08.04.1954
Efri deild: 80. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1510 í B-deild Alþingistíðinda. (1853)

79. mál, skipun læknishéraða

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Mér skilst, að breyt., sem lagt er til, að gerð sé á þessu frv., sé sú, að það eigi að ganga í gildi 1. jan. 1955, en jafnframt sé sett bráðabirgðaákvæði um, að laun héraðslæknis eigi að borga allt þetta ár. Mér er nú spurn: Hvaða skýring er á þessu? Ef héraðslæknir er starfandi þarna og ef hann á að fá full héraðslæknislaun, af hverju þá ekki að gera sér grein fyrir því, að embættið er raunverulega stofnað, og láta 1. taka þegar í stað gildi? Og er ekki einmitt líklegra, að það sé hægt að fá góðan mann til þess að gegna þessu starfi, ef það er veitt nú þegar, heldur en ef það á að vera lausastarf fram til áramóta? Ég sé ekki nokkra ástæðu til þess að fara svona að. Mér finnst miklu eðlilegra, úr því að þarna á að vera héraðslæknir, að l. séu þegar í stað látin taka gildi og frv. sé samþ. óbreytt.