03.11.1953
Efri deild: 14. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1234 í B-deild Alþingistíðinda. (1216)

82. mál, sauðfjársjúkdómar

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Gamalt máltæki segir, að sjaldan sé nema hálfsögð sagan, þegar einn segir. Þó að hv. flm. þessa frv., 1. þm. Eyf., flytti mál sitt af mikilli hógværð og lýsti yfir, að það væri alls ekki flutt vegna þess, að hann vildi gera Fnjóskdælingum óleik, þá virðist mér samt, að máltækið eigi við, að sagan sé hálfsögð, þegar annar segir. Og mér þykir rétt, áður en málið fer til n., að það komi fram, hvernig Fnjóskdælingar líta á þetta mál, sem sé þeirra helmingur sögunnar.

Fyrst vil ég minnast á það, sem hv. flm. sagði, að land þetta, vestri Bleiksmýrardalur, var með ráðherrabréfi 1928 lagt undir umráð hreppsstjórans í Hálshreppi, en hafði áður verið undir umráðum prestsins, sem þjónaði fyrst Hrafnagilskirkju og síðan Akureyrarkirkju. Flm. sagði, að þetta hefði verið gert þrátt fyrir mótmæli prestsins. Mér virðist þetta vera misskilningur. Ég hef hér í höndum ráðherrabréfið frá 28. jan. 1928, og það er til sóknarprestsins í Akureyrarprestakalli og er á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Eftir móttöku bréfs frá biskupi, dags. 24. þ. m., viðvíkjandi umráðum yfir hálfum Bleiksmýrardal inn af Fnjóskadal“ — það er sagt hálfum Bleiksmýrardal, því að Fnjóská skiptir Bleiksmýrardal í eystri og vestri dal og hér er um vestri dal að ræða — „er Akureyrarprestur hefur til þessa notið eftirgjalds af og honum hefur verið reiknað í heimatekjum, hefur ráðuneytið að fengnu samþykki yðar, herra sóknarprestur, ákveðið, að téð ítak verði framvegis, frá 1. júní 1928, talið undir umsjón og yfirráðum hreppsstjóra Hálshrepps og hverfi þannig úr heimatekjum sóknarprestsins á Akureyri frá nefndum tíma, en hins vegar verði tekjur yðar úr prestlaunasjóði hækkaðar frá nefndum tíma og út þetta heimatekjumatstímabil sem eftirgjaldi ítaksins nemur, sem eru 40 krónur.

Þetta tilkynnist yður hér með.

F.h. ráðherra eftir umboði,

Sigfús M. Johnsen.“

Mér virðist ljóst af þessu bréfi, að presturinn hafi samþykkt þetta, og mér þykir mjög eðlilegt, að hann hafi gert það, því að hvað á prestur að vera að vafstrast í landleigum. Sá tími er löngu liðinn, að talið sé eðlilegt, að kirkjan fari með slík mál. Mér finnst þess vegna, að þetta ráðherrabréf hafi í raun og veru verið mjög eðlilegt og enginn geti sett út á þá ráðstöfun, enda hefur það, held ég, ekki opinberlega verið gert fyrr en nú, að ágreiningur þessi hefur orðið og einhverjum mönnum úr söfnuðinum þætti þægilegt að gera samninga við prestinn, þótt ég hins vegar búist ekki við, að þessi söfnuður frekar en aðrir kæri sig um, að prestur sinn fari mikið með mammonsmál í þjóðfélaginu.

Í fyrra var það, að árekstur varð um notkun þessa lands og samningar tókust ekki með mönnum í Hrafnagilshreppi og íbúum Fnjóskadals um framhaldsleigu til beitar á vestri Bleiksmýrardal. Ástæður fyrir því voru allmargar, og er ofur litið drepið á þær í bréfi, sem oddviti Hálshrepps skrifaði mér í fyrravetur. Ég vil nú, með leyfi hæstv. forseta, lesa nokkrar setningar upp úr bréfinu, því að þær skýra afstöðu manna heima í Fnjóskadal til þessa máls. Oddvitinn segir:

„Ávallt síðan fjárskipti fóru fram hefur okkur verið illa við að hafa í okkar löndum sauðfé vestan fyrir Eyjafjarðará. Þaðan mátti alltaf búast við garnaveiki og fleiri kvillum, svo sem riðu, sem þar var áberandi, enda mun þessi garnaveiki“ — sem nú er rætt um — „þaðan komin og óhætt að segja, að ekki hefur verið varlega farið, sérstaklega í heyflutningum, af garnaveikisvæðum.“

Þetta var ein ástæðan fyrir því, að Fnjóskdælir voru á móti því að lána landið, að þeir töldu, að með því væri breikkað það áhættusvæði, sem þeir töldu vera við girðinguna í Eyjafirðinum, ef Hrafnagilshreppsbúar fengju að reka austur fyrir Eyjafjarðará og austur á Bleiksmýrardal áfram. Þá væri hættara við því, að til þeirra bærust kvillar þeir, sem þeir gátu átt von á vestan fyrir girðinguna, garnaveiki, og mæðiveiki. Svo heldur oddvitinn áfram:

„Sannleikurinn er sá, að fé Eyfirðinga, hefur til langs tíma gengið svo á heimalöndum Fnjóskdæla, að óþolandi hefur verið, enda þótt þeir hafi ekki rekið til afréttar.“

Eyjafjarðarsýsla á allstóran hrepp austan Eyjafjarðarár, Öngulsstaðahrepp, sem hefur notað þennan afrétt ekki síður en Hrafnagilshreppur og notað hann þannig, að féð hefur sjálft farið á dalinn, því að það liggur þannig við landið, þó að ekki hafi verið rekið á það. — Þá segir oddvitinn enn fremur:

„Eyfirðingar eru um aldir búnir að eyðileggja gróðurlendi í Fnjóskadal og áreiðanlega tími til þess kominn, að því fari að linna.“

Hv. frsm. lagði áherzlu á það, að Fnjóskdælingar gætu vel staðið af þessu landi, eins og þeir hefðu gert lengi, en Fnjóskadalur er nú, eins og kunnugir vita, þannig, að hann hefur orðið fyrir miklum uppblæstri, og dalbúar kenna það ofbeit. Og þeir telja, að þessi ofbeit hafi stafað frá réttindum Eyfirðinga til að nota land í Fnjóskadal. Þá hefur annað komið til, að fjölgun fjár hefur átt sér stað í hreppnum, einkum nú síðan fjárskipti voru þar gerð, og þörfin fyrir beitina aukizt mjög. Fnjóskdælir telja og, að vænleikur fjárins hjá sér sé miklu minni fyrir það, að þeir hafi um of notað heimalönd til þess að rýma til fyrir aðkomufénu. — Þá segir oddvitinn:

„Engin frambærileg ástæða er til, sem forsvarar það, að bændur beztu mjólkurframleiðslusveitar norðanlands útníði og eyðileggi gróðurlendi rýrustu framleiðslusveitar Suður-Þingeyjarsýslu. Áreiðanlega er nóg fyrir Fnjóskadalsbændur að búa við þann ágang, sem þeir hafa af fé austan Eyjafjarðarár, sem mjög erfitt er að koma í veg fyrir, þótt fénaður vestan yfir á sé ekki þar í ofanálag. Fái það framgang með aðstoð ríkisvalds, að stórbændur vestan Eyjafjarðarár, sem hafa 30–50 kúa fjós og engin nauðsyn er á að eigi margt sauðfé, reki það í land Fnjóskdælinga framvegis, þá er það yfirgangur og kúgun.

Ég heyri sagt, að því sé af sumum Eyfirðingum haldið fram, að reki bændur úr Hrafnagilshreppi ekki sauðfé sitt í Bleiksmýrardal, sé hann ekkert notaður. Þetta er alls ekki rétt. Að vísu er það rétt, að síðan fjárskiptin fóru fram, hafa Fnjóskdælingar ekki rekið á dalinn. Fé hefur verið fátt að þessu, en er alltaf að fjölga, svo að nú þurfa þeir framvegis að reka á dalinn. Þess vegna mega þeir ekki með nokkru móti tapa rétti til hans. Svo hefur mönnum þótt tilgangslítið að hreinsa sitt eigið fé úr heimalöndum til þess að hafa þau eftir sem áður full af fé frá Eyfirðingum. Í öðru lagi hafa bændur úr Öngulsstaðahreppi rekið á dalinn að undanförnu. Það þykir skárra, vegna þess að þeirra fé gengur í okkar löndum hvort sem er, enda engin garnaveiki verið þar.“ — Þetta er skrifað í fyrravetur. — „Og í þriðja lagi hafa bændur úr Hrafnagilshreppi haft á dalnum nokkra tugi af stóðhestum að sumrinu, og mun ekki amazt við því að svo stöddu. Dalurinn hefur því framvegis nóga notkun, þótt fé úr Hrafnagilshreppi sé þar ekki.“ — Og enn segir oddvitinn, að hann sjái ekki, að frá þjóðhagslegu sjónarmiði geti talizt vit í því að láta feitu bændurna í Eyjafirði éta upp mögru bændurna í Fnjóskadal.

Ég hef lesið þetta upp úr bréfi oddvitans til að sýna, að Fnjóskdælingar líta öðruvísi á þetta mál heldur en Eyfirðingar, og ég fyrir mitt leyti tei, að afstaða Fnjóskdælinga sé mjög eðlileg.

Frsm. gat þess, eins og satt var, að í fyrra var með ráðherraúrskurði leyft, að Hrafnagilshreppsbúar rækju fé á Bleiksmýrardal, og við það sat, þeir notuðu dalinn. Hins vegar gat hann þess einnig, að ráðuneytið mundi ekki vilja nema í ýtrustu nauðsyn endurtaka úrskurð sinn. En ég álít, að í raun og veru eigi ekki við að taka land til notkunar gegn vilja hreppsins og sveitarfélagsins, sem landið liggur í, nema ýtrasta nauðsyn sé fyrir hendi. Ég skil það ekki, að ef eitt sinn hefur verið rétt að úrskurða í þessu efni, þá sé ekki hægt að gera það aftur. Hins vegar held ég, að ráðuneytið muni líta svo á, að það sé hæpið að kveða upp þennan úrskurð á ný, af því að réttmæti hans gagnvart Fnjóskdælingum sé svo vafasamt. Spurningin er þá, hvort það sé ekki líka vafasamt, að hið háa Alþingi eigi að setja lög, sem heimili það, að framkvæmt sé þetta, sem ráðuneytið híkar við að úrskurða í annað sinn, þótt lagaákvæði séu til, sem veiti ráðuneytinu rétt til úrskurðarins.

Hv. frsm. benti á það, að fyrir þessari hv. d. lægi frv. um það að heimila ríkisstj. að selja Fnjóskdælingum eyðibýli á Flateyjardalsheiði, viðurkenndi, að það væri sanngjarnt, en taldi, að það mundi líka gera það að verkum, að þeir ættu léttara með, Fnjóskdælingar, að standa af Bleiksmýrardal. Nú er það svo, að þó að ég hafi flutt frv. um þessi eyðibýli og telji eðlilegt, að þau verði eign Hálshrepps, þá hafa Hálshreppsbúar notað land þeirra að undanförnu sem afrétt, því að lönd þessara eyðibýla liggja inni á milli landssvæða, sem hreppnum tilheyra sem eign, og féð spyr ekki að landamerkjum á heiðinni, heldur notar eftir lyst sinni öll lönd, þar sem það gengur.

Og svo kemur annað til: Sveitin er þannig sett, að norðurhluti hennar notar Flateyjardalsheiði, en suðurhlutinn þarf að sækja afrétt suður fyrir sig, getur ekki fengið afrétt norðan við sig, því að norðurhlutinn getur ekki staðið af henni. Það eru ekki þau rýmindi á Flateyjardalsheiði.

Höfuðrök Fnjóskdælinga eru þessi: Við þurfum á dalnum að halda. Heimalöndin hafa verið ofbeitt að undanförnu, fé hjá okkur er að fjölga, og við þurfum að fara að reka til afréttar. Byggð hefur þétzt í dalnum; það hafa verið stofnuð 8 nýbýli á síðustu árum. Dalurinn er þannig byggð, að hann hlýtur að hafa sem aðalatvinnuveg sauðfjárrækt. Hins vegar hefur breyting orðið í Eyjafirði, að sauðfjárrækt hefur þar mjög minnkað, og eðlilegt, að hún minnki, en í staðinn er komin mjólkurframleiðsla mikil, og þau svæði, sem liggja næst Akureyri, svo sem Hrafnagilshreppur, hafa bezta aðstöðu bænda í Norðurlandi til þess að stunda mjólkurframleiðslu. Fnjóskdælir halda því þess vegna fram, að íbúar Hrafnagilshrepps þurfi ekki á þessum afrétti að halda, þeir þurfi ekki að hafa sauðfjárrækt í stærri stíl heldur en svo, að heimalönd þeirra leyfi, jafnvel þótt af beitilandinu hafi verið sniðið með varnargirðingunni, og þeir telja, að þeir geti meira að segja rýmt til í þessum heimalöndum með því að hafa ekki eins margt hrossa þar á sumrin og þeir hafa. Þess vegna er það mikil spurning, þegar um frv. eins og þetta er að ræða, hvort það þarf ekki að setja í það ákvæði um að meta og það rækilega, hvort um brýna nauðsyn sé að ræða.

Þetta frv., sem lagt hefur verið hér fram, hefur að flestu leyti yfirbragð sanngirninnar, því að það gerir ekki ráð fyrir, að hér sé annað tekið heldur en það, sem áður hefur verið notað, og ekki um lengri tíma heldur en þann, sem meinuð eru not af landi því, sem hefur skorizt frá Hrafnagilshreppi með varnargirðingunni að vestan. En það eina, sem frv. gerir ráð fyrir að komi til mats í þessum efnum, er, að sauðfjársjúkdómanefnd skuli meta, hvort afnotin komi ekki í bága við nauðsynlegar sauðfjársjúkdómavarnir. Það á aðeins að meta það, hvort þetta er nauðsynlegt vegna sauðfjársjúkdómavarna. Ég held, að ef ætti að beita fullri sanngirni í þessari lagasetningu, þá ætti a.m.k. að vera líka gert ráð fyrir mati á því, hvort það er búskaparleg nauðsyn að hafa þann sauðfénað í Hrafnagilshreppi, sem þar er hafður, og hvort Fnjóskdælingar líta ekki rétt á það, að þeirra þörf fyrir Bleiksmýrardal sé svo mikil sem lýst er í bréfi oddvitans og ég veit að þeir telja.

Ég vil því biðja hv. n. að taka það til athugunar fyrst og fremst, hvort það er ekki óþarfi að setja lög um þetta efni, hvort það er ekki eðlilegra, að það heyri undir stjórnarráðið að kveða á með úrskurði um það, sem hér á að binda með sérstökum lögum, kveða á um það með úrskurði, eins og gert var á árinu, sem er að líða, og ef n. þó hallast að því, að ekki sé óeðlilegt að setja um þetta lög, þá hvort ekki er sjálfsagt að taka upp, að lönd skuli þó ekki tekin til uppreksturs án vilja þeirra, sem hafa umráð yfir þeim, ef hinum, að mati einhverra tilkvaddra manna, telst ekki brýn búskaparnauðsyn á því, svo að það komi fleira til greina heldur en sóttvarnir, þegar dæma á um svo alvarlegt efni eins og það að taka af mönnum land til nytja móti vilja þeirra.