13.11.1953
Efri deild: 20. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1258 í B-deild Alþingistíðinda. (1230)

82. mál, sauðfjársjúkdómar

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Hv. 1. þm. Eyf. minntist lítils háttar á eignarréttinn. Ég tel, að hv. frsm. hafi nú svarað og gert skilmerkilega grein fyrir því, að eftir eðli málsins og venju hér á landi sé eignin fallin til kirkjujarðasjóðs, enda sé ég ekki, að eftir því, sem nú er orðið með kirkju í landi okkar, hafi hún, eins og ég hef raunar áður tekið fram í þessum umræðum, neitt með land að gera nema undir sjálfa sig, þ.e. kirkjuhús sitt og garð sinn. Það kemur sem sé ekkert við í þessu máli, hvernig henni tekst að ala sína herrans hjörð, svo að maður vitni til orða Bólu-Hjálmars, og það býst ég við að hv. 1. þm. Eyf. sé mér samdóma um undir niðri, þótt honum þyki henta að leggja áherzlu á það, að Akureyrarkirkja ætti að hafa umráð á þessu landi, af því að hann telur, að það væru þar hægari heimatök fyrir bændur þá, sem hann ber fyrir brjósti í Hrafnagilshreppi, að semja. En þetta er veraldlegt mál, en ekki kirkjulegt.

Hann sagði, að hv. þm. Str., sem var landbrh. og gaf út bréf um afnotarétt handa Hrafnagilshreppsbúum fyrir Bleiksmýrardal á þessu ári. hefði viðurkennt, að landið sé eign Akureyrarkirkju. Þetta er ekki rétt skilið, en til þess að réttlæta orðalag í bréfi sínu færði hann rök að því, að það væri ekki hægt að slá neinu föstu um eignarréttinn. Hann viðurkenndi sem sé aðeins, að Bleiksmýrardalur kynni að geta verið eign Akureyrarkirkju. — Hv. 1. þm. Eyf. afhendir mér hér bréf, sem hann las upp úr í gær, en þess þurfti ég ekki með, því að orðalagið þar er á þá leið, að það er rétt, sem ég hef verið hér að halda fram, að þar er aðeins lauslega talað um landið sem eign Akureyrarkirkju, í óbeinu sambandi við aðalefni bréfsins, sem er um afnotaréttinn, og hv. þm. Str. réttlætti það orðalag í gær, þó að hann hins vegar tæki skýrt fram, að hann teldi það ekki fullrannsakað, hver væri nú eigandi landsins. Og ég hygg, að hv. 1. þm. N–M., frsm. n., hafi alveg hitt naglann á höfuðið í ræðu sinni áðan, þegar hann lýsti því yfir, að landið væri gengið undir kirkjujarðasjóð, eins og fleiri lönd kirkjunnar hefðu þangað gengið með svipuðum hætti.

Ég hef hreyft mótmælum gegn þessu frv. fyrir beiðni sveitarstjórnarinnar í Hálshreppi, og ég lit svo á, þó að ég sé ekki kunnugur þessum afréttarlöndum, að það séu fullar ástæður til að ætla, að sveitarstjórnin viti betur um þörf sinna hreppsbúa — hreppsbúanna í Hálshreppi — heldur en hv. alþm. í þessari d. Það er ekkert undarlegt, þó að því sé haldið fram af þeim, sem sækjast eftir að fá land þetta til beitar að þörfin sé ekki brýn hjá Hálshreppsbúum til þess að hafa þetta land. En ég álit hins vegar, að það hafi verið færð full rök fyrir því, bæði af mér og ekki sízt af oddvitanum í bréfköflum þeim, sem ég las eftir hann við umræður hér í hv. d., að tímarnir séu mjög breyttir frá því, sem áður var. Það er ekki nægilegt að vitna í það, að lengi hafi verið notuð beit á vestri Bleiksmýrardal úr Hrafnagilshreppi, því að búnaðarhættir voru allt aðrir fyrrum en þeir eru nú. Þá lifðu bændurnir, bæði í Hálshreppi og Hrafnagilshreppi, aðallega á sauðfjárrækt. Nú er svo komið, að bændurnir í Hrafnagilshreppi lifa aðallega á nautgriparækt, en bændurnir í Hálshreppi halda áfram að þurfa að lifa á sauðfjárrækt. Bústofn hefur stórlega aukizt, túnrækt hefur mjög aukizt; túnin í Fnjóskadal hafa margfaldazt að stærð, jarðirnar bera miklu meiri fjárfjölda en áður, og þörfin fyrir afréttarland hefur þess vegna færzt út þeim megin, en hins vegar minnkað hjá bændum í Hrafnagilshreppi. Mér er sagt að norðan, að í Hrafnagilshreppi séu í raun og veru aðeins tveir bændur, Grundarbændur svonefndir, sem sérstaklega óski eftir upprekstri úr Hrafnagilshreppi á Bleiksmýrardal. Ætli það sé ekki rétt? Þessir bændur hafa mikinn kúastofn, en þeim þykir henta að hafa sauðfé líka og hafa víst á fjórða hundrað fjár. Bændunum í Hálshreppi, sem telja kreppt að sér að því er beit snertir fyrir sauðféð, þykir hins vegar að vonum hart, ef hv. Alþ. ætlar með löggjöf að heimila þessum stórbændum Eyjafjarðar, sem hafa beztu skilyrði til nautgriparæktar, enda hafa hana í stórum stíl, upprekstur fyrir sauðfé inn á lönd í Hálshreppi. En þar að auki er það svo, að í löndum Hálshrepps taka sér beit Eyfirðingar úr Öngulsstaðahreppi, og að því er ekki sérstaklega fundið. Göngur fjár eru þannig. Einnig leggja Hálshreppsbúar íbúum Svalbarðsstrandarhrepps til afrétt í stórum stíl og verða að gera það áfram, og Grýtubakkahreppsbúar sækja enn fremur þangað afrétt. Þótt löndin, sem Hálshreppsbúar hafa þess vegna yfir að ráða, séu allviðáttumikil og allgóð sumarbeitilönd, þá eru það margir, sem til þeirra leita og þeir þurfa landfræðilega að sjá fyrir í afréttarmálum. Þessi Bleiksmýrardalur, sem er — eftir því sem upplýst var áðan — allstórt land, var metinn til uppreksturs fyrir 2000 fjár, og telja hreppsnefndarmennirnir í Hálshreppi, að hann hafi verið ofbeittur úr Eyjafirði og þoli ekki sama fjárfjölda og áður. Þeir bæir í Hálshreppi, sem sérstaklega þurfa á beit að halda á vestri Bleiksmýrardal, eru suður með Fnjóskánni að vestan. Þeir eru átta talsins, og eftir því sem oddvitinn upplýsir, þá er það land, sem þarna er um að ræða, ekki meira en svo, að það sé sæmilegt land til beitar fyrir þeirra fénað og þann fénað, sem rennur inn á landið og ekki verður fyrir byggt, m.a. frá Eyfirðingum. Það er þess vegna ekki eins mikil útilokunarstefna í málafærslu Hálshreppsbúa eins og látið hefur verið í skina. Þrír hreppar sækja í stórum stíl not af afréttarlöndum, auk Hrafnagilshrepps, og þeir amast ekkert við öðrum en Hrafnagilshreppsbúum, af því að þeir telja óþarft, að þeim sé veitt aðstaða til uppreksturs hjá sér, þeirra búnaðarhættir séu þannig, að þeir þurfi ekki á þeirri sauðfjárrækt að halda, sem krefst stærra lands en þeir hafa yfir að ráða. M.a. benti oddvitinn í Hálshreppi á það í morgun í símtali við mig, að þessir stórbændur í Hrafnagilshreppi, bændurnir á Grund, hefðu 40–50 hross í högum hjá sér 9 mánuði ársins, en fengju land fyrir þau 3 mánuði ársins á Bleiksmýrardal, og við því mundi ekki verða amazt. Hann sagði enn fremur, að ágengnin í þetta land, sem landfræðilega tilheyrir Hálshreppi, líktist því ákaflega mikið, að verið væri að seilast eftir lambi fátæka mannsins af ríka manninum. Ég tel rétt, að þetta komi hér fram, til þess að hv. þdm. viti, hvers vegna ég er hér að mótmæla þessu frv. Það er fyrir eindregnar óskir heiman úr Hálshreppi.

Ef nú þetta frv. verður samþ. hér í þessari hv. d. við 2. umr., þá mun ég athuga það sérstaklega, hvort ekki sé rétt fyrir mig að koma við 3. umr. fram með brtt., sem tryggi það, að girðing verði gerð til þess að hindra það, að fé það, sem rekið er á vestri Bleiksmýrardal, gangi í heimalönd þeirra áður nefndu átta jarða, sem þurfa í raun og veru óhjákvæmilega á Bleiksmýrardal að halda, en verða, eins og nú standa sakir, að kúlda fé sitt í heimalöndum. Hv. 1. þm. Eyf., flm. frv., telur, að þessir bæir geti rekið austan árinnar á framandali. Það er löng leið, afleitt að venja fé á þá ferð. Reksturinn er í gegnum Vaglaskóg og mjög torveldur. Hins vegar verður ekki annað sagt en ef brú yrði byggð á Fnjóská framarlega í dalnum, eins og gert er ráð fyrir í brúalögum, þá mundi það bæta nokkuð úr skák, og ég ætla að taka upp aftur það, sem ég tók fram í gær, að ég vænti þess, að verði þetta frv. samþ., þá verði þeir hv. þm., sem það samþ., fúsir til þess að bæta úr þeim óleik, sem þeir gera Hálshreppsbúum með samþykkt frv., á þann hátt að greiða fyrir því, 'að þeir fái brúna byggða í framdalnum til þess að auðvelda rekstur fjárins á austurafréttinn.

Hv. frsm. n. gat þess, að hann hefði reyndar viljað stíga svo langt spor að heimila Eyfirðingum að kaupa vestri Bleiksmýrardal. Ég undrast, að þetta skuli hafa hvarflað að honum, að vilja samþykkja heimild til þess að ekki betur rannsökuðu máli en þetta mál er hér. Ég vil leyfa mér að halda því fram, að þó að hv. þm. sé nú flestum mönnum fróðari um landrými og ástand í búnaðarmálum, þá skjöplist honum í þessu efni. Það er mjög fráleitt, að svo langt væri nokkurt vit í að ganga. Hins vegar hef ég skorazt undan því að verða við þeirri ósk Hálshreppsbúa að taka upp flutning þess, að þeir fái að kaupa vestri Bleiksmýrardal, og það er vegna þess, að ég vil, að það sé fullkunnugt áður, hverra er mest þörfin fyrir þetta land. Af sömu ástæðu tel ég, að það sé allt of langt gengið í þessari hv. d. að samþykkja það, áður en nokkur rannsókn fer fram, að taka réttinn af Hálshreppi til notanna og afhenda hann Eyfirðingum, eins og þetta frv. ætlast til.