09.04.1954
Efri deild: 84. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 117 í C-deild Alþingistíðinda. (2279)

187. mál, bifreiðaskattur o. fl.

Frsm,. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Fjhn. hefur tekið þetta frv. til athugunar og rætt það töluvert ýtarlega. Hún er alveg sammála hv. flm. frv. um þann tilgang, sem þeir hafa með því að flytja frv. Hún viðurkennir fúslega, að þörf sé á því að auka brúasjóð, og hún er því einnig sammála, að samgöngumálum okkar á landi verði tæplega komið í viðunandi horf, því að þjóðin er lítil, en landið stórt, nema með því móti, að samgöngurnar eða samgöngutækin leggi meira fé fram til þess heldur en enn er. Aftur á móti þótti nefndinni varhugavert að mæla með þessu frv. eins og það liggur fyrir, að hækka einhliða benzínskatt til þess að efla brúasjóð. Það mundi án efa hafa einhverja dýrtíðaraukningu í för með sér, því að ýmis atvinnufyrirtæki þurfa á ökutækjum að halda, sem brenna benzíni. Og í annan stað er það, að farið er að nota ökutæki, sem brenna ekki benzíni, en slíta þó að sjálfsögðu vegunum alveg eins og þau, sem benzíninu brenna. Nefndinni þykir því varlegra, að þetta mál sé athugað nánar, hvernig því verði bezt fyrir komið, að samgöngurnar og samgöngutækin leggi fram meira fé í brúasjóð en nú er og þá einna helzt svipaða upphæð og farið er fram á í frv. Þess vegna er það, að n. leggur til, að þessu frv. verði vísað til ríkisstj., ekki í þeim tilgangi, eins og oft er nú talið að sé, þegar málum er vísað til ríkisstj., að það sé til að svæfa málið og sama sem fella það, heldur þvert á móti, eins og nál. ber með sér, er það í þeim tilgangi gert, að því er beint til ríkisstj. að athuga, á hvern hátt því verði bezt fyrir komið að efla brúasjóð.

Hv. flm. frv. hafa borið fram brtt. um, að frv. komi því aðeins til framkvæmda, að þessi hækkun á benzíntollinum verði ekki til þess að hækka útsöluverð á benzíni, sem vel mætti hugsa sér, ef innkaupsverð á benzíni lækkaði, en eins og ég hef áður sagt, telur n., að það séu fleiri hliðar á þessu máli, sem þurfi að athuga, og þar af leiðandi hefur n. ekki hvikað frá till. sinni um, að málinu sé á þessu stigi vísað til ríkisstj., þrátt fyrir það þótt þessi brtt. sé fram komin.

Ég skal svo að lokum taka það fram, af því að það var orðað við 1. umr. málsins, að þetta kynni að vera brot á þeim samningum, sem gerðir voru í verkfallsdeilum nú fyrir skömmu, að þá lítur n. svo á, a. m. k. meiri hl. hennar, þeir sem skrifað hafa undir nál., að slíkt komi auðvitað ekki til greina. Þeir samningar hafa vitanlega ekki bundið hendur Alþingis um löggjöf um ótiltekinn tíma, enda hefði auðvitað engin ríkisstj. vald til þess að gera slíkan samning, sem bindur hendur Alþingis.