til þess að setja ákvæði um þetta. Svo er horfið frá því aftur, þegar áhrif styrjaldanna fjara út, nokkrum árum eftir að þær eru stöðvaðar. Þetta sýnir það greinilega, að þegar mest reynir á eru það veikustu hlekkirnir, sem bila, þar sem ekki hafa verið sett viðhlítandi ákvæði með löggjöf, og kemur þá greinilegast í ljós. Það er svo árið 1950, að ákveðið var, að gildandi húsaleigulöggjöf þá, þ. e. a. s. húsaleigulöggjöfin frá 1939 og með ýmsum breytingum síðar, skyldi úr gildi falla á tímabilinu frá 1. okt. 1950 til 14. maí 1952. En þessi ákvæði skyldu falla niður með nokkru millibili á þann hátt, að þau ákvæði l., sem snerta leigu á einstökum herbergjum, skyldu úr gildi falla 1. okt. 1950, en 14. maí 1951 skyldu úr gildi falla ákvæði l. um atvinnuhúsnæði og í öðru lagi ákvæði l. um íbúðir, sem eru í sama húsi og húseigandi býr í sjálfur, en önnur ákvæði l. skyldu svo falla úr gildi 14. maí 1952. En þá voru þau ákvæði þó framlengd með l. nr. 30 frá 1952 til 14. maí 1953, og það var gert vegna þess, að það lágu beiðnir fyrir um það frá Reykjavíkurkaupstað, að þau ákvæði l. yrðu þá framlengd og yrðu ekki úr gildi felld, jafnvel þó að heimild væri til þess, að bæirnir sjálfir gætu tekið upp þau ákvæði, sem þar var um að ræða.

Það er óhætt að segja það, að með frv. félmrn. og þáverandi félmrh. frá 1949 var gerð fyrsta tilraun til heildarlöggjafar um húsaleigumál hér á landi. Ég sé ekki ástæðu til að fara hér út í einstök atriði þess frv., enda eru mörg þeirra mjög samhljóða því frv., sem hér liggur fyrir, en það frv. hafði verið undirbúið af færum mönnum og verið höfð til hliðsjónar húsaleigulöggjöf í nágrannalöndum okkar, en Alþ. sinnti lítið því máli, þegar það þá var lagt fram, og gekk það ekki fram. En þegar ég kom að félmrn., varð mér skjótt ljóst, þegar ég fór að athuga um afskipti þess rn. af húsaleigumálum og hvernig ástatt væri um þau atriði yfirleitt, að mikil þörf væri á því, að sett væri fyrst og fremst almenn húsaleigulöggjöf, sem gilti um land allt hvað ýmis atriði snerti, og á þeim grundvelli var það, sem ríkisstj. varð sammála um það, að skipuð yrði n. til þess að rannsaka þessi mál. Þessi n. var svo skipuð 19. júní 1951, og var svo fyrir mælt, að hún skyldi semja frv. að almennri húsaleigulöggjöf, en einnig taka til meðferðar þau atriði, sem hún teldi að þörf væri á varðandi einstaka staði á landinu vegna sérstakra húsnæðisvandræða þar og erfiðleika. Eins og hv. frsm. allshn. gat um, var Jónas Guðmundsson skrifstofustjóri í félmrn. formaður þessarar n. Auk hans voru tilnefndir í n. Magnús Jónsson hdl., alþm. nú, Ólafur Sveinbjörnsson skrifstofustjóri framfærslumála Reykjavíkur og þeir Hannes Pálsson frá Undirfelli og Þórður Björnsson bæjarfulltrúi í Reykjavík. Þessi n. skilaði áliti í fyrrahaust, þegar nokkuð var á þing liðið, og er það sá lagabálkur, sem nú liggur hér fyrir; rn. gerði að vísu lítils háttar breyt. á frv. eins og það lá fyrir, en í öllum meginatriðum er það lagt fram eins og n. skilaði því. Nú ber þess að gæta, að n. var alls ekki sammála um öll atriði þessa frv., en þó um meginkjarna þess er óhætt að segja.

Níu fyrstu. kaflar frv. fjalla um almenna húsaleigulöggjöf, þ. e. a. s. um þau atriði, sem leigutaka og leigusala skipta og þeir verða að koma sér saman um, hvernig með skuli farið. Í raun og veru er n. alveg sammála um þessa fyrstu 9 kafla. Undanskilin er þó 1. gr. frv., því að í raun og veru heyrir hún efnislega til 10. og 11. kafla frv., en ekki almennu húsaleigul. og fellur því efnislega undir þar, en að öðru leyti er óhætt að segja, að n. hafi raunverulega verið sammála um þessa níu kafla frv., sem eru almenn húsaleigulöggjöf, og þykja mér því miklar líkur til þess, þar sem þetta frv. var líka borið undir ýmsa aðila, að samkomulag geti orðið hér á Alþ. um þennan hluta frv., hvað se;n öðru kann að líða. Ég fyrir mitt leyti teldi það mikið til bóta, að þessi almenna húsaleigulögjöf yrði afgr., hvað sem öðru liði.

Um hina kafla frv., þ. e. a. s. fyrst og fremst 10. og 11. kafla, skal það tekið fram. að þar urðu nm. ekki sammála, en frv. er þannig fram sett. að það er meiri hl. n. fyrir hverri gr. í þeim köflum frv., en ýmis sérskilningur og sérgreinargerðir komu fram frá nm., líklega öllum eða því nær öllum, og er það allt saman fært hér inn í grg. frv. eins og það var flutt í fyrra. En þessir kaflar eru um heimildir til handa bæjarstjórnum og sveitarstjórnum, ef þær vilja setja einhver sérákvæði vegna þess, hvernig ástatt er í húsaleigumálum hjá þeim, sérstaklega ef sérstök vandræði eru fyrir hendi; þá geti þær gripið til þess að setja ýmiss konar sérákvæði um það, hvernig með þau mál skuli farið. Ég get vel búizt við, að um þessa kafla frv. geti orðið ýmiss konar ágreiningur hér á hinu háa Alþ. og ýmsir alþm. vilji kannske koma þar að ýmsu, sem ekki er í þessum köflum nú, en ég vil taka það fram. að hér er fyrst og fremst um heimildir að ræða til handa bæjarstjórnum og ekki verið að fyrirskipa þeim að gera neina hluti, nema þeim finnist sjálfsagt og nauðsynlegt að gera það. Og ég lít svo á, að það sé alveg sjálfsagt að veita bæjar- og sveitarstjórnum nokkuð rúmar hendur í þessu máli. Ég tel það ekki eðlilegt og heppilegt að neinu leyti, að Alþingi eitt fari með þau mál, heldur sé það mjög í anda þess lýðræðis, sem við búum við, og þeirrar sjálfstjórnar, sem sveitarfélög hafa að ýmsu leyti hjá okkur, að sveitarstjórnir og bæjarstjórnir fái sjálfar að ákveða allmikið um það, innan viss ramma að sjálfsögðu, hvernig með slík mál skuli fara. Það er að vísu svo og rétt að taka það fram, að þegar ég hér segi, að þessir kaflar fjalli um heimildir til handa sveitarstjórnum, þá er nokkur undantekning frá því að því leyti, eins og 1. gr. frv. segir, að heimildarákvæði 10. og 11, kafla skuli vera í gildi í Reykjavík, Hafnarfirði og á Akureyri til 14. maí 1955. Um þessi ákvæði, sem eru þau einu ákveðnu fyrirmæli í þessum köflum, má segja það, að um þau var allmikill ágreiningur í n., og verður sjálfsagt litið ýmislega á það, hvernig með skuli fara. Ég sé ekki ástæðu til þess að fara hér að rökstyðja, hvers vegna þessi ákvæði eru sett hér inn. Það er skýrt greinilega frá því í grg. frv. frá í fyrra, og geta hv. dm. lesið þar um það ákvæði. Og yfirleitt ætla ég ekki hér að fara að rekja sérálit hinna einstöku nm. um þessa kafla frv. Það er hægara að athuga það í n., og er ég að sjálfsögðu fús til þess að ræða við hv. allshn. um frv. bæði almennt og sömuleiðis um þau atriði þess, sem sennilegt er að helzt valdi ágreiningi hér á Alþingi.

En það, sem ég vildi að lokum leyfa mér að taka fram, er það, að ég fyrir mitt leyti legg mikla áherzlu á það, að hið háa Alþingi taki nú þetta frv. til rækilegrar yfirvegunar. Ég hef ekki trú á, að það verði undirbúið betur af hálfu rn. en nú er orðið. Það var lögð í þetta mikil vinna, fyrst 1949 og síðan af þeirri n., sem skipuð var snemma á árinu í fyrra og kynnti sér húsaleigulöggjöf þá enn á ný hér í nágrannalöndum okkar, bæði í Norðurlöndum og Bretlandi og jafnvel víðar, og það tekið mjög til hliðsjónar um þau ákvæði, sem þar eru, svo að ég hygg, að það sé ekki eftir neinu að bíða um það, að Alþingi fari nú að taka ákvörðun um, hvað það telji rétt að gera í þessu máli. En til lengdar verður það áreiðanlega ekki, að ekki verði sett hér almenn húsaleigulöggjöf af Alþingi, það er ég alveg sannfærður um. Það er óviðunandi, eins og þjóðfélag okkar nú er byggt upp, þó að allt annað væri fyrir nokkrum tugum ára, þegar þjóðin þá bjó að mestu leyti í sveitum, og giltu þá að sjálfsögðu hin almennu ákvæði ábúðarlaganna um þessi samskipti hvað það snertir. Ég sé nú ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri, en skal taka það fram aftur, að ég skal ávallt vera reiðubúinn að ræða við hv. allshn. um þetta frv., þegar n. getur farið að sinna því.