14.12.1953
Efri deild: 35. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1307 í B-deild Alþingistíðinda. (1398)

122. mál, sóknargjöld

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Eins og lofað var við 1. umr. þessa máls, hefur menntmn. tekið frv. til athugunar. Meiri hl. n. mælir með því, að frv. verði samþ. óbreytt.

Það er ekki mjög mikil breyting, sem frv. gerir frá gildandi lögum, þar sem aðeins er farið fram á það, að frá því að nú er hámark“ 6 kr., sem heimilt er af sóknarnefndum að leggja á sem kirkjugjöld, er þetta fært upp í 12 kr. Það hefur áður verið rætt um þessi mál hér í d., sérstaklega í sambandi við frv. til l. um kirkjubyggingasjóð, og má það öllum ljóst vera, að kirkjunum veitir sannarlega ekki af að fá þennan aukna rétt og mun auðvitað ekki hrökkva til þar, sem miklar framkvæmdir standa til, eins og það að byggja kirkju að nýju. Fleiri ráðstafanir þarf að gera í þessu efni, en það liggur ekki fyrir nú. En bót mun að því að samþykkja þetta frv., þó að segja megi, að það sé ekki mjög mikið gagn að því.