13.04.1954
Neðri deild: 95. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 249 í C-deild Alþingistíðinda. (2430)

165. mál, ríkisborgararéttur

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Ég skal ekki hafa mörg orð um þetta mál, enda hef ég ekki haft mikil afskipti af því.

Ég mun að sjálfsögðu greiða atkvæði með till. hv. 1. landsk., þótt hún gangi ekki alveg eins langt og ég hefði óskað. Ég hef verið á móti þessu tildri með nöfnin, sem hv. 3. þm. Reykv. hefur nú gert að sínu stóra baráttumáli á þessu þingi og fleirum. Mig langar að spyrja hann alveg sérstaklega, hvað muni henda þann ógæfusama mann, ef hans till. nær nú fram að ganga eins og hún er, sem er hér nafngreindur nr. 5 í 1. gr. frv. og ber það ógiftusamlega nafn að heita Clausen. Mundi hann mega kalla sig Thors t. d. eða eitthvað svoleiðis til að fá að vera borgari? Ég spyr. Annar, nr. 12. heitir Jensen. það er nú það, sem ég hét, áður en ég hét Thors. Hvað á nú að koma fyrir þann ógæfusama mann? Hann á kannske að kalla sig Ólafsson? Þetta er of broslegt allt saman, til þess að menn geti tekið það hátíðlega. Ég skal þó játa, að ef hingað streymdu menn þúsundum saman, sem hétu þessum erlendu nöfnum, væri kannske ástæða til að athuga það eitthvað. En það minnsta, sem hægt er að gera nú til réttlætis, er að samþ. till. hv. 1. landsk. Það er það minnsta tillit, sem hægt er að taka til þessara manna, sem hér vilja leita skjóls og vinna okkar fósturjörð, leggja henni til sín efnilegu afkvæmi, eins og dæmin sanna að útlendir menn gera stundum. Þetta er það minnsta, sem við getum gert fyrir þá, lágmarkstillit til þeirra og þeirra tilfinninga- og málvenju og mannasiða, að mennirnir fái að halda sínum nöfnum. Það skeður engin þjóðarógæfa með því. Hitt er siðleysi. Og það er dæmalaus sálrænn misskilningur hjá hv. 3. þm. Reykv., ef hann heldur, að það sé aðeins ein hlið á þessu máli og hún sé sú, að það sé okkar að setja þeim kostina. Að sönnu er það rétt, að það er fengur frá margra sjónarmiði og væntanlega þeirra, sem hingað leita, að fá að vera íslenzkir borgarar, ég dreg það ekki í efa. En margir þeirra manna, sem hér hafa eignazt íslenzkan borgararétt, gera það ekki af því, að þeir óski heldur að vera á Íslandi en á sinni ættjörð, ef þeir mættu eiga þess kost. Örlögin hafa fært þeim þá ógæfu að höndum að þurfa að flytja sig af sinni fósturjörð, og það er alveg óþarfi að vera að leika sér að þeirra tilfinningum á þennan hátt, sem hér er gert, og ég vil mælast eindregið til þess, að menn sýni þó það brot af sanngirni að samþ. till. hv. 1. landsk.