27.03.1954
Neðri deild: 71. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1558 í B-deild Alþingistíðinda. (1998)

173. mál, brunatryggingar í Reykjavík

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Við 2. umr. þessa frv. lét ég þess getið, að nú fyrir skömmu, þegar bæjarstjórn Reykjavíkur auglýsti eftir tilboðum um brunatryggingar húsa í bænum, hefðu borizt nokkur tilboð og samkvæmt þeim fréttum, sem af þeim hefðu borizt, mundi tilboð frá Samvinnutryggingum hafa verið hagstæðast.

Í ræðu, sem hv. 7. þm. Reykv. flutti síðar við þá umr., andmælti hann því, að því er mér skildist, að hagstæðasta tilboðið hefði verið frá því fyrirtæki. Þetta þótti mér einkennilegt að heyra, því að vissulega ætti hv. 7. þm. Reykv. að vera málinu kunnugur. En ég tel mig hafa öruggar heimildir fyrir því, sem ég hélt fram um þetta efni.

Lögin um brunatryggingar í Reykjavík eru frá 1924, en breyting var á þeim gerð nokkur 1943. Samkv. 1. gr. laganna hefur bæjarstjórn Reykjavíkur heimild til að semja við eitt eða fleiri brunabótafélög um tryggingu gegn eldsvoða á öllum húsum í Reykjavík, enda staðfesti atvmrh. slíkan samning. Þá segir enn fremur í lögunum, að hafi bæjarstj. gert slíkan samning, skulu öll hús í lögsagnarumdæminu, hvort sem þau eru almenningseign eða einstakra manna, tryggð hjá félögum þeim, sem samið er við, með fullu verði þeirra eftir virðingu dómkvaddra manna og með þeim kjörum og fyrir þau iðgjöld, sem samningurinn tiltekur. Síðan eru ákvæði um það í lögunum, að bæjarstj. hafi eftirlit með virðingargerðunum og að ekkert hús skuli tekið í ábyrgð fyrir hærri upphæð en hún álítur hæfilega og að bæjarstj. sé heimilt að breyta árlega brunabótaverði húsa samkv. vísitölu byggingarkostnaðar í Reykjavík eftir reglum, er bæjarstj. setji um það með samþykki ráðh. Ekki get ég séð í þessum lögum, að þar sé nein heimild til þess fyrir bæjarfélagið að taka til sín ágóða eða hagnað í nokkurri mynd í sambandi við slíka samninga. Hins vegar lítur út fyrir, samkv. því, sem fram kemur í útboði bæjarstj. í vetur, að bærinn hafi gert samning um ágóðahlut við það tryggingarfélag, sem nú hefur brunatryggingarnar. Í þessu útboði, sem dagsett er 25. febr. s. l., er óskað eftir mismunandi tilboðum, þ. e. a. s. tryggingarfélögum er gefinn kostur á að bjóða í tryggingarnar samkv. grundvelli 1–2, sem svo er nefnt. Og hér er m. a., eins og segir í útboðinu, óskað eftir tilboðum miðað við, að núgildandi ákvæði um ágóðahlutdeild samkv. 6. gr. framangreinds samnings, — og það mun vera samningur, sem nú er í gildi, — haldist óbreytt að öðru leyti en því, að í stað 6% vegna rekstrarkostnaðar komi 3%. Samkv. þessu virðist það liggja fyrir, að bærinn hafi gert samninga um ágóðahlutdeild við þetta félag. Ég gat þess áðan, að ég sæi ekki neina heimild til slíkrar fjáröflunar fyrir bæjarfélagið í lögunum um brunatryggingar, og nú þætti mér fróðlegt að vita, hvort einhvers staðar í lögum er heimild fyrir bæjarfélagið til þess að afla sér fjár á þann hátt í sambandi við samningana um tryggingarnar. Ef slík heimild er ekki í lögum, þá virðist mér það fljótt á litið a. m. k. nokkuð vafasamt, að bærinn geti tekið til sín þetta fé í stað þess að láta það renna til húseigenda til lækkunar á iðgjöldum eða með lækkuðum iðgjöldum. Tilgangur laganna virðist vera sá að heimila bæjarfélaginu milligöngu um samninga í því skyni að útvega húseigendum sem bezt tryggingarkjör svo og að þeir njóti alls hagnaðar af hagkvæmum samningum eða geti notið hinna beztu kjara, sem fáanleg eru. En hitt virðist, eins og ég hef tekið fram, ekki koma fram í lögunum, að til þess sé ætlazt á nokkurn hátt, að aðrir hafi hagnað af slíkum samningum.

Eftir þeim upplýsingum, sem ég hef fengið, gætu húseigendur fengið nærri því helmingslækkun á brunatryggingaiðgjöldum frá því, sem nú er, ef tilboði Samvinnutrygginga væri tekið og fylgt væri fyrirmælum gildandi laga, en það mun, eins og ég gat um við 2. umr., óumdeilanlega vera hagstæðasta tilboðið, sem fram kom og miðað var við það, að tryggingarfélagið bæri alla áhættuna, eins og lögin gera ráð fyrir.

Hins vegar mun bæjarstj. einnig hafa leitað tilboða á þeim grundvelli, að bærinn væri þátttakandi í tryggingunni, en slíkt fyrirkomulag hefur ekki stoð í lögum. Um útkomuna af því fyrirtæki, ef til þess verður stofnað, er vitanlega ekki hægt að segja fyrir fram, því að það fer eftir því, hvað brunatjónin verða mikil á hverjum tíma. Einhver tilboð munu hafa borizt byggð á þeim grundvelli, en mér hefur verið skýrt svo frá, að sé tekið nokkurra ára meðaltal af brunatjónum í bænum, komi það í ljós við samanburð, að álitlegasta tilboðið af því tagi sé ekki betra, heldur fremur óhagstæðara en það lægsta, sem fram kom og byggt var á því, að bærinn tæki ekki að sér tryggingarnar að neinu leyti. Eins og ég sagði, má kannske um þetta deila, því að þetta er óútreiknanlegt fyrir fram, um útkomuna af þessum tryggingum, og í áætlunum um það virðist nú ekki eðlilegt að miða aðeins við þau ár, sem hafa sýnt bezta útkomu, þar sem brunatjónin hafa verið minnst, heldur væri eðlilegt, þegar áætlanir eru um þetta gerðar, að byggja þær á meðaltali allmargra ára, þar sem bæði væru tekin með hagstæð og óhagstæð ár að þessu leyti.

Þessari athugasemd vildi ég koma hér að í tilefni af þeim ummælum, sem féllu við 2. umr. hjá hv. 7. þm. Reykv. Við þá umr. ræddi ég einnig nokkuð um það og beindi því nú einkum til hv. sjálfstæðismanna hér í deildinni, að vel mættu þeir taka það til íhugunar, ef þeir taka að beita sér fyrir þjóðnýtingarmálum á borð við þetta og lögfesta slíkt fyrirkomulag, þar sem þeir telja sér í svipinn henta að viðhafa það, þá gæti nú svo farið, að eitthvað það kynni að gerast síðar á þeim sviðum, sem þeim væri síður að skapi en það, sem hér er á ferð, ef út á þessa braut væri yfirleitt gengið lengra en áður hefur verið gert. En ég sé ekki ástæðu til að fara að endurtaka hér það, sem ég sagði um það mál.