03.11.1953
Efri deild: 14. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1416 í B-deild Alþingistíðinda. (1594)

84. mál, kirkjubyggingasjóður

Flm. (Sigurður Ó. Ólafsson):

Herra forseti. Það eru nú aðeins nokkur orð. Ég ætla ekki að halda langa ræðu um ræðu hv. þm., sem hér talaði síðast. Hann byrjaði ræðu sína á því, að það væri rétti, að velta þeirri spurningu fyrir sér, hvort ríkið ætti yfirleitt að skipta sér af kirkjum. Ég benti í framsöguræðu minni á stjórnarskrárákvæði, sem er í núgildandi stjórnarskrá íslenzka ríkisins, og meðan það stendur óbreytt, þá þarf hv. þm. ekki að vera í vafa um það, hvort ríkið eigi ekki að skipta sér af þessum málum.

Þá var það atriði í ræðu hv. þm., að ekki sé vit í að styrkja kirkjubyggingar eða mynda sjóð til þess að styðja kirkjur í landinu, fyrr en búið sé að endurskoða og þá væntanlega að breyta núverandi sóknaskipun. Það eru nú ekki mörg ár síðan hér fyrir hv. Alþingi lá frv: um skipun prestakalla. Ég geri ráð fyrir því, að flestir hv. þm., sem hér eiga sæti í þessari hv. d., muni eftir þeim umr., sem fram fóru um málið bæði hér í þessari hv. d. og hv. Nd. Þessi hv. þm., sem hér talaði, átti einmitt sæti í mþn., sem fjallaði um þetta mál, og er þessum málum vitanlega mjög kunnugur. En það er sýnilegt, að hann álítur, að þau lög, eins og þau urðu í meðferð þings, þ.e.a.s. lögin um skipun prestakalla, nái ekki nokkurri átt og eigi alls ekki að vera eins og þau eru núna og þess vegna eigi að koma í veg fyrir, að kirkjur landsins, þó að þær væru á réttum stöðum að dómi hv. þm., væru byggðar eða endurreistar, og þar með á að gera viðkomandi söfnuðum, sem þær kirkjur eiga, ómögulegt að koma þeim upp, vegna þess. að hætta geti verið á, að einhverjum kirkjum annars staðar, sem ekki standa á þeim stöðum, sem hv. þm. álítur vera hina réttu, sé ef til vill rétt hjálparhönd. Ég vil benda á í þessu sambandi, að í 3. gr. frv. um Kirkjubyggingasjóð segir:

„Ekki má veita lán úr sjóðnum samkvæmt 1. gr., nema teikning af kirkjubyggingu eða endurbót eldri kirkju hafi verið samþykkt af þriggja manna n., er í skulu eiga sæti biskup landsins, húsameistari ríkisins og þriðji maður, sem kirkjumrh. skipar.“

Þetta ætti að vera nokkurt aðhald að því, að lán úr sjóðnum yrði ekki veitt út í bláinn eða í hreina vitleysu.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð mín fleiri. Ummælum hv. þm. um prestastétt landsins ætla ég ekki að svara hér á þessum vettvangi.