17.11.1953
Efri deild: 22. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1270 í B-deild Alþingistíðinda. (1242)

82. mál, sauðfjársjúkdómar

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Það mun vera aðeins athugasemd, sem ég hef rétt til að gera hér. Skal ég reyna að haga mér samkvæmt því.

Það er rétt, að ég hélt því fram, að þessi till. hv. þm. S-Þ. væri óþörf, og ég hef áður bent á það, að hún væri óþörf, því að þeir, sem kunna að verða fyrir ágangi af afréttinum, hafa sinn sanngjarna rétt samkvæmt girðingalögunum, og það eru ekki nema tæp tvö ár síðan við vorum báðir með því að samþ. þessi girðingalög, og var vandað til þeirra, og áttu þau að sjálfsögðu að taka til þeirra ástæðna, sem hugsanlegar væru að því er girðingar snertir.

Hv. þm. minntist á þann gerðardóm, sem víkið er að í minni till. og hér hefur borizt í tal, og þótti honum mín till. um það efni óþörf. Ekki hafa höfundar girðingalaganna litið svo á, að ákvæði um þetta væru óþörf. Þess vegna er sett hér í 2. málsgr. 6. gr. girðingalaganna: „Liggi girðingin á mörkum lögsagnarumdæma, tilnefna hlutaðeigandi lögreglustjórar eða sýslumenn tvo menn hvor, og gengur einn þeirra úr eftir hlutkesti. Hinir framkvæma svo matið.“ Þetta er vitanlega sett vegna þess, að öðrum sýslumanninum er ekki fyllilega treyst til þess að tilnefna þennan dóm. Það getur nú verið, að mín till. um þetta atriði sé að sumu leyti óþörf, en ekki af þeim ástæðum, sem hv. þm. nefndi, því að það er ómögulegt að segja annað en að Bleiksmýrardalurinn, ef menn halda sér við hann sérstaklega, liggur á mörkum sýslufélaga, svo að sennilega mætti beita þessu ákvæði samkv. girðingalögunum, þó að ekkert væri um það samþ. En skýrara er það þó að tiltaka það hér í þessu frv., ef það verður samþ. á annað borð. Og þetta ákvæði hefur hv. þm. samþykkt og ég líka.

Það er einn höfuðmisskilningur hjá hv. þm. S-Þ., sem öll hans barátta í þessu máli byggist á, og það er, að hann annaðhvort telur eða a.m.k. segist telja, að rétturinn sé hjá Þingeyingum, nánar tiltekið Fnjóskdælingum, í þessu máli. Hann nefndi þrjár ástæður, tvær þær fyrri sagði hann að væru þó ekkert aðalatriði í þessu máli, aðalatriðið væri ákvæði í fjallskilareglugerð Þingeyjarsýslu. Ég hef nú áður vikið að þessu, að með þessu ákvæði í fjallskilareglugerðinni hefur sýslunefndin gengið lengra í því að skerða rétt manna heldur en Alþingi nokkurn tíma leyfir sér að gera, án þess að fullar bætur komi þá fyrir. Ég vil ekki beygja mig fyrir slíku. Ég tel réttinn vera þeirra megin, sem um ómunatíð hafa notað þennan afrétt. Hér er einmitt um það að ræða, að fyrst hefur sýslunefnd Þingeyjarsýslu sett reglugerðarákvæði, sem gerði mögulegt fyrir stjórnarvöldin í Hálshreppi að gera tilraun til að ræna Eyfirðinga réttindum. Það er sannleikurinn í málinu.

Út af því, sem hv. þm. sagði, að hér væri talað um ábúendur eða notendur, sem ættu að girða, þá er það rétt, það stendur þannig. En það gefur að skilja, að það er átt við báða þessa aðila, eigendur eða notendur. Ætti því að fara að girða þarna fyrir Bleiksmýrardal samkv. girðingalögunum, þá yrði það að sjálfsögðu þannig, að bændur í Fnjóskadal legðu til 1/4 kostnaðarins, eigendur afréttarins, Akureyrarkirkja eða kirkjujarðasjóður, hvort heldur sem stæði nú fyrir því, meginhlutann auðvitað, en bændur í Hrafnagilshreppi, þeir sem nota afréttinn, einhvern hluta.

Hv. þm. sagði, að mín till. væri óþörf, því að hún vísaði aðeins til laganna. Þetta er nú að nokkru leyti rétt. En það er ekkert dæmalaust, að í lögum sé sagt, að um þetta og þetta atriði fari eftir ákvæðum í öðrum lögum. Það er mjög algengt í lagasetningu, að um atriði skal fara eftir ákvæðum þessarar og þessarar greinar í einhverjum öðrum lögum. Það þarf ekki að lesa mikið í stjórnartíðindum og lögum síðustu ára til að sjá slík ákvæði. En síðasti málsl. minnar till. er þó ekki að öllu leyti tilvísun í girðingalögin. Þó að þar sé að vísu ákveðið, að í þessu sérstaka tilfelli skuli fara eftir víssu ákvæði þeirra, þá er þetta ákvæði í minni till. nauðsynlegt, eins og sakir standa, til að koma í veg fyrir það, að dómur annars aðilans í málinu verði látinn nægja.