13.04.1954
Neðri deild: 95. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 248 í C-deild Alþingistíðinda. (2428)

165. mál, ríkisborgararéttur

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég flyt hér brtt. á þskj. 850 um það, að Ursula Häfner húsfrú á Útibleiksstöðum fái ríkisborgararétt. Þessi kona er fædd í Þýzkalandi árið 1922, fluttist hingað til lands í júnímánuði 1950 og giftist í ágústmánuði 1953 Gunnlaugi Björnssyni bústjóra á Útibleiksstöðum. Hv. allshn. hafði ekki séð sér fært að gera till. um, að þessi þýzka kona fengi hér ríkisborgararétt. En við 2. umr. voru samþ. hér nokkrar brtt. við frv., m. a. um að veita þýzkum konum, sem hafa verið hér á landi tiltölulega fá ár, en giftar eru íslenzkum mönnum, ríkisborganarétt, og ég tel, að þessi kona eigi þá einnig eins og hinar að fá hér borgararétt. Ég skal geta þess, að umsókninni um ríkisborgararéttinn fylgir fæðingarvottorð, hjónavígsluvottorð og einnig fylgja hér með meðmæli frá sýslumanni Húnavatnssýslu.