04.12.1953
Efri deild: 28. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 43 í C-deild Alþingistíðinda. (2204)

18. mál, rithöfundaréttur og prentréttur

dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég held, að það sé mikið rétt, að segja megi, að frv. eftir eðli sínu eigi heima í menntmn., en sama hefði þá mátt segja um víxla og tékkafrv. áðan, að þau hefðu átt heima í allshn. Nú eru þau tekin af henni, og er þá ekki nema sanngjarnt, að allshn. fái eitthvað að starfa í staðinn. En sérstaklega vildi ég benda á, að hér er um að ræða málefni, sem varðar þátttöku okkar í alþjóðasamtökum varðandi rithöfundarétt og prentrétt. Það eru töluvert skiptar skoðanir um það, hvort við eigum að halda áfram þátttöku í þessum samtökum, og er vitað mál, að ýmsir þeir, sem hafa fengizt við bókaútgáfu hér, eru því mjög andvígir. Nú hygg ég, að þannig standi á, að a. m. k. einn maður í allshn. og sennilega fleiri séu gjörkunnugir bókaútgáfu, en við höfum ekki slíkum sérfræðingum á að skipa í menntmn. Þess vegna held ég, að þær upplýsingar, sem á þarf að halda í sambandi við þetta sérstaka mál, muni miklu frekar fást við athugun í allshn., og vildi ég því mæla með því, að málið yrði látið ganga til allshn., en ekki menntmn., af þessari sérstöku ástæðu.