13.04.1954
Neðri deild: 95. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 250 í C-deild Alþingistíðinda. (2432)

165. mál, ríkisborgararéttur

Sigurður Ágústsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér á þskj. 864 að bera fram brtt. við frv. til l. um ríkisborgararétt, svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Í 1. gr. bætist í stafrófsröð:

1. Fick, Maria Luise, húsfrú í Hrísdal í Miklaholtshreppi, fædd 19. febr. 1925 í Þýzkalandi.

2. Mikulcak, Miroslav Randolph, forstjóri í Reykjavík, fæddur 10. sept. 1927 í Tékkóslóvakíu.

3. Levermann, Klaus Ernst, trésmiður í Reykjavík, fæddur 28. febr. 1929 í Þýzkalandi.“

Frú Maria Fick fluttist hingað til landsins 1. okt. 1949. Hefur hún dvalið hér síðan, fyrst í Rvík í eitt ár, á Vífilsstöðum í rúmt 1½ ár og s. l. 2 ár vestur í Miklaholtshreppi í Hnappadalssýslu. Þau 2½ ár, er hún dvaldi hér í Rvík og á Vífilsstöðum, vann hún sem ráðskona og hjúkrunarkona og stundaði jafnframt nám í læknisfræði einn vetur í Háskóla Íslands. Er hún flutti vestur á Snæfellsnes sumarið 1952, var hún ráðskona hjá Kristjáni Einarssyni forstjóra, en flutti að Hrísdal í september sama ár. 25. jan. 1953 giftist hún eiginmanni sínum, herra Kristjáni Sigurðssyni bónda í Hrísdal, og hafði þá eignazt einn erfingja. Ég tel allt mæla með því, að þessari ágætu húsfreyju verði veittur íslenzkur ríkisborgararéttur.

Miroslav Randolph Mikulcak forstjóri í Rvík er fæddur í Tékkóslóvakiu 1927, en flutti hingað til lands 2. jan. 1947 og hefur átt heimili hér á landi í rúm 8 ár. Hann er giftur íslenzkri konu, giftist henni 7. júní 1952, og hafa þau eignazt eitt barn. Mikulcak óskar eindregið eftir að dvelja hér á landi til frambúðar, og af þeirri ástæðu óskar hann eftir því að fá íslenzkan ríkisborgararétt. Hann er forstjóri við Spánsk-íslenzka verzlunarfélagið hér í Rvík, en fyrstu árin, sem hann dvaldi hér á landi, vann hann hjá herra Óla J. Ólasyni skókaupmanni í Rvík. Vil ég eindregið mæla með því, að honum verði veittur ríkisborgararéttur.

Klaus Ernst Levermann fluttist til Íslands í júní 1949 og hefur því dvalið hér á landi í nær 5 ár. Fyrsta árið, sem hann var hér, dvaldi hann á Skálpastöðum í Lundarreykjadal, næstu þrjú ár á Staðastað á Snæfellsnesi og nú í tæpt ár í Rvík. Á Skálpastöðum og á Staðastað vann hann við landbúnaðarstörf, en í Reykjavík við trésmiðar. Þar sem Levermann hefur dvalið, hefur hann áunnið sér traust húsbænda sinna fyrir dugnað og alúð í öllum störfum. Tel ég því rétt, þó að hann hafi aðeins dvalið hér í fimm ár, að honum verði veittur íslenzkur ríkisborgararéttur.