01.04.1954
Efri deild: 75. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1601 í B-deild Alþingistíðinda. (2026)

173. mál, brunatryggingar í Reykjavík

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég sé enga ástæðu til þess að fara að skattyrðast um þetta mál. Það liggur alveg glöggt fyrir bæði efni þess og hvernig stendur á, að sá fleygur var samþ., sem hv. Nd. setti í frv. Ég hef ekki haldið því fram, að flokksbræður hv. 6. landsk. þm. hafi borið fram sína till. eða samþ. hana til þess að eyðileggja þetta mál. Ég hef látið það kyrrt liggja. Hitt hef ég fullyrt, að hún hefði ekki verið samþ., nema aðrir gengju til liðs við hana, sem með eigin till. hafa sýnt, að þeir hafa allt önnur áhugaefni í þessum efnum en hv. 6. landsk. þm. og hans flokksbræður segjast hafa. Ég skal láta það kyrrt liggja, hvort það er af réttmætri ástæðu, að hv. 6. landsk. tók til sín ásakanir um óheilindi í þessu. Ég hef ekki haldið því fram, en honum gefst þá færi á að sýna stuðning sinn við efni sinnar till. nú síðar á þinginu bæði með þátttöku í samþykkt þáltill. og með afstöðu til þess frv., sem mun verða borið fram hér í hv. d. og þegar er í undirbúningi og flutt verður af tveimur sjálfstæðismönnum varðandi það sérstaka mál, framtíð Brunabótafélags Íslands og frjálsræði sveitarfélaganna í þeim efnum. Ég vil taka það fram til þess að firra öllum misskilningi, að sjálfur hef ég ekki gert upp minn hug í því efni. Það er svo flókið, að ég hef ekki enn þá getað gert mér grein fyrir afgreiðslu þess. En það er eðlilegt, að þeir, sem nú þegar eru reiðubúnir til þess að taka afstöðu til þess máls, beri fram um það till. í því formi, að þær geti fengið þinglega afgreiðslu, svo að þeim sé ekki skotið inn í annað mikilsvert mál með þeim afleiðingum, að falskur þingvilji komi fram, á hvorn veginn sem því er ráðið til lykta.

Hv. þm. Str. hélt því fram, að ég héldi því stundum á lofti, að menn rugluðu saman óskyldum atriðum. Mér er það til leiðinda, ef hv. þm. Str. telur sig særðan af slíku, að nokkuð oft sé bent á, að sumir menn hafa ekki nógu skýra dómgreind. En það haggar ekki því, að frumskilyrði til þess að átta sig á málum er að gera sér grein fyrir sérstöku eðli hvers einstaks máls og blanda ekki saman alveg ólíkum atriðum.

Hv. þm. Str. sagðist í fyrstu ræðu sinni hafa boðað brtt. við 3. umr. Ég skal ekki fara að þræta við hann um það. Það má sjálfsagt heyra það á stálþræðinum, sem við höfum nú sannfærzt um að segir alltaf rétt, hvað hv. þm. hefur sagt. En það var eftirtektarvert, að það var komið fram á varirnar á hv. þm. jafnvel seinni ræðunni, að hann mundi bera fram brtt. við 3. umr., og þá stanzaði hann skyndilega, af því að hann ætlaði að bæta við, ef brtt. okkar hérna verða ekki samþ. Það felldi hann nú niður, og það er getgáta mín, að hann hafi ætlað að bæta því við, en áttaði sig á seinustu stundu. En það er annað, sem engin getgáta þarf að vera um, og við skulum bara lesa síðustu brtt. frá hv. þm. Str., með leyfi hæstv. forseta. Þar segir hann: „Fyrirsögn orðist svo: Frv. til l. um breyt. á l. nr. 1 26. marz 1924, um brunatryggingar í Reykjavík.“ Hann, þessi mjög þingvani maður, sem aldrei segist blanda saman óskyldum atriðum, hefur þá einkennilegu aðferð í þingmáli, að hann flytur till. við 2. umr. um að takmarka málið við Reykjavík, frá því formi, sem það er í núna, til þess að ætla svo við 3. umr. að breyta fyrirsögninni aftur í það sama horf sem frv. er í í dag. Trúi því hver sem trúa vill. Nei, auðvitað er það óhagganleg staðreynd, sem bæði till. framsóknarmanna í Nd. og þær till., sem hér liggja fyrir óhagganlegar á þskj. 607, sýna og sanna, að hv. framsóknarmenn, a. m. k. hv. þm. Str. og hv. 1. þm. N-M., vilja mjög gjarnan sætta sig við að láta landsbyggðina vera í því ófrelsi, sem hv. þm. Str. talar um, láta Brunabótafélagið vera óbreytt, bara ef þeir geti fengið að ráða meira um sérmálefni Reykjavíkur heldur en 14 bæjarfulltrúar hér í bænum af 15 leggja til. Sem betur fer held ég nú, að það sé ekki þingvilji fyrir slíkum aðförum.

Ég hef sannast sagt látið mér nægja hér að benda á þá mjög óþinglegu aðferð, sem við var höfð í hv. Nd. og hv. þm. Str. og hv. 1. þm. N-M. reyna að fá þessa d. til að fallast á. Ég hef hins vegar látið það óumtalað, vegna þess að hv. þm. Seyðf. gerði því alveg full skil, að þetta mál er mjög mikið sanngirnismál af hálfu Reykvíkinga og að till. hv. þm. Framsfl. eru þessu efni alls ekki í samræmi hvorki við óskir fulltrúa Reykvíkinga né heldur í samræmi við raunverulega hagsmuni þeirra.

Hv. þm. talar um það, að það mundi vera hægt með frjálsri tryggingu hvers einstaks húss hér í Reykjavík að ná lægri iðgjöldum en ella. Trúi hver því sem trúa vill. Ég trúi því ekki, og ég efast mjög um, að reynslan af hinum frjálsu tryggingum á lausafjármunum sanni þetta. Ég hygg einmitt, að þar komi í ljós, að af lausafjármunum, sem eru í frjálsri tryggingu, séu mun hærri iðgjöld en nú hefur fengizt með hinni sameiginlegu tryggingu húsanna hér í Reykjavík, og þetta er ósköp eðlilegt, vegna þess að allar vátryggingar byggja á almennri þátttöku og iðgjaldið verður þeim mun lægra sem þátttakan er almennari. Þetta er eðli trygginganna, svo að ef tryggingar eru takmarkaðar og aðeins lítill hluti af fjöldanum tryggir hjá einstökum aðila, þá verður áhættuatriðið þeim mun meira, og sá, sem tekur að sér vátrygginguna, verður þess vegna að gera ráð fyrir að verða fyrir tiltölulega stærri sköðum án þess að geta fengið næg iðgjöld til þess að vega þar upp á móti.

Vátryggingar yfirleitt eru einmitt þess eðlis, að þær kalla á almenna þátttöku miklu meira en nokkur önnur efnahagsstarfsemi. Þess vegna er það mjög eftirtektarvert, að þó að Reykvíkingar hafi verið og það hafi einkennt okkar bæjarfélag frá upphafi, að hér eru menn umfram aðra landsmenn unnandi frjálsræði í verzlun og viðskiptum, þá hafa menn alltaf gert sér grein fyrir því, að það er til hagsmuna fyrir allan fjöldann og að lokum fyrir hvern einstakling, að skyldutrygging á húseignum í bænum eigi sér stað. Þess vegna gerðust Reykvíkingar forgöngumenn í þessum efnum hér á landi, og það er ekkert komið á daginn enn, sem geri það að verkum, að menn vilji hverfa frá þessari fornu braut. Það er einnig ljóst, að ef hér ætti að vera frjáls trygging á einstökum húsum, þá er viðbúið, að í gamla bænum, í timburhúsum, þar sem mikið af efnaminni borgurum bæjarins býr, hlyti vátryggingargjaldið að verða mun hærra en ella, þar sem tryggjendurnir gætu þá ekki á nokkurn hátt reiknað með því að fá þann ágóða, sem ætla má, að verði af hinum nýbyggðu hverfum, sem eru öruggari í þessum efnum gegn hættu.

till., sem hv. þm. Str. og hv. þm. N-M. hér gerast talsmenn fyrir, mundi þess vegna beint stefna til aukins ójafnaðar og misréttis milli borgaranna, vegna þess að allir þurfa á tryggingum að halda. Og það er langeðlilegast, úr því að Reykjavík er orðin svo stór, að hún getur með skynsamlegu móti tekið á sig þessar tryggingar, að þá geri bæjarfélagið það með sömu aðferð og tryggingarfélög almennt gera, þ. e. a. s. með heilbrigðum endurtryggingum til þess að dreifa áhættunni.

Það stendur þess vegna á sama, hvort litið er á efni málsins eða það form, sem það er í, að þá er ljóst, að afstaða hv. þm. Str. og hans félaga í þessu efni er með öllu óverjandi og ósamkvæm sjálfri sér.