05.03.1954
Neðri deild: 58. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1309 í B-deild Alþingistíðinda. (1406)

122. mál, sóknargjöld

Frsm. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Núgildandi lög um sóknargjöld eru frá 1948. Í þeim er svo ákveðið, að hver maður, karl eða kona, á aldrinum 16–67 ára, sem er í þjóðkirkjusöfnuði, skuli árlega greiða gjald til kirkju þeirrar, sem hann á sókn að, 3–6 kr. á ári, eftir nánari ákvörðun safnaðarfundar. Þessi upphæð breyttist svo að sjálfsögðu við gengisbreytinguna 1950, þannig að þetta telst þá grunngjald og varð raunverulega 9–18 kr. á safnaðarmeðlimi. Nú hefur það komið í ljós síðan, að þessi upphæð sóknargjalda nægir hvergi nærri fyrir útgjöldum safnaðanna víða um land. Því hefur verið farið fram á það, að hámark yrði hækkað úr 18 kr. í 36 kr., þannig, að gjaldið yrði eftir nánari ákvörðun safnaðarfundar 9–36 kr. á ári. Á þetta bætist svo vísitala eins og áður samkv. l. frá 1948.

Það hefur komið í ljós, að nokkuð hefur á skort hjá ýmsum söfnuðum og þá alveg sérstaklega hjá stærsta söfnuði landsins, dómkirkjusöfnuðinum í Rvík, að tekjur samkv. þessum sóknargjöldum hrykkju fyrir útgjöldum.

Þetta frv. um að breyta hámarkinu úr 18 kr. upp í 36 kr. er flutt í hv. Ed. að tilhlutun kirkjumrh., og varð í þeirri hv. d. fullt samkomulag um málið. Menntmn. þessarar d. hefur fengið frv. til meðferðar og mælir einróma með því, að það sé samþ. óbreytt.