12.11.1953
Efri deild: 19. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1247 í B-deild Alþingistíðinda. (1223)

82. mál, sauðfjársjúkdómar

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Hér er um það að ræða að setja í lög ákvæði, sem tryggja það, að bændurnir í Hrafnagilshreppi, sem hafa notað Bleiksmýrardal vestan ár sem upprekstrarland um margra áratuga skeið, geti gert það nú á næstunni, þrátt fyrir það þó að sauðfjárveikivarnirnar eftir þeim almennu einangrunarreglum eða varnarreglum, sem í lögum eru, geri það lítt mögulegt. Það ber öllum saman um það, að sýkingarhætta við notkun afréttar þarna, eins og nú er, sé engin, þó að menn hins vegar vilji ekki uppnema þau ákvæði úr almennum lögum, sem reyna að styðja að því, að hvert girðingarhólf falli sér hvað fjársamgöngur snertir.

Aðstæður þarna eru þær, að fyrir framan Reyki í Fnjóskadal er nú ekki byggð, og bóndinn á Reykjum hefur fyrir hönd kirkjujarðasjóðs nú umráðarétt yfir þessu landi. Hann mun hafa það á leigu fyrir ákveðið gjald og leigja það aftur út til þeirra, sem afréttarlandið nota, fyrir nokkru hærra.

Fnjóskadalurinn er sú sveit hér á landi, sem hefur einna rýmstan afrétt. Norður af dalnum liggur Flateyjardalsheiðin, sem er önnur fallegasta afréttarlandsheiði, sem ég hef farið yfir hér á landi. Sú fallegasta er Búrfellsheiði, milli Hólsfjalla og Þistilfjarðar, en þar næst kemur Flateyjardalsheiðin, og hún hefur í raun og veru stækkað við það, að þeir bæir, sem áður voru í byggð á Flateyjardal, eru komnir í eyði. Það er þess vegna óþrjótandi afréttarland, sem hreppurinn þar á. Í hinum endanum á hreppnum eru þrír dalir. Bleiksmýrardalur er vestastur, og það er landið á honum, fyrir vestan á, sem Hrafnagilskirkja átti og kirkjujarðasjóður nú hefur umráð yfir, eins og fjöldamörgum öðrum kirkjujörðum og kirkjueignum víðs vegar um landið. Það er þessi hluti af vestasta dalnum. sem hefur verið notaður sem upprekstur fyrir Hrafnagilshrepp og stundum líka Öngulsstaðahrepp að nokkru leyti. Frv. þetta fer ekki fram á annað en að þessir hreppar hafi heimild til að nota það áfram fyrir álíka mikla fjártölu og þeir hafi notað það undanfarið. Við settum um það brtt. við frv., að þar væri álíka mikil fjártala. Brtt. hljóðar svo: „Afnot þessi skulu þó aðeins ná til svipaðrar fjártölu og upprekstrarfélög þessi eða ábúendur einstakra jarða ráku áður í landið.“ Það er því ekki eftir þessu hægt að reka þangað meira. En auk þessa dals, þess hluta, sem Hálshreppur ekki hefur not af, þá hefur hann rétt á að nota Bleiksmýrardal fyrir austan á, ef hann vill. Hann hefur ekkert rekið þangað. Það hefur engin kind úr Hálshreppi verið rekin þangað í mörg ár, eitthvað kannske runnið þangað, en ekkert rekið þangað. Hreppurinn hefur einnig afnot af næsta dal, sem heitir Hjaltadalur, þar var bær samnefndur, sem var þó nokkuð stór jörð á sínum tíma; hún er nú komin í eyði fyrir löngu, og sá dalur er afréttardalur. Svo kemur þriðji dalurinn, Timburvalladalurinn, austasti dalurinn fram af Hálshreppnum, sem er líka langur og grösugur dalur. Hvorki Hjaltadalurinn né Timburvalladalurinn eru notaðir núna fyrir annað fé en fé frá Snæfoksstöðum og Sörlastöðum, sem rennur þangað fram eftir, enginn rekur þangað. Það er þess vegna líka í þessum enda hreppsins alveg yfirfljótanlegt afréttarland, ekki bara eins og nú er, heldur líka í ófyrirsjáanlegri framtið, og þess vegna alveg sjálfsagt að leyfa Hrafnagilshreppi, sem enga afrétt á, nema lítinn þröngan dal, sem heitir Skjóldalur og er afgirtur núna með öðru fjárskiptahólfi og þeir fá ekki að reka á, — og aðra afrétt eigá þeir ekki, — að nota þennan Bleiksmýrardal eins og þeir hafa gert. Ef bæirnir í Fnjóskadal telja sig verða fyrir ágangi, þegar fé er að renna af afrétt og á, sem vel getur verið, því að þá rennur það meðfram nokkrum fremstu bæjunum í dalnum, þá er náttúrlega vandalaust að girða fyrir afréttinn í dalinn; það hefur viða verið gert. Það geta þeir gert og eiga náttúrlega að gera skilyrðislaust, og verður gert. Þótt það verði ekki gert núna í ár eða að ári kannske, þá er það alveg gefinn hlutur, að það verður að girða afréttirnar meira frá heimalöndum, þegar tímar líða.

Ég held, að nm. séu allir sammála um að mæla með því, að frv. verði samþ., en að það verði hnýtt við það brtt., sem takmarki þann fénað, sem þeir megi reka í það eða Reykjabóndinn megi leyfa þeim að reka í það, miðað við það, sem var áður, á meðan þeir ráku þangað að staðaldri, og ekki meira. Annars get ég getið þess sjálfur, að ég persónulega tel, að Hrafnagilshreppurinn eigi að fá þetta land keypt, en þáð má vera, að það sé ekki tímabært að gera það núna strax, en annars er ég alveg ákveðinn með því, að Hrafnagils- og Öngulsstaðahreppar eigi að fá þetta land keypt. Þeir þurfa á landinu að halda, en Fnjóskdælingar ekki. En inn á það skal ég ekki fara núna.