23.10.1953
Neðri deild: 9. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1498 í B-deild Alþingistíðinda. (1785)

63. mál, síldarleit

Einar Ingimundarson:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. sjútvn. fyrir tiltölulega skjóta afgreiðslu á frv., sem hér er til 2. umr., og einnig það, að hún mælir með því, að frv. verði samþykkt. Að vísu hefur hv. n. lagt til, að gerðar verði nokkrar breyt. á frv., en ekki fæ ég séð, að þær raski að neinu leyti meginefni þess, og get ég fyrir mitt leyti vel sætt mig við, að þær breytingar verði gerðar á frv., sem hv. n. leggur til.

Ég vil þó aðeins geta þess, að við orðalagsbreytinguna í 1. gr. frv., þar sem hv. n. leggur til, að síldarleitartíminn verði ákveðinn um vor- og sumarmánuðina, sætti ég mig í trausti þess, að síldarleitin hefjist aldrei síðar en 1. júní og ljúki aldrei fyrr en í septemberlok, eins og gert er ráð fyrir í frv.

Ég sagði það, er ég fylgdi frv. þessu úr hlaði við 1. umr. þess, og ég segi það nú aftur, að frá mínu sjónarmiði er það aðalatriðið, að lögfestar verði reglur um síldarleitina, bæði hvað snertir skiptingu kostnaðar við hana og framkvæmd hennar að öðru leyti, til þess að fyrirbyggt verði, að dýrmætum tíma framan af sumri verði eytt í óþarfa þref um það, hver eigi að sjá um leitina og hvernig kostnaðinum við hana skuli skipt, en mér er kunnugt um, að það hefur þráfaldlega komið fyrir, að ósamkomulag hefur risið um þessi atriði milli þeirra aðila, sem eiga að bera kostnað af síldarleitinni.