25.03.1954
Neðri deild: 68. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1555 í B-deild Alþingistíðinda. (1992)

173. mál, brunatryggingar í Reykjavík

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Það voru nú aðeins örfá orð í rauninni. — Hv. 7. þm. Reykv., sem hér var að ljúka máli sínu, 1ýsti því yfir, að hann væri efnislega, að mér skildist, sammála þeirri brtt., sem ég og 9. landsk. flytjum hér á þskj. 544, en teldi þó af ýmsum ástæðum óheppilegt, að þessi brtt. væri hér flutt við það frv., sem hann er hér 1. flm. að, og benti á, að eðlilegra mundi vera að flytja efni okkar brtt. sem sjálfstætt frv. við l. um Brunabótafélag Íslands. Ég hafði hér í minni fyrri ræðu nokkuð vikið einmitt að þessu sjónarmiði, og vil ég ítreka það enn, að ég álít einmitt, að það sé fullkomlega eðlilegt um nákvæmlega hliðstæðan rétt og bæjar- og sveitarfélög úti á landi eru að óska eftir eins og Reykjavík er nú að fara fram á, að þetta fylgist allt saman að í einu og sama frv. Ef hv. alþm. telja eðlilegt að veita Reykjavíkurkaupstað þessi réttindi, þá óska ég eftir því fyrir mitt leyti, að það komi einnig skýrt fram, hvort þeir telja þá ekki eðlilegt að veita öðrum sveitarfélögum á landinu þessi sömu réttindi um leið.

Auk þess, sem ég gat hér um í minni fyrri ræðu, þá vildi ég láta það koma fram sem frekari rökstuðning fyrir því, að það er sannarlega réttmætt og full ástæða til, að þeir, sem nú eru með l. bundnir að brunatryggja hús sín hjá Brunabótafélagi Íslands, fari nú fram á það að fá sama rétt og Reykjavík til þess að bjóða út sínar brunatryggingar, að Brunabótafélag Íslands, sem býður öðrum kaupstöðum landsins og sveitarfélögum upp á slík kjör, að þeir verða að greiða þrisvar til fimm sinnum hærri iðgjöld í brunatryggingu heldur en gert er hér í Reykjavík, gerði, að mér er sagt, einnig tilboð nú nýlega í brunatryggingarnar hér í Reykjavík og bauðst til þess að lækka þessar lágu brunatryggingar hér um 37%. Það sem sagt getur, þegar það er í samkeppni við önnur tryggingarfélög, boðið stórfellda lækkun á brunatryggingum, þar sem iðgjöldin eru þó miklum mun lægri en á þeim svæðum, þar sem það eitt fer með tryggingarmálin. Þetta finnst mér enn ein sönnunin á því, að það er með öllu óeðlilegt að löggilda það lengur en verið hefur, að aðrir kaupstaðir landsins séu skyldir að tryggja hjá Brunabótafélagi Íslands við miklum mun lakari kjör en þeir eiga kost á annars staðar, en að Reykjavík hafi þessi sérréttindi, sem hún hefur haft, og jafnvel fái þar enn aukin sérréttindi, sem hún óskar nú eftir, og ég fyrir mitt leyti vil ekki standa á móti, nema ég segi það, að mitt fylgi við þetta frv., sem hér liggur fyrir, er algerlega bundið því, að flm. þess og þeir, sem að því standa, vilji ljá liðsinni okkur, sem teljum okkur fulltrúa fyrir þau byggðarlög, sem nú eru bundin að l. að vátryggja hús sín hjá Brunabótafélagi Íslands. Það er algerlega bundið því skilyrði, að þeir vilji unna okkur sama réttar og þeir biðja um sjálfir sér til handa. Fáist þeir ekki til þess að samþ. brtt. þá, sem ég hef hér flutt og hv. 9. landsk., og vilji þar með neita okkur um þessi réttindi, þá sé ég ekki fyrir mitt leyti ástæðu til þess að veita þeim aukin réttindi fram yfir það, sem þeir hafa nú, og vil þá, að þeir bíði með það, þar til þeir hafa séð þau réttindi, sem við óskum eftir og eru samsvarandi því, sem þeir nú njóta.