25.03.1954
Neðri deild: 68. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1549 í B-deild Alþingistíðinda. (1990)

173. mál, brunatryggingar í Reykjavík

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Til eru sérstök lög um brunatryggingar í Reykjavík. Samkvæmt þeim er bæjarstjórninni heimilt að semja við eitt eða fleiri brunabótafélög um tryggingu gegn eldsvoða á öllum húsum í Reykjavík. Hafi bæjarstjórn gert slíkan samning, skulu öll hús í lögsagnarumdæminu tryggð hjá félögum þeim, sem samið er við, með þeim kjörum, sem samningurinn ákveður. Þetta er aðalefni laganna.

Hér liggur fyrir frv. til nýrra laga um brunatryggingar í Reykjavík. Víst getur verið ástæða til að breyta eldri lögum um það efni og þá á þann veg, að dregið verði úr opinberum afskiptum varðandi tryggingarnar, en mönnum veitt frjálsræði til að brunatryggja húseignir sínar eins og aðrar eignir þar, sem þeir telja sér hagkvæmast. Því er hins vegar ekki að heilsa, að frv. boði aukið frelsi, heldur er stefnt í öfuga átt. Boðskapur frv. er bæjarrekstur og einokun á þessu sviði.

Aðdragandi málsins er sá, að seint í febrúar í vetur auglýsti borgarstjórinn fyrir hönd bæjarstjórnar í Reykjavík eftir tilboði í brunatryggingar húseigna í bænum, eins og áður hefur tíðkazt, þegar samningstími um tryggingarnar hefur verið liðinn. Nokkur tilboð munu hafa borizt, og samkvæmt þeim fréttum, sem af þeim hafa fengizt, mun tilboð frá Samvinnutryggingum hafa verið hagstæðast. Það tryggingarfyrirtæki hefur sýnt yfirburði þann tíma, sem það hefur starfað, og náð ört vaxandi viðskiptum í samkeppni við önnur tryggingarfélög. En þeir sem nú stjórna málefnum höfuðstaðarins, hafa ekkert dálæti á fyrirtækjum samvinnumanna, og nú leizt þeim ekki á blikuna. Þeir töldu óhjákvæmilegt að grípa hér til nýrra ráða og telja sig hafa fundið nýtt ráð. Þeir kusu miklu fremur, sjálfstæðismenn í bæjarstjórn Reykjavíkur, að varpa fyrir borð yfirlýstri stefnu flokksins varðandi einkaframtak og frjálsa samkeppni og grípa til þjóðnýtingarinnar heldur en að fyrirtækið Samvinnutryggingar hlyti tryggingarviðskipti við húseigendur í höfuðstaðnum. Og nú er farið í liðsbón til þriggja annarra þingflokka, sem líklegir þóttu til fylgis við þetta úrræði. Var málinu allvel tekið, eins og sést á þskj. 485. Trúlegt er, að þeir bandamenn sjálfstæðismanna í þessu máli sjái hilla undir þann möguleika að koma á þjóðnýtingu á fleiri sviðum, ef þetta mál nær fram að ganga, og draumar þeirra um það, að fleira svipað muni á eftir fara, hafa gert þá enn fúsari til liðveizlunnar, og vissulega þykir þeim sumum a. m. k. gott hvað gengur í þjóðnýtingaráttina. Hitt er þó nokkuð vafasamt, — það á eftir að sýna sig, — hversu mikið gagn eða gaman þeir hafa af því, þegar til framkvæmdanna kemur, að hafa veitt meiri hluta bæjarstjórnar í Reykjavík þá aðstöðu, sem stefnt er að með frv.

Mjög eru skoðanir manna skiptar um það, bæði hér og í öðrum löndum, hvernig bezt og haganlegast verði fyrir komið rekstri atvinnuveganna og efnahagslegri starfsemi þjóðfélagsins. Sumir menn aðhyllast opinberan rekstur eða svonefnda þjóðnýtingu á sem flestum sviðum. Aðrir hafa á sinni stefnuskrá einstaklingsrekstur atvinnutækja og það, sem þeir nefna óheft einkaframtak og frjálsa samkeppni. Enn aðrir benda á úrræði samvinnustefnunnar í viðskipta- og atvinnumálum og telja samvinnufélagsskapinn líklegastan til happasællar lausnar á mörgum viðfangsefnum mannanna. Sjálfstfl. hefur mjög haft á orði og skráð framarlega á sína stefnuskrá, að hann væri fylgjandi framtaki einstaklinga og frjálsri samkeppni í viðskipta- og atvinnulífinu, en andstæðingur opinberrar íhlutunar um þau mál og svonefndrar þjóðnýtingar. Oft hafa þeir sjálfstæðismenn hagað ræðum sínum og ritum þannig, að ætla mætti, að hollustan við einkaframtakið og hina frjálsu samkeppni væri höfuðatriði í stefnu þeirra. Ýmislegt, sem fram hefur komið hjá þeim á síðari tímum, m. a. það frv., sem hér er til umr., bendir þó til þess, að þetta stefnuskráratriði sé þeim síður en svo fast í hendi, heldur séu þeir í því efni sem fleirum harla tækifærissinnaðir. Svo virðist, að þegar að því kemur að sýna stefnuna í verkum flokksins, þá telji þeir einstaklingsframtakið og frjálsu samkeppnina því aðeins eiga rétt á sér, að þeirra fyrirtæki og fylgismenn hafi þar hagnað af. En þegar svo ber við, að þeirra fyrirtæki verða að lúta í lægra haldi í hinni frjálsu samkeppni, þá verður annað upp á teningnum. Þá er jafnvel ekki hikað við að leita skjóls hjá þjóðnýtingunni, sem þeir hafa þó allar stundir prédikað fyrir þjóðinni að boðaði ekki betra þjóðfélag heldur stefndi í öfuga átt.

Sumir kunna að segja sem svo, að frv. um brunatryggingar húsa í Reykjavík sé ekki þannig mál, að ástæða sé til í sambandi við það að taka upp umr. um þjóðfélagsstefnur. En þó er það svo, að þegar slík mál sem þetta koma fram, er fyllsta ástæða til að staldra við og íhuga, hvernig sú þjóðfélagsbygging er, sem verið er að reisa með löggjafarstarfi á Alþ. og framkvæmd stjórnarvalda. Þjóðnýtingu, sem svo er nefnd, þ. e. a. s. einokunarrekstri ríkisins eða annarra opinberra aðila, svo sem bæjar- og sveitarfélaga, er hægt að koma á í þjóðfélaginu með tvennu móti. Frá öðrum löndum berast stundum fréttir um það, að fylgismenn ríkisrekstrar þar hafi gert áætlanir fyrir fram um þjóðnýtinguna og unnið að því að koma fram heildarlöggjöf um það efni. En svo er til önnur aðferð við að koma þjóðnýtingunni á; það er sú aðferð að koma henni á smám saman, og af því frv., sem hér liggur fyrir, og fleiru, sem fram hefur komið í seinni tíð, er helzt útlit fyrir, að þannig ætli menn að vinna að því hér að koma á opinberum rekstri. Hv. þm. Sjálfstfl. hafa ekki enn borið fram frv. til heildarlaga um þjóðnýtingu, heldur flytja þeir þetta í smáskömmtum, eitt þennan daginn og annað hinn. Þessa aðferð mætti vel nefna þjóðnýtingu í áföngum.

Það skal að vísu viðurkennt, að opinber rekstur getur átt rétt á sér í vissum tilfellum, t. 3. til tekjuöflunar fyrir ríkið, og má nefna í því sambandi ríkiseinkasölu á áfengi og tóbaki. Líka getur verið um þannig rekstur að ræða, að hann sé lítt eða ekki viðráðanlegur einstaklingum eða félögum, og getur þá verið nauðsynlegt að grípa til opinbers rekstrar. Þá getur einnig verið um þess konar þjónustu að ræða í almennings þágu, að telja megi eðlilegt, að ríkið hafi starfsemina með höndum, eins og t. d. rekstur póstsins, símans og stórra rafstöðva og rafveitna til almenningsnota, svo að eitthvað sé nefnt. En með slíkum undantekningum teljum við framsóknarmenn að atvinnurekstur landsmanna og viðskipti sé bezt komið í höndum einstaklinga og samvinnufélaga, og tryggingarstarfsemina er vissulega engin ástæða til að einoka hjá ríkis- eða bæjarfélagafyrirtækjum. Í stað þess ætti sem fyrst að losa þau höft, sem nú eru á brunatryggingum húsa, bæði í Reykjavík og annars staðar, svo að menn verði frjálsir að því að tryggja húseignir sínar hjá þeim tryggingarfélögum, sem þeir vilja skipta við, eins og þeim er enn frjálst að tryggja húsmuni sína og bifreiðar þar, sem þeir telja sér hagkvæmast.

Því tel ég, að beri að fella þetta þjóðnýtingarfrv. þeirra bandamanna, en gefa tryggingarnar frjálsar.

Ég hef áður bent á það, að frv. þetta er fram komið vegna þess, að hagstæðasta tilboðið í brunatryggingar húsa í höfuðstaðnum var frá Samvinnutryggingum, en bæjarstjórnarmeirihlutinn mátti ekki til þess hugsa, að húseigendur í bænum hefðu tryggingarviðskipti sín hjá fyrirtæki samvinnumanna, þó að þar gætu þeir fengið lagstæðustu kjörin, sem fáanleg eru. Umhyggjan fyrir húseigendum í bænum er nú ekki meiri en þetta, og til þess að afstýra því, að húseigendur skipti við Samvinnutryggingar og njóti þar beztu tryggingarkjara, sem fáanleg eru, er frv. þetta fram borið á Alþ.

Mér þykir rétt að skjóta því að hv. sjálfstæðismönnum hér í d., áður en lengra er komið afgreiðslu þessa máls, að ef þeir grípa til þjóðnýtingar, þegar þeim hentar, til þess að komast út úr örðugri samkeppni við samvinnufyrirtækin, eins og útlit er fyrir að þeir ætli að gera í þessu tilfelli, þá gæti svo farið, að samvinnumenn á þingi færu að íhuga það, hvort ekki mætti svara í svipuðum tón. Eins og þú heilsar öðrum, ávarpa aðrir þig. Það er að vísu svo, að samvinnumenn telja annað fyrirkomulag yfirleitt betur henta en opinberan rekstur atvinnu- og viðskiptafyrirtækja. En ef á annað borð er farið inn á þjóðnýtingarbrautina t. d. með tryggingarstarfsemina, eins og hér er að stefnt, þá getur vissulega komið til athugunar að beita þeim úrræðum við fleira.

Ég held, að þeir hv. þm. Sjálfstfl. mættu gjarnan taka til umhugsunar, hvernig þeim mundi falla það, ef þeim yrði síðar mælt í þeim sama mæli sem þeir bera hér fram. Ég á nú reyndar hálfbágt með að trúa því að óreyndu, að svo margir hv. sjálfstæðismenn á þingi ljái þessu þjóðnýtingarfrv. fylgi sitt, að það verði að l. Þó hefur mér þótt rétt að beina í áttina til þeirra dálitlu aðvörunarskoti, áður en lengra er haldið. Þeir mega þá engum öðrum um kenna en sjálfum sér, éf eitthvað kynni það á eftir að fara, sem þeim væri síður að skapi.