30.03.1954
Neðri deild: 73. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1432 í B-deild Alþingistíðinda. (1625)

84. mál, kirkjubyggingasjóður

Frsm. (Kjartan J. Jóhannsson):

Herra forseti. Það eru einkum tvö atriði í sambandi við þetta frv., sem nokkrum ágreiningi hafa valdið.

Það er í fyrsta lagi stjórn sjóðsins, hvort það skuli láta þar við sitja, eins og segir í upphaflega frv., að biskup fari með stjórn sjóðsins, eða hvort skipa skuli nefnd, sem fari með stjórnina.

Það er ekki alveg rétt, sem hér kom fram við umræðu í gær, að biskup sé algerlega einráður eins og upphaflega var í frv. um styrkveitingar úr sjóðnum, heldur voru þær bundnar því skilyrði, að nefnd, sem biskup að vísu átti sæti í, féllist á teikningar og breytingar á þeim kirkjum, sem ætlunin var að gera við, eða teikningar og áætlanir um nýbyggingu, ef um það væri að ræða. En það varð nú ofan á í þessari þd. í gær, að það skuli vera nefnd, sem stjórni sjóðnum. Og get ég fallizt á það, þó að heilbr.- og félmn. teldi það á sínum tíma óþarft. En ég vil leyfa mér að bera fram. skriflega brtt., sem ég vil lesa, með leyfi hæstv. forseta.

Það er brtt. við frv. til l. um Kirkjubyggingasjóð. Við 2. gr. Síðari málsgr. orðist svo: „Stjórn sjóðsins skal skipuð þrem mönnum.

Biskup landsins á sæti í stjórninni og er formaður hennar, en tveir stjórnarmenn skulu kosnir af Synodus til þriggja ára í senn. Reikningar sjóðsins skulu birtir í Stjórnartíðindum.“

Það, sem felst í þessari till., er aðallega það að gera kosninguna einfaldari en er í þeirri till., sem samþ. var hér áður. Flm. ásamt mér að þessari till. er Halldór Ásgrímsson, 2. þm.

Þetta er eingöngu til að gera kosningu nefndarmanna einfaldari í framkvæmd. Það er að vísu ekki gert ráð fyrir eins og var í till., sem hv. þm. N-Þ. flutti hér og samþ. var, að þeir séu kosnir sinn úr hverjum landsfjórðungi, því að það er ekki gert ráð fyrir, að það séu kosnir nema 2 menn auk biskups. En ég hygg, að það sé nú ekki svo áríðandi, að ekki megi komast af án þess, því að væntanlega mun biskup manna bezt vera kunnugur þessum málum, hvar skórinn helzt kreppir. Hann ferðast um landið og kynnist þessum málum manna bezt. Og væntanlega verður þar að auki sóttur fundur þessara nm. frá þeim söfnuðum, sem hafa í huga kirkjubyggingar eða endurbætur og viðgerðir á kirkjum, sem einhverju nema.

Hitt atriðið, sem nokkuð hefur verið deilt um, er um styrkupphæðina. Það er í þessu frv., að styrkupphæðin megi ekki fara fram úr 25% eða fjórðungi kostnaðar,. ef um viðgerð er að ræða eða endurbyggingu.

Ég vil aðeins leyfa mér í sambandi við það að vekja athygli á því, að í frv. er ákvæði, sem bannar að veita nema 200 kr. á m3 til nýrra kirkna. Eftir því sem kostnaður við kirkjubyggingar er nú, þá er talið, að það muni nema í kringum þriðjungi kostnaðar í hæsta lagi. Virðist n. við athugun á þessu ekki óeðlilegt; að hlutfallið væri nokkru lægra, þegar um endurbyggingu væri að ræða. Að minnsta kosti er óeðlilegt að veita hærra hlutfall til endurbyggingar heldur en til nýbyggingar, því að endurbygging eða víðgerð mun oftast mun viðráðanlegri fyrir söfnuðina heldur en ný bygging.

Ég vil svo leyfa mér að leggja til, að þessi brtt.; sem við 2. þm. N-M. flytjum hér, verði samþ. og frv. þannig breytt verði samþ. í þessari deild.