09.04.1954
Efri deild: 84. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1072 í B-deild Alþingistíðinda. (1014)

184. mál, fasteignaskattur

Guðmundur Í. Guðmundsson:

Herra forseti. Ég er hálfhræddur um, að hv. frsm. fjhn. hafi nokkuð misskilið þann tilgang, sem fyrir mér og stjórn héraðsdómarafélagsins vakti, þegar við fórum að beita okkur fyrir því, að innheimtufyrirkomulaginu á þessum skatti væri breytt. Hv. frsm. minntist í því sambandi á tilhliðrunarsemi við innheimtumennina og annað slíkt. Ástæðan fyrir því, að við erum að benda á, að það borgi sig ekki að vera að láta innheimtumenn ríkissjóðsskatta vera að innheimta fasteignaskattinn, er ekki sú, að þeir veigri sér neitt við að vera að innheimta þennan skatt eða séu að kvarta undan þeirri vinnu, sem í það fer út af fyrir sig. Hitt eru þeir hins vegar að benda á, að það er það mikill kostnaður í sambandi við innheimtu fasteignaskattsins, að ef innheimtunni væri létt af lögreglustjórunum, þá mundi sparast við það upphæð, sem nemur langt til í skattinn sjálfan, að því viðbættu, að innheimtan á tekjuskattinum og þeim sköttum, sem honum fylgja, gæti byrjað 2–3 mánuðum fyrr á árinu, ef þeir losnuðu við að innheimta fasteignaskattinn. Ég hef a.m.k. orðið þess var, að á það er lögð mikil áherzla af fjmrn., að innheimtan komist í gang sem allra fyrst á árinu og að ríkissjóður fari sem fyrst að fá sínar tekjuskattstekjur. Það er eingöngu þetta, sem fyrir okkur vakir, að spara ríkissjóði útgjöld og fá innheimtuna á stað fyrr en ella. Það er það, sem fyrir okkur vakir, þegar við erum að benda á, að það sé óeðlilegt og óheppilegt að halda innheimtu þessa skatts í því horfi, sem verið hefur.

Þá minntist hv. frsm. einnig á, að það yrði næsta lítið úr þessum skatti, ef farið væri að skera neðan af honum eins og ég og hv. þm. V-Sk. hafi lagt til. Hv. frsm. gerði nokkuð mikið úr þessu. En ég vil leyfa mér að benda á, að jafnvel þó að ekkert væri af skattinum skorið og hann væri innheimtur til fulls eins og lögin gera ráð fyrir, þá er hann svo sáralítils virði fyrir sveitarfélögin, að mér liggur við að segja, að hann sé næstum einskis virði. Í stærsta hrepp á Íslandi, í Kópavogshreppi hér í nágrenni, nemur þessi skattur ekki 2000 kr. á ári. Í venjulegum hrepp utan kaupstaðanna er þessi skattur talsvert innan við 1000 kr. á ári, og það er allt og sumt, sem um er að ræða. Kostnaðurinn við hann og fyrirhöfnin við að innheimta þetta étur það fullkomlega upp, sem í aðra hönd kemur við innheimtu skattsins, og það eru þessi vinnubrögð, sem héraðsdómarafélaginu þykja óheppileg, og þess vegna höfum við tveir þm. borið fram þessa brtt. hér og bent á, að nauðsynlegt sé að gera þær breytingar, sem hún mælir fyrir um.