14.12.1953
Neðri deild: 38. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 139 í C-deild Alþingistíðinda. (2307)

2. mál, firma og prókúruumboð

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Athugasemdir mínar hafi vakið furðulega miklar umr., þar sem leitað er allt til upphafs kristindómsins og sagan rakin meira og minna síðan út úr þessu máli, og skal ég ekki fara svo langt aftur.

En ég get ekki varizt því út af ummælum hv. 1. þm. Árn., að mér komu þau nokkuð ókunnuglega fyrir sjónir, og má segja, að misvitur sé Njáll, því að enginn maður ætti að vita betur en hann, að til þess eftirlits, sem mikla þekkingu þarf til, eru sérstakir menn fengnir. Svo er t. d. með eftirlit með sparisjóðum. Það væri vel hugsanlegt að láta sýslumenn og bæjarfógeta annast það eftirlit. Það er talið, að þeir hafi ekki bókhaldsþekkingu eða reikningsþekkingu til þess að gera það, og þess vegna var til þess valinn nú síðast einn bezti reikningskennari landsins, sem uppi hefur verið á þessu tímabili, maður, sem hafði samið mjög góða bók í þeim efnum og bar af öðrum mönnum. Ég tel, að það hafi verið mjög vel valið. En það sýndi þó, að til var sá maður í landinu, sem hægt var að velja til þess sérstaka starfs, jafnvel þó að það væri ekki falið sýslumönnum og bæjarfógetum, sem sannast sagt hefði mátt gera, alveg eins og að fela þeim það sérstaka eftirlit, er hér um ræðir.

Það er engin ástæða til þess að vera að gera lítið úr þekkingu þessara embættismanna úti um land, þó að það sé sagt, að þeir hafi ekki aðstæður eða sérþekkingu til þess að annast einhver sérstök störf. Ég minni á þetta sérstaka eftirlitsstarf, sem ég gat um áðan. Þá er talið alveg sjálfsagt, að læknar hafi sérþekkingu í ýmsum greinum, og það er ekki hallað á héraðslækna, þó að það starfi einn eða tveir sérfræðingar í landinu að lækningu ýmiss konar sjúkdóma, sem hinir almennu læknar hafa hvorki tíma né tækifæri til þess að kynna sér þau læknisráð við, sem á þarf að halda í þeim tilfellum. Alveg það sama er, eftir því sem þjóðfélagið stækkar og þjóðfélagsfyrirbrigðin verði fleiri, í öðrum greinum, þ. á m. í lögfræðinni.

Um lagabálk eins og hlutafélagalögin — og það er í raun og veru miklu frekar í þessu sambandi um að ræða eftirlitsstarf með þeim heldur en sjálft frv. um firmu og prókúru, sem við erum að ræða — er það að segja, að ekki er hægt að ætlast til þess, að almennir lögfræðingar, hversu vel sem þeir eru að sér, sýslumenn og bæjarfógetar, hafi færi á að kynna sér allar þær sérreglur, sem gilda um þau sérstöku efni. Það er sérstök stór fræðigrein innan lögfræðinnar, sem fjallar um þau efni, og það er alveg rétt sem hv. þm. Árn. sagði, að eins og sakir standa, hygg ég, að enginn maður sé á lausum kjala, sem sé sérstaklega vel að sér í þeim. En ef þörf skapast fyrir hann, með því að þetta verði, eins og menn segja, „centralizerað“, þá mundi einhver ungur maður sjálfsagt fara og leggja sérstaka stund á það, eins og menn fara nú til útlanda og leggja sérstaka stund á að kynna sér hin ýmsu fyrirbrigði sjúkdómanna. Það er því ekki á neinn hallað með þessu í lögfræðistétt, þó að sagt sé, að til þessa þurfi sérstaka þekkingu, þ. e. meiri þekkingu en hægt er að búast við, að lögfræðingar almennt hafi.

Auk þess er mjög mikið ofgert úr því, að allur almenningur þurfi dags daglega að hafa samband við yfirvöld út úr þessum efnum. Hér er um að ræða fyrst og fremst menn, sem stunda ýmiss konar viðskipti og vilja þá sérstaka vernd, í mörgum tilfellum sérréttindi, í sérstöku félagsformi, með sérstökum heitum á sínum félögum, og það er eðlilegt, að þeir lúti alveg sérstöku eftirliti og þurfi að gjalda nokkurt sérgjald til þess að fá þau sérréttindi, sem fylgja því að reka atvinnu með þeim sérstaka hætti, sem ætlað er t. d. í hlutafélagalögunum. Meginhlutinn af því, sem skráð er, verður svo birtur t. d. bæði í Lögbirtingablaði og sumpart í stjórnartíðindum og liggur þar almenningi opið fyrir.

Menn verða að átta sig á, að það tjáir ákaflega lítið að setja stóra lagabálka eins og hlutafélagalögin með mörgum greinum og flóknum, svo flóknum, að erfitt er satt að segja að átta sig á, hvað í þeim felst, fyrir aðra en þá, sem hafa á því grundvallaða þekkingu, það gagnar lítið að setja slíka lagabálka, ef ekki er gerð sérstök ráðstöfun til þess, að eftir lagabálkunum sé farið, og það er meiningarlaust að veita mönnum t. d. þau sérstöku hlunnindi að reka fyrirtæki sín sem hlutafélög, nema einhver aðili í landinu hafi til þess ekki aðeins skyldu, heldur einnig aðstöðu og þekkingu að fylgjast með því, alveg eins og nauðsynlegt er, að einn slíkur sérstakur aðili sé til þess að fylgjast með sparisjóðum landsmanna, þannig að eftir því sé litið, að þetta líti ekki aðeins vel út á pappírnum, heldur sé raunveruleiki á bak við þær yfirlýsingar, sem gefnar eru. Og ég legg áherzlu á, að það er ekki til þess að færa neitt að hv. 1. þm. Árn., heldur vegna þess, að það er fullkomin hliðstæða milli þess sérstaka eftirlits, sem menn hafa talið sig neydda til að koma upp varðandi sparisjóðina, ég þess eftirlits, sem hér er ætlað ekki fyrst og fremst til þess að skrá, — það er algert aukaatriði og gamanmál eins og hjá okkar fyndna hv. þm. V-Húnv. að tala hér fyrst og fremst um þetta sem skráningarmál og jafna því við manntal, — hér er fyrst og fremst um það að ræða, að það sé komið á raunhæfu eftirliti með þessum fyrirtækjum og fylgzt með því, að raunveruleikinn sé í samræmi við þær yfirlýsingar, sem þessir aðilar gera og ætlaðar eru til þess, að þær megi taka trúanlegar í viðskiptalífinu.

Þetta er ekki í eðli sínu pólitískt mál á neinn veg, og getur í sjálfu sér ekki verið kappsmál annað en að benda á það, sem rétt er, og leiðrétta misskilning, sem fram hefur komið. En ég vil geta þess, að ég hef nú með höndum þessa álitsgerð hæstaréttardómendanna, sem samið hafa frv., og þeir segja í henni, með leyfi hæstv. forseta:

„Lögreglustjórum er að vísu treystandi til að kynna sér viðkomandi lög og beita þeim, en þess er að gæta, að þessi löggjöf er svo sérfræðileg, að lögreglustjórarnir mundu áður þurfa að leita sér sérþekkingar í félagarétti og bókhaldi. Framkvæmd þessarar löggjafar mundi því verða miklu öruggari og samræmdari í höndum eins embættismanns, sem hefði nauðsynlega sérþekkingu í þessum málum. Hann mundi einnig fljótt fá mikla reynslu í framkvæmd þessara mála, sem hins vegar yrði í höndum margra embættismanna alger aukaverk. Í félagalöggjöfinni eru og ýmis ákvæði, sem ekki verða samræmd, nema þau séu framkvæmd á einum stað.“

Þetta eru ummæli þessara sérfróðu manna, og álitsgerð þeirra lýkur með þessu: „Samkvæmt framansögðu er það eindregið álit okkar, að þær umbætur, sem frv. um firmu og hlutafélög eiga að hafa í för með sér, mundu koma að litlu haldi, ef ekki er tryggð örugg og samræmd framkvæmd þeirra mála í höndum eins sérfróðs embættismanns.“

Ég tel skyldu mína að láta menn vita um þetta álit, sem er í samræmi víð álit skrifstofustjóra atvmrn., sem fram að þessu hefur haft yfirstjórn eftirlits í þessum málum. Hér talaði prófessor úr viðskiptadeild háskólans, sem lét uppi sama álit, og mér hefur verið sagt, án þess ég hafi sjálfur átt kost á því að kanna það, að sá maður, sem lengst hefur kennt félagarétt við Háskóla Íslands og hefur bezta þekkingu í þeim efnum af hérlendum mönnum, próf. Ólafur Lárusson, sé sömu skoðunar. Og get ég fullvissað menn um það, að þetta er ekki vegna þess, að menn séu gírugir í að stofna nýtt embætti eða þetta sé hugsaður sem bitlingur handa einum eða neinum, heldur vegna þess, að það er þýðingarlítið að vera að setja upp stóra lagabálka með ákaflega flóknum fyrirmælum, ef jafnframt yrði ekki gerð ráðstöfun til þess, að einhver maður í landinu hafi til þess næga þekkingu og tóm að fylgjast með því, að raunverulega sé eftir þeim farið. Og það þarf ekki frekar að gera gabb að því, að sérþekkingar þurfi til athugunar á þessu, heldur en sérþekkingar þarf fyrir búnaðarráðunauta til þess að vera í ýmsum sveitum landsins. Með því er ekki verið að gera lítið úr bændunum. Þeir hafa sína reynslu og miklu þekkingu, en þeir eiga ekki kost á því að setja sig svo inn í öll mál, að þeir þurfi ekki á að halda leiðbeiningum og að vissu leyti eftirliti með þeim nýjungum, sem þeir eru að gera. Það er því, hvað sem menn að öðru leyti álita um þetta, ástæðulaust að taka þessu með háði um það, að verið sé að gera lítið úr lögreglustjórum landsins með því að leggja þetta til. Því fer fjarri. Það verður einungis að athuga, að til nýrra verkefna þarf meiri og betri þekkingu en menn áður hafa haft.