07.04.1954
Neðri deild: 80. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1067 í B-deild Alþingistíðinda. (1003)

184. mál, fasteignaskattur

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Við afgreiðslu þessa máls í fjhn. d. hafði ég fyrirvara í sambandi við einmitt hið breytta ákvæði um innheimtu þessa skatts.

Ég tel afar óeðlilegt að fara að breyta þessu í þá átt, að sveitarsjóðirnir og bæjarfélögin innheimti nú þennan sérstaka skatt, meðan þetta heldur áfram að vera eins og það er.

Hv. 2. þm. Skagf. (JS) færði mjög greinileg rök fyrir því, að þetta er miklu hentara fyrirkomulag fyrir hreppana úti í sveitunum og sýslusjóðina, að kóngsins embættismenn, ef svo mætti að orði kveða, haldi áfram að innheimta þennan skatt. Í bæjunum, og sérstaklega stærri bæjunum eins og Reykjavík, gilda að vísu ekki þau sömu rök um það, en hv. 2. þm. Skagf. tók nú dæmi af hundaskattinum, og mér fyrir mitt leyti finnst, að þetta sé svo mikil kattarpína, sem hér er verið að láta falla af borði ríkissjóðsins til bæjar- og sveitarfélaganna, að það megi gjarnan gilda um það áfram sú sama regla, að það sé innheimt af ríkinu (Gripið fram í.) — ásamt hundaskattinum, já, því að í raun og veru er það afar óeðlilegt, og ég býst við, að það ástand mundi ekki halda lengi áfram, að innheimtur væri af bæjarfélögunum t.d., eins og hér er gert ráð fyrir, fasteignaskattur, þar sem bæjarfélögin innheimta eftir öðrum lögum og reglum önnur fasteignagjöld, sem eru margfalt hærri en þessi fasteignaskattur. Það er algerlega óeðlilegt að hafa á einni hendi innheimtu fasteignagjalda, sem kölluð eru svo, og hins vegar fasteignaskatt hjá sama aðila, og það mundi þá bara hníga að því, að þessu kerfi yrði breytt, og þá hefði verið eðlilegra að löggjöfin um fasteignaskattinn hreint og beint félli niður, að þessi skattur væri afnuminn. Það hefur nú ekki verið gert, og ég veit, að ýmis sveitarfélög, þó að þetta séu ekki merkilegar upphæðir, hafa gott af þessu, og þeim mun betra, að innheimtan sé eins og verið hefur, eins og bent hefur verið hér á. Þess vegna hef ég slegizt í för með þeim, sem leggja eindregið til að færa frv. til þess vegar, sem það upphaflega var flutt af hæstv. fjmrh.