13.04.1954
Neðri deild: 95. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 254 í C-deild Alþingistíðinda. (2437)

165. mál, ríkisborgararéttur

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. — Hv. 1. þm. Árn. sagði, að sig stórfurðaði á þessum umr. Ég vil aðeins segja, að mig stórfurðaði á ræðu hans, því að hún hvíldi bókstaflega öll á algerum misskilningi á þeirri till., sem ég hef flutt. Annaðhvort virðist hv. þm. ekki hafa lesið till. eða hann hefur lesið hana þannig, að hann hefur ekki skilið efni hennar. Hann sagði, að nú ætti samkvæmt minni till. að gefa nöfnin algerlega frjáls. Sá, sem les till., sér, að umsækjendurnir eiga að taka nýtt fornafn og sömuleiðis börn þeirra og börnin síðan að kenna sig við fornafn föður síns að íslenzkum sið. Það eina, sem ég legg til að fái að haldast, er það, að sjálfir umsækjendurnir þurfi ekki að skipta um nafn, um leið og þeir fá ríkisborgararéttinn, að enginn fullorðinn maður þurfi á fullorðinsaldri að taka sér algerlega nýtt nafn. — Hv. þm. sagði einnig, að nú ættu hinir nýju ríkisborgarar að fá að halda áfram að nota ættarnöfn sín og niðjar þeirra. Þetta er alger misskilningur. Þeir sjálfir eiga að fá að nota ættarnöfn sín áfram, en niðjarnir ekki, og með því tel ég alveg nógu vel séð fyrir tungunni, að það sé tryggt, að nöfn þessara manna haldi ekki áfram í fjölskyldum þeirra, þótt ég hins vegar sjái ekki, að tungunni geti stafað meiri hætta af þeim í þessum fjölskyldum heldur en þeim mörgu fjölskyldum öðrum, sem mega fá að nota algerlega löglega nákvæmlega sömu nöfn. — Skal ég svo ekki orðlengja um þetta frekar.