07.12.1953
Efri deild: 29. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1500 í B-deild Alþingistíðinda. (1795)

63. mál, síldarleit

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Hv. þm. Seyðf. lýsti vanköntum, sem orðið gætu á, ef þetta væri lögfest óbreytt, og þar sem ég hef enga ástæðu til þess að rengja það, sem hv. þm. segir í þessu efni, og hins vegar, að sú mynd lá ekki skýrt fyrir, þegar sjútvn. fjallaði um þetta mál, þá vil ég fyrir mitt leyti gjarnan verða við tilmælum hv. þm. og fara þess á leit við hæstv. forseta, að hann taki málið út af dagskrá nú, til þess að sjútvn. gefist tækifæri til að líta á málið einnig frá því sjónarmiði, sem hv. þm. nú lýsti, og að öðru leyti að bera sig saman við hann í málinu, því að það er vitaskuld, að hann hefur hér í sínu kjördæmi aðila, sem talsvert getur átt undir því, að rétt sé staðið að þessu máli, sem náttúrlega allir vita að er nauðsynjamál. En nægur tími er til að afgreiða málið frá þessu þingi, þó að við gefum okkur tóm til að hlusta á röksemdir hv. þm.

Ég vildi því biðja hæstv. forseta um að gefa n. kost á að taka málið til athugunar um skeið.