01.04.1954
Efri deild: 75. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1598 í B-deild Alþingistíðinda. (2024)

173. mál, brunatryggingar í Reykjavík

Frsm. minni hl. (Hermann Jónasson):

Það er nú nokkuð föst venja hjá hæstv. dómsmrh., að þegar hann á afar erfitt með að verja mál, sá ágæti málafylgjumaður, þá hefur hann á takteinum fastar setningar, sem ganga eins og rauður þráður í gegnum allar ræður, og það er það, að andstæðingarnir blandi saman óskyldum atriðum, þeir rugli saman gersamlega óskyldum málum. Þessar setningar munu menn geta fundið alls staðar þar, sem hæstv. dómsmrh. er á veikum ís og getur ekki raunverulega varið mál sín. Það er vitanlega ekkert óskylt mál, heldur eins skylt og það getur frekast verið, hvort borgari hérna suður á Digraneshálsinum á að borga fimmfalt hærri iðgjöld af hússm sínum í brunatryggingar heldur en í Reykjavík, og sama er úti um allt land. Það skiptir vitanlega alls engu máli í því sambandi, þó að Reykjavík hafi ekki verið sett undir lög Brunabótafélags Íslands. Núna hafa skapazt í þessu landi nægilega sterk brunabótafélög með mjög voldug samtök að baki sér erlendis, sem geta tekið að sér allar tryggingar bæði í Reykjavík og annars staðar. Þess vegna er það ástand, sem var til staðar, þegar Brunabótafélag Íslands var stofnað, alls ekki til staðar lengur. Þó að það hafi gilt önnur lög um brunatryggingar í Reykjavík og brunatryggingar úti á landi til þessa, þá segir enginn, að það þurfi að vera framvegis, og málin eru svo fjarri því að vera óskyld, að fyrir borgarana í landinu er þetta utan Reykjavíkur nákvæmlega sama málið eins og fyrir borgarana í Reykjavík.

Hæstv. ráðh. segir, og það er önnur rökblekkingin, vegna þess að hann getur alls ekki varið þetta mál undir neinum kringumstæðum, að það sýni bezt málafærsluna hjá mér, að ég kem fram með till. um að hafa tryggingarnar algerlega frjálsar í Reykjavík, þ. e. a. s., að húseigendunum sé skylt að tryggja, en geti tryggt, eins og þeir tryggja lausafé, hvar sem þeir vilja, en sleppi algerlega út úr þessu Brunabótafélagi Íslands. Öll málafærsla hans hér í d. er svo um það, að það sé hið mesta réttlætismál að gefa borgurunum utan Reykjavíkur heimild til þess að bjóða tryggingarnar út eins og gert er núna í Reykjavík og gert hefur verið undanfarið. En í fyrstu ræðu minni lýsti ég því yfir, að ég ætlaði að bera þessa till. fram við 3. umr., og ég man ekki betur en að hæstv. dómsmrh. sæti hérna í þd. En meginhlutinn af ræðu hans er það, að hæstv. ráðh. hellir úr skálum reiði sinnar yfir þessari tvöfeldni, að ég skuli halda því fram, að menn þurfi ekki að hafa frelsi utan Reykjavíkur, eftir að það er sýnt, að menn búa við þessi geysilega háu iðgjöld, og þó er það staðreynd, að ég lýsti því yfir, að ég mundi bera þessa till. fram við 3. umr., lýsti því yfir í frumræðu minni.

Ég álit, að það sé alls ekki rétt hjá hæstv. ráðh., að í því felist hætta að gefa tryggingarnar frjálsar utan Reykjavíkur, þ. e. a. s. láta Brunabótafélag Íslands og önnur félög hafa jafna aðstöðu til trygginganna. Brunabótafélag Íslands er orðið það voldugt félag núna, að það meira að segja býður í tryggingarnar í Reykjavík. Svona er ástandið breytt. Það mun vera alveg rétt hjá hæstv. ráðh., að það var talið, þegar Brunabótafélag Íslands var stofnað, að það væri ekki fært um að taka að sér jafnstórar brunatryggingar og jafnmikla áhættu og væri í Reykjavík. Nú dettur engum í hug að efast um það, að Brunabótafélag Íslands með þeim samböndum, sem það hefur, og þeim eignum, sem það á, er fært um að taka að sér tryggingar í Reykjavík, og þess vegna býður það í þær á frjálsum markaði. Á því geta menn séð, hvað aðstæðurnar eru breyttar, og einmitt samkvæmt þeim orðum, sem féllu hjá hæstv. ráðh., sjá menn þann stórkostlega mun, sem nú er orðinn á aðstöðu tryggingarfélaganna og var, þegar Brunabótafélagið var stofnað. Hvers vegna má þá ekki breyta þessu öllu saman þannig, eins og ég hef margsinnis bent á, að hafa þetta allt saman frjálst? Hver segir það, að það sé sama og að leggja Brunabótafélag Íslands niður? Eins og málið liggur fyrir núna, þá eru það alveg eðlileg vinnubrögð, þar sem verið er að ræða um tryggingarnar í Reykjavík, að bera fyrst fram þær brtt., sem hér liggja fyrir, og gera svo tilraun um það við 3. umr., hvort hægt er að fá hv. þd. til þess að veita bæjarfélögunum og íbúunum úti um landið tækifæri til þess að njóta þeirra útboða, sem Reykjavík hefur notið undanfarin ár, með þeim árangri, sem hér hefur verið rakinn, því að það eru ekki neinir smámunir, hvort húseigendur úti um land þurfa áframhaldandi vegna tregðu frá Alþ. að búa við þau kjör, sem þeir búa nú, að því er upplýst hefur verið í þessum umr.