13.11.1953
Efri deild: 20. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1261 í B-deild Alþingistíðinda. (1232)

82. mál, sauðfjársjúkdómar

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Ég skal vera stuttorður. — Ég vil fyrst af öllu benda á það, að þessir átta bæir, sem þm. S-Þ. talaði um, hafa aldrei rekið á Bleiksmýrardal; þeir hafa haft fé sitt heima núna í meira en 30 ár, án þess nokkurn tíma að reka það þangað. Ingólfur sálugi í Fjósatungu rak það þangað tvisvar sinnum sína búskapartíð eða svo, hinir ekki. En vitanlega hafa þeir nóg land til að reka í, því að þeir eiga Bleiksmýrardalinn að austanverðu, og þeir geta rekið í Hjaltadalinn, og þeir geta rekið á Timburvalladalinn, og þegar komin er brú á Fnjóská, eins og það er orðað í brúalögunum, „framarlega í Fnjóskadal“, þá efast ég um, að hún komi að gagni til þessa. Hún getur komið að gagni fyrir þá til að reka yfir á brúnni og fram hjá Sörlastöðum og fram á austanverðan Timburvalladal. en þá er bæði tungan á milli Hjaltadalsár og Fnjóskár ónotuð, eins og hún er núna, og tungan á milli Hjaltadalsár og Timburvallaár ónotuð, eins og hún er líka núna. Þær eru báðar ónotaðar núna, og aldrei kemur kind í hvoruga þeirra, og er stórt og mikið land í báðum. Þess vegna er það ekkert annað en mannskapsleysi að reka þangað ekki, ef þeir á annað borð kæra sig um það. En þeir hafa Vaðlaheiðina fyrir ofan túngarðinn og láta nægja að sleppa í hana; það er sannleikurinn. Alveg eins og bóndinn á Brjánslæk er ekki að hugsa um að reka fram í Vatnsdal, hann sleppir fénu heima, og það fer fram í Vatnsdal sjálft, ef það vill, þegar hann er búinn að sleppa því, rýja það og sleppa því, alveg nákvæmlega sama á sér þarna stað um féð, því er bara sleppt heima.

Hv. þm. heldur, að ég mundi breyta afstöðu, ef ég rannsakaði málið betur, hvað það snertir að vilja vera með því, að þeir fengju þetta land keypt. Nei, ónei. En ef ég ætlaði í „logikina“ þeirra Bernharðs, þm. Eyf., og Karls, þm. S-Þ., sem eru að deila um, hver hafi átt umráð yfir landi, þá mundi ég hugsa mig tvisvar um, áður en ég flytti frv. til l. um kaup á Heiðarhúsum, því að það var hjáleiga frá Laufási og Svalbarðsströndin á ekkert upprekstrarland. Það er bara löngu hætt að vera hjáleiga frá Laufási og komið undir kirkjujarðasjóð, alveg á nákvæmlega sama hátt og dalurinn, sem við erum um að ræða. En það var hjáleiga frá Laufási, og Svalbarðsströndina vantar afrétt tilfinnanlega og mætti gjarnan fá hann á Flateyjardalsheiði.