06.10.1953
Neðri deild: 3. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 148 í B-deild Alþingistíðinda. (233)

15. mál, sjúkrahús o. fl.

Jónas Rafnar:

Herra forseti. Ég vildi ekki láta hjá líða við 1. umr. þessa máls að lýsa yfir ánægju minni yfir flutningi frv., og ég vona, að það komi til með að sigla hraðbyri gegnum báðar deildir þingsins.

Það er alkunna — ástæðulaust að fara út í það nánar — að rekstur sjúkrahúsanna hefur verið ákaflega þungur baggi á sveitarfélögunum, þar sem daggjöldin hafa í fæstum tilfellum staðið undir raunverulegum kostnaði. Niðurstaðan hefur því orðið sú, að sveitarfélögin hafa orðið að greiða hallann, þ.e.a.s. mismuninn, úr eigin sjóðum.

Ég held, að það sé enginn vafi á því, að rekstrarerfiðleikar sjúkrahúsanna í landinu hafi mjög mikið staðið fyrir þrifum eðlilegri þróun í þessum málum. Ég tel, að hin bága fjárhagsafkoma sjúkrahúsanna hafi einmitt komið í veg fyrir það, að heilbrigðismálin næðu þeim þroska og þeim framförum, sem gera verður kröfu til í sérhverju menntuðu þjóðfélagi. Það er töluvert fróðlegt að bera saman t.d. þróunina í menntamálunum og heilbrigðismálunum, og ég held, að við nákvæman samanburð hljóti allir að gera sér ljóst, að þar er töluverður munur.

Það er ekki hægt að leyna því, að rekstur fjórðungssjúkrahússins á Akureyri hefur verið bæjarstjórninni — og raunar öllum bæjarbúum — ákaflega mikið áhyggjuefni. Það var gífurlega mikið átak á sínum tíma að byggja þetta stóra og glæsilega sjúkrahús. Og það var ekki nóg að byggja húsið, heldur þurfti að búa það út með nauðsynlegum tækjum, sem voru mjög kostnaðarsöm. Til fróðleiks má t.d. geta þess, að röntgentækin ein í spítalann kosta hvorki meira né minna en 500 þús. kr. Bæjarbúar litu nú yfirleitt þannig á, að eftir að búið yrði að koma spítalanum upp, þá yrðu ekki vandræði með að sjá um reksturinn, þegar fyrsta áfanganum — og að okkar áliti erfiðasta áfanganum — væri náð. En það hefur nú komið í ljós, að það er einmitt rekstur fjórðungssjúkrahússins, sem veldur okkur áhyggjum, og það er einmitt þar, sem skórinn kreppir að.

Það er ekki með nokkrum rökum hægt að ætlast til þess, að Akureyrarbær taki að sér kostnað vegna utansveitarsjúklinga, en eins og dæmið stendur í dag, þá munu daggjöldin, sem tryggingarnar borga, nema um 70 kr. á legudag, en hins vegar er kostnaðurinn við hvern einstakan legudag aldrei innan við 100 kr. Það kemur því í ljós, að hallinn af hverjum sjúklingi daglega hlýtur að nema allt að 30 kr.

Sé gert ráð fyrir því, að legudagarnir á Akureyrarsjúkrahúsi verði um 36 þús. á ári, þá hlyti hallinn að nema allt að einni millj. kr. Og það er ekki hægt að ætlast til þess, að Akureyrarbær einn taki að sér þennan kostnað. Einnig má benda á það í þessu sambandi, að það er ekki gert ráð fyrir því, að Akureyrarsjúklingarnir, þ.e.a.s. sjúklingar frá Akureyri, komi til með að nota sjúkrahúsið nema að 1/4 eða 1/3, svo að það kemur sem sé í ljós, að það eru ekki síður sveitirnar á Norðurlandi — það má segja allt Norðurland og jafnvel einhver hluti Austurlands — sem koma til með að nota hinn veglega spítala á Akureyri.

Ég sé nú ekki ástæðu til þess að orðlengja þetta frekar við þessa umr. En ég vil aðeins geta þess, að bæjarstjórnin skipaði n. á s.l. vetri til viðræðna við ríkisstj. um þetta mikla hagsmunamál, og sú n. átti tvívegis viðræður við fyrrv. hæstv. heilbrmrh. Og ég vil strax taka það fram, að við Akureyringar höfum jafnan mætt skilningi hjá þeim ágæta manni, og við stöndum í mikilli þakkarskuld við hann fyrir að hafa beitt sér fyrir því, að þetta frv. yrði flutt, sem nú liggur hér fyrir hv. deild.

Ég tel, að sú stefna, sem mörkuð er í þessu frv., sé alls kostar rétt. Í frv. er gert ráð fyrir því að hjálpa öllum. Við vitum það, að skórinn kreppir víðar að en á Akureyri, og það er einmitt sú leið farin, að sveitarfélögunum er hjálpað eftir því, sem þau þurfa á hjálpinni að halda, sem sé: það er miðað við stærð og tilkostnað sjúkrahúsanna.

Ég vil svo endurtaka þá ósk mína, að þetta frv. fái greiða afgreiðslu í hv. d., og ég vil þakka þeim aðilum, sem að þessu frv. hafa staðið.