15.02.1954
Neðri deild: 47. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1502 í B-deild Alþingistíðinda. (1808)

63. mál, síldarleit

Frsm. (Sigurður Ágústsson):

Herra forseti. Eftir ósk hæstv. forseta hefur sjútvn. tekið til meðferðar á fundi sínum frv. til l. um síldarleit úr lofti, eins og það var afgr. frá hv. Ed. á þskj. 355.

Aðalefnisbreytingin í frv. í meðferð hv. Ed. er í því fólgin, að nú er svo ráð fyrir gert í 4. gr. frv., að framlag síldarútvegsnefndar og síldarverksmiðjanna nemi aldrei meiru en 2 kr. á tunnu eða mál, en því, sem fram yfir er þá upphæð, þegar fiskimálasjóður hefur greitt 1/3 hluta heildarkostnaðarins, eigi ríkissjóður að annast greiðslu á. Í frv. upphaflega og eins og þessi hv. d. einnig gekk frá því, var svo ráð fyrir gert, að fiskimálasjóður greiddi 1/3 hluta kostnaðarins, en 2/3 hlutar hans skyldu jafnast niður á síldarútvegsnefnd og síldarverksmiðjur, sem reknar eru á svæðinu frá Horni að Djúpavogi. Við þá skiptingu átti tunnufjöldi og málafjöldi herpinótasíldar að leggjast saman, og skyldi ein tunna uppsaltaðrar síldar til útflutnings jafngilda einu máli síldar til bræðslu. Átti svo hver aðili að greiða í réttu hlutfalli við þann tunnu- og málafjölda, sem hann hafði tekið á móti til verkunar og vinnslu viðkomandi síldarvertíð. Sjútvn. þessarar hv. d. telur eðlilegast og rétt, að þessi háttur sé á hafður, að þeir aðilar, sem framkvæmt hafa síldarleitina óslitið síðan 1938 og hafa mestra hagsmuna að gæta í sambandi við hana, standi nú eins og áður undir kostnaðinum.

Eins og áður hefur komið fram í umr. um frv. hér í d., var leitað umsagnar fiskimálasjóðs, síldarútvegsnefndar og síldarverksmiðja ríkisins um frv. Hafa þessir þrír aðilar enga athugasemd gert við það að standa undir rekstrarkostnaðinum við síldarleitina ásamt öðrum síldarverksmiðjum norðan- og austanlands.

Á fundi sjútvn. voru allir nm. sammála um að færa frv. í sitt upphaflega form hvað snertir kostnað við síldarleitina og að þeir þrír aðilar, fiskimálasjóður, síldarútvegsnefnd og síldarverksmiðjurnar, standi undir kostnaðinum hér eftir sem hingað til. Hefur því n. borið fram brtt. á þskj. 364 við 4. gr. frv., að síðasti málsliður 2. málsgr. og 4. málsgr. falli niður.