03.11.1953
Efri deild: 14. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1243 í B-deild Alþingistíðinda. (1219)

82. mál, sauðfjársjúkdómar

Flm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Hv. þm. S–Þ. byrjaði ræðu sína nú áðan á því að tala um þá breytingu, sem gerð var með ráðherrabréfi á umráðunum yfir vestri Bleiksmýrardal. Ég fór ekki með annað í þessu efni heldur en það, sem ég vissi sannast og réttast, og mér hefur nú borizt í hendur bréf sóknarprestsins á Akureyri, sem er að vísu prívatbréf, skrifað til frænda hans, sem á sæti hér á Alþ., og ég mun því ekki lesa allt, en ég skal lesa þó hér byrjunina á því og nokkuð fram eftir því, og þá geta menn séð, að það, sem ég sagði, er nákvæmlega það sama og kemur hér fram hjá sóknarprestinum. Bréfið er dagsett á Akureyri 22. okt. s.l. og hljóðar svo, það sem ég ætla úr bréfinu að lesa:

„Út af Bleiksmýrardalnum er þetta að segja: Hrafnagilskirkja forna átti Bleiksmýrardal hálfan. Ekki veit ég, hvernig hún hefur eignazt hann. Líklega hefur eignarhald kirkjunnar verið síðan í kaþólskum sið, sektir, erfðir eða dánargjöf. Þegar Hrafnagilskirkja var niður lögð og byggð upp á Akureyri, voru allar eignir hennar færðar undir Akureyrarkirkju samkvæmt konungsbréfi, að mig minnir frá 1859, þó með því móti, að prestur Grundarþinga nyti ókeypis upprekstrar á Bleiksmýrardal. Svoleiðis var það að minnsta kosti praktíserað. „Pabbi“ — þ.e.a.s., fyrrverandi prestur á Hrafnagili var faðir núverandi sóknarprests á Akureyri — „rak alla sína búskapartíð á Hrafnagili á Bleiksmýrardal. Í brauðamatinu frá 1910 er séra Geir Sæmundssyni metið í heimatekjum ítakið á Bleiksmýrardal kr. 40.00, en ég held hann hafi endurleigt það bóndanum á Reykjum fyrir kr. 80.00 með þeim skilyrðum, að bændur úr Hrafnagilshreppi fengju þar upprekstur. Gengur nú svo til 1927. Þá deyr séra Geir, og Akureyrarþrestakall er auglýst til umsóknar. Auglýsingin í Lögbirtingi var heimatekjumatið frá 1910 orðrétt. Heimatekjur voru metnar á 710 kr. Þær voru prestsmata af Möðruvöllum kr. 364.50, Grund og Miklagarði kr. 262.80, Glerá og Lögmannshlíð eftir verðlagsskrá, hálfur Bleiksmýrardalur 40 kr. Alls metið prestinum kr. 710.00. Þannig er mér veitt Akureyrarprestakall frá 1. des. 1927 og ekki minnzt á neina breytingu á heimatekjum. Adam var þó ekki lengi í Paradís. Skömmu eftir að ég kom norður í desember 1927, fæ ég tilkynningu frá kirkjumrh., sem þá var Jónas frá Hriflu, um, að hann hefði tekið Bleiksmýrardal undan Akureyrarkirkju og lagt hann undir Hálshrepp, sömuleiðis að heimatekjumatið á Akureyrarprestakalli hefði verið lækkað um eftirgjaldið af dalnum, kr. 40.00.

Því miður finn ég ekki þetta bréf. Það er einhvers staðar í pakka niðri í kjallara. Ég skrifaði kirkjumálarn. aðfinnslur við þessari ráðstöfun, en því var engu anzað. Ég ákvað því að bíta í það súra epli að hafast ekki að.“

Ég hygg, að þetta nægi til að sýna það, að ég fór með rétt mál, og ég er sannfærður um, að presturinn fer það líka. (Gripið fram í.) Hann misminnir ekki, hugsa ég, heldur er það þannig, að eftir að hann hefur skrifað mótmælin, hefur hann tilkynnt eitthvað um það, að hann yrði að sætta sig við þetta, og á því er ráðherrabréfið síðara byggt.

Þá skal ég víkja að ræðu hv. þm. S-Þ., með örfáum orðum þó. Hann taldi, að það, sem Fnjóskdælingar hefðu mest á móti því, að þetta héldist, að Hrafnagilshreppsbúar rækju á Bleiksmýrardal, væri ótti við sýkingarhættu, vegna þess að Hrafnagilshreppur væri næstur varnargirðingunum að vestan. Það er rétt, að Hrafnagilshreppur liggur að varnargirðingunum, sem liggja um þveran Eyjafjörð, og Akureyrarbæjarland liggur svo að nyrðri varnargirðingunni, sem er lítið eitt fyrir norðan Akureyri. En það eru engar sauðfjárpestir fyrir handan þessar varnargirðingar, svo að vitað sé, a.m.k. ekki mæðiveiki. Þessar varnargirðingar eru aðeins hafðar til varúðar. Og það er ekki einasta það, heldur er ekki vitað um neina mæðiveiki í hólfinu þar fyrir vestan og sem betur fer hvergi í landinu. Meira að segja hefur mæðiveiki aldrei verið hvorki inni í Saurbæjarhreppnum fyrir innan þessa varnargirðingu né heldur norðan við hina girðinguna í Eyjafirði. Ekki veit ég til þess, að hún hafi nokkru sinni komið þar, svo að ég held, að þessi hætta á sýkingu, að því er mæðiveiki snertir, geti ekki verið fyrir hendi, a.m.k. ekkert meiri af fé úr Hrafnagilshreppi heldur en hvar annars staðar, t.d. af Svalbarðsströnd eða úr Fnjóskadal sjálfum o.s.frv. Ef mæðiveiki kemur þannig upp, án þess að menn geti vitað nokkuð, hvernig hún á að hafa borizt, þá er ekki hægt að fullyrða neitt, en það getur ekki verið neitt meiri hætta. En um garnaveikina er það að segja, að þar er ekki um neina nýja sýkingarhættu að ræða, því að við rannsókn, sem fram fór í haust, hefur það sýnt sig, því miður, að garnaveiki á sér stað í Fnjóskadal. Og mér finnst nú miklu líklegra, að hún hafi borizt frá Svalbarði og af Svalbarðsströnd heldur en innan úr Hrafnagilshreppi, því að það vissi enginn til, að hún væri þar, ef ég man rétt, fyrr en eftir að hún kom upp á Svalbarði.

Hv. þm. talaði um það, að það væri lítil mjólkurframleiðsla í Fnjóskadal og ekki nema á sumrin og þess vegna, að mér skildist, kæmi það lítið þessu máli við. En það er nú svo samt, að vitanlega eykur það þær mjólkurafurðir, sem mjólkursamlag Eyfirðinga verður að selja, og gerir þar með örðugra fyrir um mjólkurframleiðslu. Ég er ekki að telja það eftir, að þeir fái að nota mjólkursamlag Kaupfélags Eyfirðinga, en mér finnst bara, að þeir eða þeirra forsvarsmaður ætti þá ekki að vera jafnóbilgjarn í þessu máli og hann hefur verið.

Skrýtin þótti mér sú kenning hv. þm., þó að hann virtist viðurkenna; að þetta hefði verið eign Hrafnagilskirkju og síðan Akureyrarkirkju, að með ráðherrabréfinu hefði sú eign verið upphafin. Ég velt ekki til þess, að ráðherra hafi nokkurn tíma haft eða hafi heimild til þess án laga að afhenda eignir kirkna eða prestssetra. Ég þekki það ekki. Hafi það verið meiningin að breyta um eignarrétt á þessu landi með ráðherrabréfinu, þá er það vitanlega markleysa. En ég skil nú ekki ráðherrabréfið svo, að það hafi nokkurn tíma verið meiningin að breyta eignarréttinum, heldur er aðeins ákveðið að breyta umráðaréttinum.

Þá sagði hv. þm., að kirkjan hefði ekkert með landið að gera. Það er auðvitað rétt, að kirkjan sem slík á ekki sauðfé, og það þarf ekki að reka til afrétta. En eins og ég gat um í minni framsöguræðu, þá er allmikill hluti af Hrafnagilshreppi í Akureyrarsókn, og svo er ekki hægt að sjá, að gamall réttur, sem fylgt hefur alveg sérstaklega Hrafnagili, sem er ekki nú í Akureyrarsókn, verði tekinn af með einn ráðherrabréfi. (Gripið fram í.) Ja, ég fæ nú ekki séð það. Ég held, að slíkt geti ekki samkv. íslenzkum lögum átt sér stað nema með fjárnámi — með opinberar eignir að vísu með lögum, en hér er tæplega um opinbera eign að ræða að þessu leyti.

Svo um þennan mikla ágang, sem hv. þm. talaði um að Fnjóskdælingar yrðu fyrir af Eyfirðingum. Ef þessi mikli ágangur á heimalönd þeirra á sér stað af fé úr Eyjafirði, þá þykir mér það nú undarlegt, að þeir skuli þá bæta á heimalönd sín með því að sleppa fénu heima á sumrin. Það er nú orðið allt öðruvísi en áður var um ágang af sauðfé. Það eru flestir nú, og svo mun einnig vera í Fnjóskadal, sem girða bæði tún og a.m.k. beztu engjarnar. Ágangurinn ætti þá að vera á beitilöndin, og þá sýnist mér það alveg fráleitt út af ágangi úr Eyjafirði að bæta í heimalöndin með því að sleppa þar fénu. Ég held þeir ættu þá frekar að reyna að koma bæði sínu fé og fé annars staðar frá inn á afréttinn.

Hv. þm. bað nefnd þá, sem fær málið til meðferðar, að athuga um breytingar á því, þannig að hann hugsaði sér einhvern dómstól, sem ætti að meta það, hvort búskaparleg þörf krefðist þessara áframhaldandi réttinda, ellegar þá búskaparleg þörf Fnjóskdælinga krefðist þess, að frá þessu væri horfið. Ég fyrir mitt leyti mundi ekki setja mig upp á móti því, þótt einhver slík ákvæði væru sett í frv., ef tryggilega væri um þann dómstól búið, að hann væri óhlutdrægur í þessu efni. Ég mundi ekki telja þann dómstól óhlutdrægan, sem skipaður væri t.d. tómum Þingeyingum eða tómum Eyfirðingum. En ef hægt væri að finna leið til þess, að það væru óhlutdrægir menn í þessu efni, sem ættu að meta þetta, þá mundi ég ekkert hafa á móti slíku, og ekki sízt ef hv. þm. S–Þ. og hans umbjóðendur, íbúar Fnjóskadals, gætu þá sætt sig við frv. á eftir.

Hv. þm. minntist á orð, sem ég hafði viðhaft um oddvitann í Hálshreppi. Ekki var það ætlun mín að fara neitt niðrandi orðum um hann. Ég þekki hann vel, og ég veit, að það er heiðursmaður, en ég veit líka, að hann er kappsmaður, og það er nú svona, að málfærslumenn geta verið út af fyrir sig heiðarlegir menn, þó að þeir dragi nokkuð stíft fram málstað sinna umbjóðenda í málafærslu sinni. Það er síður en svo, að ég vilji draga sæmd þessa heiðursmanns nokkuð í efa, en hitt finnst mér, að hann hafi sýnt nokkra óbilgirni í þessum viðskiptum, eftir því að minnsta kosti, hvað mér er tjáð um þær samningatilraunir, sem farið hafa fram á milli oddvita Hálshrepps og oddvita Hrafnagilshrepps.