25.02.1954
Neðri deild: 53. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 109 í C-deild Alþingistíðinda. (2263)

72. mál, lax- og silungsveiði

Landbrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Ég tel rétt að segja nokkur orð um þetta frv., sem hér liggur fyrir, og þó einkum um það nál., sem hv. frsm. landbn. var nú að lýsa hér. Hann gat þess í sinni framsöguræðu, að snemma í nóvember hefði frv. á þskj. 95 verið sent til umsagnar veiðimálastjóra og veiðimálanefndar og svar hefði ekki komið. Ég tel rétt að upplýsa það, að þetta er rétt, en það er ekki af því, — enda sagði nú frsm. það ekki beint, en mátti þó skilja það, — að nefndin hefði algerlega stungið þessu máli undir stól án þess að athuga málið, en því var alls ekki þannig varið. Ég held, að n. hafi rætt þetta mál á einum þremur fundum og veiðimálastjóri verið þar viðstaddur, en sannleikurinn er sá, að það náðist alls ekki samkomulag innan veiðimálanefndar um afgreiðslu málsins. Bæði voru skiptar skoðanir um þau ákvæði, sem eru í frv., og í öðru lagi voru sumir nm. á því, að það væru aðrir ágallar á lögunum um lax- og silungsveiði, sem væru engu minna áberandi en þeir, sem þarna væru teknir til meðferðar, og yrði því að gera miklu róttækari breytingar á löggjöfinni en þarna væri stungið upp á, ef ætti að fara að hrófla við henni nú á annað borð. Þetta vil ég taka fram varðandi afstöðu veiðimálanefndar og veiðimálastjóra um þetta mál. Og það, sem ég mun segja hér á eftir, er í raun og veru það, sem veiðimálanefnd leggur til málanna, eins og þetta horfir nú við. En ég tel rétt að hafa nokkurn inngang að þessu, ekki sízt vegna þess, að það má heita, að á hverju Alþingi séu nú bornar fram brtt. við löggjöfina um lax- og silungsveiði. Oft hafa verið samþykktar breytingar, en oft hafa líka þessi mál dagað uppi.

Þessi löggjöf um lax- og silungsveiði er nú orðin meira en 20 ára gömul. Löggjöfin var afgreidd á þinginu 1932. Það var annað þingið, sem ég sat á, og ég minnist þess sérstaklega, því að ég var framsögumaður landbn. þá í þessu máli. Það voru miklar umræður um þetta mál og erfitt að ná samkomulagi um mörg atriði. Í raun og veru var um frumlöggjöf að ræða að mestu leyti, sem þarna var sett. Frv. var samið af mþn., sem starfaði árin 1928 og 1929, og í henni áttu sæti Ólafur prófessor Lárusson, Jörundur Brynjólfsson, nú forseti sameinaðs Alþingis, og Pálmi Hannesson rektor. Það er óhætt að fullyrða, að það var mjög vandað til þessarar löggjafar, og hún er mjög merk og verður ávallt talin mjög merkileg í sögu löggjafar okkar Íslendinga. Áður voru aðeins mjög lítilfjörleg ákvæði til um lax- og silungsveiði, slitur, ég held allt aftur frá Jónsbók, og alls konar mjög ómerkileg ákvæði, en þarna heppnaðist að setja heildarlöggjöf um lax- og silungsveiði, og er enginn vafi á því, að það var mikil framför. Árið 1941 voru tekin saman í eitt frv., með nokkrum breytingum að nýju, þær breytingar, sem gerðar höfðu verið á laxveiðilöggjöfinni frá því að hún var sett í fyrstu, 1932, og til þess tíma, og gefin út sem heildarlöggjöf, en síðan hafa svo verið samþ. margar breyt., — ég veit ekki hvað margar, ég hef ekki tekið það saman, — á laxveiðilöggjöfinni, svo að enn eru orðin mörg lög um sama efni, sem hafa ekki verið sameinuð að nýju. En mér er óhætt að fullyrða það, að síðan 1942 hafa nær árlega legið fyrir Alþingi brtt. um lax- og silungsveiðilöggjöfina og á líklega fleiri þingum verið samþ. einhverjar breyt. á henni.

Nú er ekki minnsti vafi, að þessi löggjöf er mjög merkileg og það á ýmsan hátt. Hér er um mjög viðkvæm mál að ræða, merkileg og mikil hlunnindi, sem eru þess eðlis, að þetta hlýtur mjög að snerta fjölda manna og það á þann hátt, að alltaf getur verið mikil hætta á, að hagsmunir sumra verði fyrir borð bornir og aðrir aftur hljóti meira en eðlilegt og rétt er. Löggjöf um slíka hluti eins og þessa er því alltaf mjög vandasöm. Það út af fyrir sig gerir mjög eðlilegt, að eftir meira en 20 ár verði löggjöf eins og löggjöfin um lax- og silungsveiði tekin til algerrar endurskoðunar að nýju. Ég álít, að það sé kominn tími til þess og saga undanfarinna ára sýni greinilega, að það sé það eina rétta, sem beri að gera í málinu. Ég ætla að rökstyðja þetta, eftir því sem ég get, og tek þá til meðferðar þær miklu breytingar, sem orðið hafa á viðhorfi manna til löggjafar um þetta efni frá því að lögin voru í fyrstu sett, 1932. En þær breytingar eru í ýmsum atriðum svo miklar, að segja má, að það nálgist byltingu í skoðunum manna varðandi það, hvernig eigi að vinna að þessum málum á ýmsan hátt, og skal ég nefna nokkur atriði þetta varðandi.

Það fyrsta, sem ég vil nefna, eru breyttar veiðiaðferðir. Þegar lögin voru sett í fyrstu, 1932, þá var lax og silungur að mestu veiddur, eins og við vitum, í net. Veiðin í ám og vötnum hafði þá víða breytzt úr því að vera miðuð fyrst og fremst við heimilisþarfir bænda í það að verða ætluð fyrir markað í fjölbýli, en af því leiddi að sjálfsögðu kapphlaup um að ná sem mestri veiði. Þessi breyting á tilgangi veiðanna orsakaðist að sjálfsögðu af bættum samgöngum, sem leiddi af sér, að það opnaðist markaður til þeirra staða, þar sem þéttbýli var mest og hægt að koma laxinum nýjum þangað. Þegar frv. var samið í öndverðu, þótti ískyggilega horfa um framtíð veiðanna, ef ekki yrði gripið í taumana, og var því miðað að því í löggjöfinni að takmarka mikið netjaveiðina frá því, sem áður var. Veiðifélögin, sem stofnuð hafa verið á grundvelli lax- og silungsveiðilaganna, hafa komið til vegar breytingu á veiðiaðferðum, þar sem þau hafa langflest fellt niður netjaveiði, sumpart algerlega og sumpart að miklu leyti, en leigt þess í stað árnar til stangaveiði. Nú eru t. d. starfandi veiðifélög við flestar laxveiðiár í landinu eða a. m. k. við flestar aðallaxveiðiár í landinu, og stangaveiðin er orðin mjög útbreidd, en hið breytta ástand í veiðinni frá setningu laganna í öndverðu, bæði með tilliti til stangaveiði og hinnar öru tæknilegu þróunar netjaveiðinnar, veldur því, að sumt af því, sem sett var inn í lögin þá, hæfir alls ekki lengur og það þarf að bæta einnig inn í þau nýjum ákvæðum varðandi þetta. Þetta hygg ég að allir sérfróðir menn á þessum sviðum viti að þurfi að gera, raunverulega að taka öll þessi ákvæði til rækilegrar endurskoðunar í ljósi þeirrar reynslu, sem fengizt hefur undanfarna áratugi um þetta.

Þetta var fyrsta atriðið, sem ég vildi nefna, en það annað, sem ég vil nefna, er mjög breytt félagsleg aðstaða varðandi veiðarnar. Það hafa nú verið stofnuð hér eitthvað í kringum 50 fiskiræktar- og veiðifélög víðs vegar um landið. Það hefur komið í ljós á þessu tímabili, að það eru mjög miklir gallar á ákvæðum í veiðilöggjöfinni um fyrirkomulag félaganna. Þá hefur einnig aðstaða breytzt svo í sveitum, þar sem ýmsar jarðir hafa farið í eyði og aðrar nýjar verið byggðar upp aftur, og breytzt mikið á jörðunum, hvort þar er fjölbýlí eða ekki, að ákveða verður nánar um atkvæðisrétt í félögunum en gert er í umræddum lögum, og það þarf áreiðanlega töluvert mikilla breytinga við. Fleira mætti telja varðandi hina breyttu félagslegu afstöðu, þó að ég láti þetta nægja.

Það þriðja, sem ég vil nefna, er breytt viðhorf til fiskræktarinnar sjálfrar. Á síðasta aldarfjórðungi eða á því tímabili, sem þessi laxveiðilöggjöf hefur staðið, hafa farið fram mikilvægar rannsóknir víða erlendis og nokkuð hér einnig heima um gildi klaks til fiskræktar, og hafa niðurstöðurnar sýnt, að gildi þess er mjög takmarkað miðað við það, sem áður var haldið. Menn trúðu á klakið, jafnvel svo mikið á tímabili, að með því væri alveg hægt að tryggja, að nægileg gengd yrði í árnar og nægjanlegt viðhald yrði á stofninum. Reynsla manna í þessum efnum hefur leitt í ljós, að hér hafa menn áreiðanlega að miklu leyti verið á villigötum og klakið hefur ekki reynzt neitt svipað því eins vel til viðhalds fiskistofninum og til fiskræktar og á tímabili var haldið fram. Þetta er orðin skoðun vísindamanna erlendis, og þeir menn hér, sem fróðastir eru í þessum efnum, álíta einnig, að þetta sé algerlega rétt.

Nú er lögð miklu meiri áherzla en áður á aðrar fiskræktarráðstafanir, svo sem umbætur á lífsskilyrðum fiskanna í veiðivötnunum sjálfum, hvort sem eru ár eða önnur vötn, á seiðaeldi, ala upp seiðin, en sleppa þeim ekki strax og kviðpokinn er horfinn, eins og áður var álitið að hægt væri að gera varðandi klakræktina, og svo með veiðieftirliti og ýmsum öðrum ráðstöfunum. Það er mjög nauðsynlegt að bæta inn í lögin mjög mörgum ákvæðum varðandi þessar breyttu skoðanir, sem skapazt hafa vegna fenginnar reynslu. Menn hafa fengið reynslu fyrir því, að fyrri skoðanir voru ekki réttar, og álita, að nú séu ýmis önnur atriði en hér eru nefnd, sem þurfi að taka til athugunar og breytinga.

Þá vil ég einnig nefna eitt atriði enn, sem gerir það að verkum, að ég lít svo á, að mikil nauðsyn sé á endurskoðun löggjafarinnar í heild, og það eru dómsúrskurðir, sem fallið hafa varðandi laxveiðilöggjöfina. Það er t. d. varðandi það, hvernig mæla skuli lengd veiðivélar frá árbakka, og fleira slíkt, sem fallið hafa fleiri en einn hæstaréttardómur, en þeir féllu á allt annan veg en þeir, sem undirbjuggu löggjöfina í fyrstu, og flestir þeir, sem mest hafa haft með þetta að gera, álitu að mundi verða. Og þegar það sýnir sig, að þarna er um ákvæði að ræða, sem halda ekki fyrir dómstólum á þann hátt, sem löggjafinn mun hafa gert ráð fyrir í upphafi, þá er einnig full ástæða til þess að endurskoða löggjöfina í ljósi þeirrar reynslu, sem þarna hefur fengizt.

Ég vil nefna enn fleiri atriði. Það er nú að vakna hér á landi nokkur áhugi um álaveiðar. Áður vissu menn vart, að þessi skepna væri til hér hjá okkur, a. m. k. datt engum í hug, að það gæti verið nytjafiskur, og í laxveiðilöggjöfinni eru ekki nokkur ákvæði varðandi álaveiðar eða neitt í sambandi við það. Nú er vitað, að í sumum héruðum hér í landi er töluvert af ál og miklar líkur til, að hægt sé að veiða hann með nokkrum árangri. Sjálfsagt er, að inn í löggjöf eins og þessa, sem á að vera heildarlöggjöf um veiði í fallvötnum og vötnum, verði sett ákvæði um þetta. Má vel vera, að með ýmsum ráðum megi gera álaveiðar hér að einhverri dálítilli tekjulind, þótt það sé náttúrlega ekki reynsla um það enn. Álaveiðarnar eru mest stundaðar í svonefndar álagildrur, og það eru alveg ný veiðitæki, sem ekki þekkjast hér.

Ég vil svo að lokum nefna eitt atriði enn þá, og það er lagasetning um alifiskahald. Það hefur á síðustu árum vaknað áhugi hér á landi hjá vissum framkvæmdasömum mönnum um að ala upp í þar til gerðum „dömmum“ eða smátjörnum fisk, þangað til hann sé orðinn nothæfur sem markaðsvara. Það er hér í nánd við Rvík ein slík stöð, sem áhugasamur maður. Skúli Pálsson, hefur sett á stofn og kostað miklu fé til og hefur nú fullvaxna fiska, eða nægilega vaxna til átu, í þessum tjörnum. Þetta var lítt þekkt eða ekki fyrir aldarfjórðungi og alls ekki að neinum dytti í hug, a. m. k. hér á landi þá, að þetta gæti orðið nokkur atvinnugrein hjá okkur. Við skulum taka þjóð eins og Dani. Þetta er stórt útflutningsverðmæti orðið hjá þeim að flytja út fisk, sem þannig er alinn upp í smátjörnum. Og ýmsir danskir bændur hafa sem aukaafurðir við bú sín að hafa nokkuð slíkt. Annars staðar eru svo stærri fyrirtæki, sem rekin eru í einu. Alveg er víst, að kominn er tími til, og má segja, að það sé orðið heldur seint, að setja löggjöf um þessa hluti, hvað rétt gæti verið að styrkja þá, sem vilja leggja þetta fyrir sig, og önnur ákvæði, sem þyrfti þá að setja í sambandi við það. Það hefði náttúrlega mátt hugsa sér að setja einhver sérstök lög um þetta, en að mínum dómi eiga slík ákvæði heima í heildarlöggjöf um lax- og silungsveiði.

Allt þetta, sem ég hér hef fram tekið, og fleira mætti nefna, gerir það að verkum, að ég lít svo á og vil taka fram, að það er skoðun veiðimálanefndar og veiðimálastjóra, að tímabært sé nú að taka þessa löggjöf til endurskoðunar í heild. Þess vegna vil ég taka það fram út af þeirri till. hv. landbn. að vísa þessu frv. til ríkisstj., að ef sú till. verður samþ. hér í hv. Nd., þá mun ég hlutast til um, að sett verði nefnd til þess að taka laxveiðilöggjöfina til endurskoðunar að öllu leyti. Ég vil láta þetta koma fram, þannig að það greiði þá ekki aðrir atkvæði með þessari till. um að vísa málinu til ríkisstj. en þeir, sem álita rétt, að um endurskoðun verði að ræða á löggjöfinni og að n. verði sett til þess að framkvæma það verk nú hið fyrsta.