16.12.1952
Neðri deild: 41. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 348 í B-deild Alþingistíðinda. (570)

174. mál, jafnvirðiskaup og vöruskipti

Frsm. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Við 2. umr. málsins kom hér fram að vissu leyti eðlileg gagnrýni frá hv. 2. þm. Reykv. í sambandi við þá ábyrgð sem hér er gert ráð fyrir að veita Landsbanka Íslands, og byggðist gagnrýnin á því, að það væri ekki eðlilegt, að Landsbankinn fremur en aðrir bankar landsins, sem ríkisábyrgðar nytu, fengi þá ábyrgð, eða væri veitt sú ábyrgð, sem þetta frv. gerir ráð fyrir. Af þessu tilefni hafa orðið umræður um málið milli nefndarmanna á milli umræðna. Það er í raun og veru svo, að það er seðlabankinn, sem annast þessi viðskipti við þau lönd, sem verzla á jafnvirðis- og vöruskiptagrundvelli. En eftir landsbankal. starfar Landsbankinn í 3 deildum, sem kallaðar eru sparisjóðsdeild, veðdeild og seðlabankinn. Það hefur ekki verið á færi nema seðlabankans að annast gjaldeyrisviðskipti við þessi lönd, nema þá að tekinn væri upp sá háttur, að seðladeild Landsbankans endurkeypti af öðrum

viðskiptabönkum víxla, sem væru tryggðir með gjaldeyri í clearing-löndunum, á sama hátt sem endurkeyptir eru víxlar, sem tryggðir eru með útflutningsvörunni. En það líður oft langur tími frá því að útflytjandi flytur vörur til vöruskiptalandanna og til þess tíma, að sá gjaldeyrir er kominn heim og gæti komið til útborgana. Af þessum sökum er það, sem seðlabankinn hefur svarað útflytjendunum andvirðinu, og þá einnig t.d. Útvegsbankinn, sem annazt hefur þessi viðskipti, með samkomulagi, sem orðið hefur í framkvæmd milli Útvegsbankans og seðlabankans og nú er orðið þannig, að ég hygg, að viðskiptamenn Útvegsbankans þurfi ekki að hverfa til seðlabankans eða Landsbankans með viðskipti við þessi lönd, eins og að vísu var um tíma, vegna þess að Útvegsbankinn hefur heimild eftir samkomulagi við Landsbankann að skulda seðlabankann fyrir andvirði útflutningsvöru, sem Útvegsbankinn annast fyrirgreiðslu á í sambandi við útflutning til clearing-landanna.

Að öllu þessu athuguðu og vegna þess, hvernig eðli málsins er, þá höfum við orðið sammála um í fjhn. að gera eina brtt. við 1. gr. frv., sem er í raun og veru skýringaratriði og báðir þeir bankar, sem ég hef nefnt, Landsbankinn og Útvegsbankinn, fyrir sitt leyti telja eðlilega, og það er að skjóta inn á eftir orðunum „Landsbanki Íslands“ í 1. málsl. 1. gr. orðinu: „seðlabankinn“, til frekari skýringar á því, sem um er að ræða. Með þessu teljum við, að það sé ljóst, að Landsbankanum að öðru leyti séu ekki með þessu frv. tilskilin sérstök fríðindi fram yfir hina bankana, sem ríkisábyrgðar njóta, en það komi hins vegar fram, að það sé raunverulega verið af ríkissjóðsins hálfu að taka ábyrgð á innstæðufé eða yfirdrætti seðlabanka Landsbankans.

Ég vil þess vegna fyrir hönd fjhn. leyfa mér að leggja fram þessa skriflegu brtt., sem orðast þannig: „Á eftir orðunum „Landsbanki Íslands“ í 1. málsl. 1. gr. kemur: seðlabankinn“ — og bið ég forseta að leita afbrigða fyrir henni.