13.04.1954
Neðri deild: 92. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1222 í B-deild Alþingistíðinda. (1185)

197. mál, gin- og klaufaveiki

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Frv. þetta er borið fram af hæstv. ríkisstj. og hefur nú verið samþ. óbreytt í hv. Ed. Frv. gerir ráð fyrir nokkurri rýmkun á heimild ráðh. til að veita leyfi til að veiða hreindýr, en samkv. gildandi lögum má aðeins veiða nokkra hreintarfa árlega, ef ástæða þykir til að leyfa slíkt. Síðan 1940 hefur hreindýrastofninum fjölgað mjög ört, og má vafalaust þakka það að verulegu leyti góðviðratímabilinu milli 1940 og 1950. Er nú svo komið, að kunnugir menn telja, að dýrin séu orðin það mörg, að fremur þröngt sé orðið um þau á því landssvæði austanlands, þar sem þau halda til, og að stofninum geti því stafað meiri hætta af bjargarleysi í hörðum vetrum, þegar þröngt er um haga, en þótt hófleg og skynsamleg veiði sé leyfð undir fullkomnu eftirliti. Með þetta sjónarmið fyrir augum og í trausti þess, að hyggilega verði á málinu haldið með tilliti til veiði, leggur menntmn. til, að frumvarpið verði samþ. óbreytt.