12.04.1954
Efri deild: 85. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 47 í C-deild Alþingistíðinda. (2214)

18. mál, rithöfundaréttur og prentréttur

Frsm. minni hl. (Lárus Jóhannesson):

Herra forseti. Eins og hv. þm. er kunnugt, er ég einn í þeim hópi, sem álítur, að það hafi verið misráðið, að við gengum á sínum tíma í Bernarsambandið. Ég álít, að við hefðum átt að semja við þau lönd, sem við viljum hafa menningarsamband við, hvert um sig, um gagnkvæma vernd höfundaréttar og þá um leið um, hvernig gagnkvæmum greiðslum fyrir hann verði fyrir komið. Í frv. þessu er farið fram á, að við göngum til viðbótar í alþjóðasamtök um sama efni, og þó standa enn ýmis ríki fyrir utan bæði samtökin og það stórveldi eins og t. d. Ráðstjórnarríkin.

Fyrsti árangurinn af þátttöku okkar í Bernarsambandinu er hinn alþekkti félagsskapur STEF. Í sambandi við fsp., sem ég bar fram í Sþ., upplýsti hæstv. menntmrh., að frá því að við gengum í Bernarsambandið og til síðustu áramóta hefði ríkisútvarpið eitt greitt STEFI 859 þús. kr. fyrir leyfi til flutnings hljómlistar og þjóðleikhúsið greitt á sama tíma fyrir flutning erlendra leikrita og hljómlistar kr. 251749.60. Hins vegar voru gjaldeyristekjur okkar af sams konar réttindum frá útlöndum svo sáralitlar, að ekki þótti vert að setja þær í sérstakan dálk, og var því ekki hægt að upplýsa upphæðina.

STEF mun hafa fengið löggildingu sem fulltrúi eigenda flutningsréttar tónsmiða. Í sambandi við þá löggildingu hljóta að hafa verið sett einhver ákvæði um eftirlit með starfsemi þess félagsskapar.

Ég vil nú leyfa mér að spyrja hæstv. menntmrh., hve mikið af þeim tekjum, sem þetta félag hefur fengið, og upphæðir þær, sem ég nefndi áðan, frá útvarpinu og þjóðleikhúsinu, eru aðeins hluti af tekjum félagsins, hafi raunverulega runnið til eigenda flutningsréttarins og hversu mikill hluti af þeim hafi farið í rekstrarkostnað félagsins, þar með talin málfærslulaun og ferðakostnaður. Um þetta hljóta að vera fyrir hendi upplýsingar frá þessum hálfopinbera félagsskap, sem rn. hefur aðgang að. Nú er sagt, að STEF geri kröfur til þess, að útvarpið greiði til viðbótar 50 kr. á mínútu af öllu efni, sem flutt er af stálþræði í útvarpinu, t. d. ef tekin er upp ræða manns, sem er fjarverandi á flutningstímanum. Annað skal ég ekki fjölyrða um þetta. Tónlistin er alþjóðamál, nóturnar alþjóðastafróf, og þar stöndum við jafnt settir erlendum þjóðum að því leyti.

Það, sem um er að ræða í þessu máli, er rithöfundarétturinn eða réttara sagt ein grein hans, þýðingarrétturinn á erlend mál, og það er einmitt þar, sem mismunurinn á aðstöðu okkar og annarra þjóða okkur til óhags kemur greinilegast í ljós.

Við Íslendingar erum svo fámenn þjóð, að það er í raun og veru furðulegt, að við skulum framkvæma þá fífldjörfu hugsun að halda hér uppi menningarlífi. Af þessu fámenni leiðir, að bækur og tímarit hjá okkur hljóta að koma út í svo litlu upplagi, þrátt fyrir fróðleiks- og lestrarfýsn þjóðarinnar, að mesta sala á bók hjá okkur svarar til lítils upplags af 1. útgáfu erlendis, og ekki mundi gerð tilraun erlendis til að gefa út tímarit í jafnsmáu upplagi og þau íslenzku tímarit koma út í, sem víðlesnust eru. Jafnframt þessu er dýrtíð hér mikil, sem kemur fram bæði í prentunarkostnaði og bókbandi. Við þetta bætist, að þýðingarlaun hér til sæmilegra þýðenda, sem venjulega eru skáldin og rithöfundarnir okkar, eru mun hærri en höfundar fá erlendis sem ritlaun fyrir 1. útgáfu. Það er hér, sem erfiðleikarnir koma verulega í ljós, og hér er aðstaða okkar allt önnur og verri en aðstaða nokkurrar annarrar þjóðar. Af þessum sökum töldum við okkur lengi vel ekki hafa ráð á að ganga í Bernarsambandið og sögðum við aðrar þjóðir, þegar við loks gengum í það 1947 — illu heilli með þeim fyrirvara, sem við gerðum: Vegna sérstöðu okkar og fámennis treystum við okkur ekki til þess að tryggja rithöfundum ykkar eina grein rithöfundaréttar þeirra, sem sé þýðingarréttinn, í meira en 10 ár frá útkomudegi ritsins, enda munuð þið ekki hafa reiknað með miklum ritlaunum frá okkur. Í stað þess er ykkur svo aftur á móti heimilt að þýða íslenzk rit með sömu skilmálum. Og m. a. til þess að bæta íslenzkum rithöfundum þetta, þá veitum við þeim sérstaka upphæð á fjárlögum árlega til skipta milli sín.

Þó að þessu væri þannig farið, þá veit ég engin dæmi þess, ef um bók hefur verið að ræða, að ekki hafi verið leitað til erlendra höfunda um leyfi á þýðingarrétti, og það þótt ekki væri skylda, og ég veit engin dæmi þess, að komið hafi út erlendis þýðing á bók íslenzks höfundar án leyfis hans. Hins vegar er hér gefinn út mikill fjöldi blaða og tímarita, og upp í þau eru, að ég hygg, teknar og þýddar greinar og smásögur eftir erlenda höfunda, án þess að leitað sé leyfis, enda væri það algerlega óframkvæmanlegt, teknískt og fjárhagslega, ef leita ætti leyfis fyrir hverri smásögu eða smágrein, þó að ekki sé tekið tillit til afstöðu gjaldeyrisyfirvaldanna, sem ég síðar vík að.

Við erum því miður ekki settir eins og Saturday Evening Post í Ameríku, sem getur boðið 100 dollara fyrir smellna smásögu, ef hún er ekki meira en 300 orð.

Af bréfi Bóksalafélagsins, sem prentað er sem viðauki við nál. mitt, sést, að síðan við gerðumst aðilar að Bernarsáttmálanum hafa aðrar og þyngri fjárhagslegar kröfur verið gerðar á hendur okkur um greiðslu fyrir þýðingar en áður var. Áður snerum við okkur beint til höfundanna og fengum þýðingarrétt beztu bóka ýmist gefins eða fyrir 5–15 sterlingspund. Nú er krafizt af okkur jafnvel meira gjalds fyrir að fá að þýða bók en okkar rithöfundum er greitt fyrir þýðingarrétt í löndum eins og Ítalíu, Spáni og Suður-Ameríku, miðað við 1. útgáfu, en við annað getum við ekki miðað sökum upplagsstærðar hjá okkur. Hvers vegna er þetta? Það er vegna þess, að svona alþjóðasamningar leiða til þess, að framtakssamir menn mynda félög eins og STEF og ná í sínar hendur þýðingarrétti höfunda og fleyta rjómann af gjaldinu fyrir hann. Til þess að höfundurinn fái þau 15 sterlingspund, sem hann fékk áður beint frá íslenzku útgefendunum, þarf íslenzki útgefandinn nú að greiða 35–50 sterlingspund. Mismunurinn gengur til þess að bera uppi kostnaðinn við íslenzku og erlendu STEFIN, sem að þessu standa og honum er nú sagt að snúa sér til. Ef við höldum áfram að vera í Bernarsambandinu og ef sviðið verður útvíkkað með því að ganga í hin nýju allsherjarsamtök, sé ég ekki annað en að óhjákvæmileg afleiðing verði sú, að stofnuð verði opinber skrifstofa, sem hafi einkarétt til milligöngu um þessi mál, og er ég þó ekki almennt hrifinn af ríkisrekstri.

En þetta er ekki það versta. Það versta í þessu máli er, að þegar maður er búinn að fá leyfi til að láta þýða bók og gefa hana út, fæst venjulega ekki leyfi gjaldeyrisyfirvaldanna til þess að greiða erlendis þær greiðslur, sem samið hefur verið um. Ég hef orðið fyrir því að semja um 100 dollara fyrir þýðingarrétt og fá neitun — að mig minnir þrisvar sinnum — fyrir yfirfærslu á upphæðinni. Ameríska firmað, sem ég samdi við, sagði berum orðum, að þetta væri þjóðarskömm. Það sagði eitthvað á þessa leið: Þið eruð svo fámenn þjóð, að það segir enginn neitt við því, þó að þið þýðið bók frá okkur án leyfis og gefið hana út, en að ómaka okkur til að semja við ykkur um 100 dollara og fá svo ekki leyfi yfirvaldanna til að greiða þetta smáræði er til skammar fyrir alla íslenzku þjóðina. — Í svörum sínum við fsp. mínum í Sþ. skýrði hæstv. menntmrh. frá því, að s. l. 2 ár hafi verið neitað 13 beiðnum um yfirfærslu á gjaldeyri fyrir þýðingarrétt. Því miður nefndi hann ekki upphæðirnar, en ganga má út frá því, að það hafi verið beiðnirnar um hærri upphæðirnar, setri neitað hefur verið um. Af sömu svörum sést, að leyfi hefur verið veitt til yfirfærslu svo sem nú segir:

1948 kr. 3150, 1949 kr. 3750, 1950 kr. 1350, 1951 kr. 15179, 1952 kr. 17103 og 1953 kr. 52661.

Þessar tölur tala sínu máli. Þær sýna, að þó að bókaútgáfa hafi s. l. 2 ár stórdregizt saman, þá hefur erlenda gjaldið þó þrefaldazt frá. árinu 1952 til 1953, þrátt fyrir synjanirnar, vegna þess að nú eru erlendu STEFIN farin að taka eftir því, að við erum til. Ég hef lent í því, að eftir margar rukkanir var það aðeins fyrir góðvild norska sendiherrans, að mér var leyft að greiða honum í íslenzkum peningum 1000 norskar kr. fyrir leyfi til þýðingar á bók Sigurðar Hoel, Á örlagastundu, sem margsinnis var búið að synja mér um yfirfærslu á.

Upphæð sú, 52661 kr., sem leyft var að yfirfæra fyrir þýðingarrétt 1953, er í sjálfu sér ekki stórvægileg, þó að ekkert komi á móti erlendis frá. En þegar STEF okkar útvíkkar sig eða nýtt systurfélag þess verður stofnað til þess að krefja inn gjald fyrir þýðingarrétt á hverri erlendri blaðagrein, tímaritsgrein eða smásögu, sem birt verður í íslenzkum dagblöðum, vikublöðum og mánaðarritum, og hverja ljósmynd, sem þar birtist og tekin er úr erlendum ritum, er lítill vafi á, að upphæð þess margfaldast mörgum sinnum, án þess að sjáanlegt sé, að nokkuð komi á móti. Og ef haldið er áfram á þessari braut, er opnuð leið til stórfellds „black mail“ möguleika. Ég hef síður en svo á móti því, að við viðurkennum eignarrétt á hugverkum, með þeim afleiðingum, sem af því leiðir. En við verðum sjálfir að setja þau takmörk á þessu eignarréttarhugtaki eins og öðrum hugtökum um eignarrétt, sem hæfa okkur vegna okkar hagsmuna. Hugverk, sem ekki eru síður merkileg en t. d. rithöfundaréttur, eru uppfinningar. Þær eru almennt verndaðar og líka eftir íslenzkum lögum, en sú vernd er miðuð við í fyrsta lagi, að þau séu skrásett til verndar, og í öðru lagi er sú vernd bundin við 15 ár og það í þremur áföngum. Mér skilst, að í Ameríku þurfi að skrásetja rit, til þess að þau njóti verndar, og helzt hún aðeins um vissan tíma án nýrrar skrásetningar. Væri það nú úr vegi, að við settum það skilyrði hér, ef erlendir höfundar óska að áskilja sér íslenzkan þýðingarrétt á bókum sínum eða ritsmíðum, að þeir skrásetji þær? Þá vissu íslenzkir útgefendur, hvert þeir ættu að snúa sér viðvíkjandi höfundarétti þeirra höfunda, sem ekki væri sama, þó að Íslendingar þýddu rit þeirra, af því að þeir óskuðu gjalds fyrir þýðingarréttinn, eða af öðrum ástæðum. Ég skýt þessu aðeins fram sem ábendingu, jafnframt því að ég bendi á, að spurninguna um vernd hugverka almennt verður að taka upp til alhliða rannsóknar í íslenzkri löggjöf og miða svörin við okkar þarfir og getu, en ekki fara að taka upp löggjöf annarra þjóða, þar sem allt öðruvísi stendur á um, þýða hana og gera hana athugunarlaust eða athugunarlítið að okkar löggjöf.

Í því sambandi þarf líka að athuga margar aðrar spurningar, t. d. hvort vernd rithöfundaréttar sé ekki allt of löng eftir íslenzkum lögum. Eftir því sem ráða má af athugasemdunum við lagafrv., er verndin í Bandaríkjunum miðuð við tvisvar sinnum 28 ár frá útkomu eða skrásetningu, en hér getur hún farið upp í 110 ár eða meira. Er það sanngjarnt að veita 110 ára vernd á rithöfundarétti og ljósmynd óskrásett, en ekki nema 15 ára á þýðingarmestu uppfinningum eftir endurteknar skrásetningar, sem tekið er gjald fyrir? Á höfundur að eiga rétt til að banna að endurprenta bók eða grein, sem út hefur komið, hversu þýðingarmikil sem hún kann að vera fyrir þjóðina? Átti til dæmis Wennerberg gamli að hafa rétt til að eyðileggja Glúntana og banna útgáfu þeirra, eins og hann hafði mesta löngun til, eftir að hann var orðinn kirkjumrh.? Á ekkert að hugsa um að vernda þjóðlögin okkar fyrir misþyrmingu hávaðasamra manna, sem telja sig tónskáld? Er það sanngjarnt t. d., að blaðagrein sé vernduð þannig, að höfundur hafi rétt alla ævi sína og síðan bú hans 50 ár eftir andlát hans, en að t. d. við, sem höldum þingræður, höfum engan rétt yfir því eða þeir, sem tala á opinberum fundum? Þessar og fjöldi annarra og merkari spurningar rísa upp, þegar rætt er um þetta mál. Málið hefur ekki fengið neina alhliða rannsókn hér á landi til þessa. Af nál. um frv. sést, að fyrrv. menntmrh. hefur skipað þrjá ágæta lögfræðinga til að athuga þetta mál, en þetta er aðeins lögfræðihliðin fræðilega, sem þeir hafa athugað, ekki nein alhliða rannsókn. Betra hefði verið, að hann hefði skipað einn lögfræðing og svo menn úr hópi rithöfunda, tónskálda og bókaútgefenda, sem þekktu málið frá praktísku hlið þess.

Það, sem ég fer fram á að nú sé gert, er það, sem gera hefði þurft, áður en við gengum í Bernarsambandið, sem sé að rannsakað sé alhliða, hvað rétt sé að gera í þessu máli, áður en stigið er nýtt skref, sem bindur hendur okkar enn meir en gert hefur verið. Ég hef því leyft mér að fara fram á, að málið verði að þessu sinni afgr. með rökstuddri dagskrá. Til þess að betur komi fram hugsun mín, hef ég leyft mér að umorða dagskrártill. nokkuð frá því, sem hún er á þskj. 798, og skal nú, með leyfi hæstv. forseta, leyfa mér að lesa hana upp umorðaða:

„Í því trausti, að ríkisstj. láti þegar rannsaka til hlítar, hvernig reynzt hefur í framkvæmd innganga Íslands í Bernarsambandið, enn fremur hvernig svo fámenn þjóð sem Íslendingar geti bezt og hagkvæmast skipað gagnkvæmri vernd höfundaréttar, og leggi niðurstöður sínar fyrir næsta þing, svo og geri þær ráðstafanir, sem hún telur að ekki þoli bið, til þess að tryggja rétt íslenzkra höfunda í Bandaríkjunum, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“

Út af síðustu setningu dagskrártill. skal ég taka þetta fram: Ég vil ekki verða til þess að eyðileggja fyrir íslenzkum höfundum aðstöðu þeirra í Bandaríkjunum í Ameríku. En ég vil ekki heldur kaupa þeim sérstöðu, sem reynast kann þjóðinni allt of dýr. Ég veit líka, að Bandaríkin eru ríki, sem við hljótum að vilja eiga menningartengsl við og verðum því að gera samning við í einu formi eða öðru. Ég álít, að það nægi að tilkynna Bandaríkjamönnum, að við óskum að gera við þá samning um þetta efni og óskum að sá samningur, sem gerður verði, gildi t. d. frá síðustu áramótum. Ég er ekki í vafa um, að þeir verða fúsir til þess, og ég hef góðar heimildir fyrir því, að sams konar samningur, sem þeir gerðu við Finna, hafi verið látinn verka mörg ár aftur í tímann. En áður en sá samningur væri endanlega undirritaður, verður að taka allt málið um vernd hugverka upp til alhliða rannsóknar af nefnd, sem skipuð er hæfum lögfræðingum og fulltrúum þeirra stétta, sem mestra hagsmuna eiga að gæta í sambandi við þetta.

Um varatill. mína skal ég vera fáorður. Ef hv. Ed. — mót von minni — ætlar að taka mál þetta sömu hugsunarlausu lausatökunum og hv. Nd. tók það að ráðum háværra grenjaskyttna, finnst mér þó, að það minnsta, sem krefjast verði, meðan verið er að athuga, hvaða afstöðu löggjafinn á að taka til hugverka yfirleitt, sé, að sem minnst sé gert til að binda hendur hans fyrir fram. Lögfræðinganefndin, sem aðeins hefur rannsakað málið frá fræðilegu lögfræðilegu sjónarmiði, segir, að til þess að komast í alþjóðasamtökin nægi að lengja verndartímabilið fyrir þýðingarréttinn upp í 25 ár í stað 10 ára, eins og nú er.

Ef ekki er hægt að fá d. til þess að fresta málinu um nokkra mánuði, sem áreiðanlega er hægt að gera að skaðlausu fyrir íslenzka höfunda, ætti þó að sjálfsögðu ekki að gera meiri breytingar á gildandi lögum en nauðsynlegar eru til þess, að tilgangur frv. náist, meðan málið í heild er með öllu órannsakað.

Ég bið hv. dm. að afsaka, hve ég hef verið langorður um þetta mál, en ég held, að verið sé hér að fara fram á, að við stígum óhappaspor, sem getur orðið þjóðinni dýrkeypt í framtíðinni, ef það er stigið. Ég skal svo leyfa mér að afhenda hæstv. forseta þessa dagskrártillögu.