06.04.1954
Efri deild: 78. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 521 í C-deild Alþingistíðinda. (2692)

125. mál, húsaleiga

Frsm. meiri hl. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Húsaleigulöggjöf hérlendis hefur aðeins verið sett í sambandi við styrjaldarástand og aldrei heildarlöggjöf sambærileg við slíka löggjöf hjá ýmsum öðrum þjóðum. Fyrstu lög um húsaleigu hérlendis voru sett þegar fyrri heimsstyrjöldin geisaði 1917. Þau voru um húsaleigu í Reykjavík eingöngu og giltu með nokkrum breytingum um 10 ára skeið. Síðan voru engin lög um húsaleigu gildandi þar til í seinni heimsstyrjöldinni, að sett voru lög um það efni árið 1939. Þeim lögum hefur síðan verið breytt hvað eftir annað. Nefndir hafa verið skipaðar ein af annarri til þess að gera till. um heildarlöggjöf. Þjóðin hefur flutzt meira og meira úr dreifbýli í þéttbýli og mannfjölgun orðið mikil í höfuðborginni sérstaklega. Þessi þróun búsetunnar í landinu hefur meira og meira kallað á heildarlöggjöf um skipti leigusala og leigutaka. Ýtarleg lög hafa verið sett um ábúð á jörðum og talin vera nauðsynleg, eins og líka er, þótt leiguliðar í sveitum séu miklu færri en leigutakar í þéttbýlinu. Við manntalið 1950 voru 6280 leiguíbúðir í Reykjavík einni saman, og voru þær nærri helmingur allra íbúða í höfuðstaðnum. Þessar tölur gefa nokkra hugmynd um, hvílíkur fjöldi fólks það er, sem miklu máli skiptir, að húsaleiguviðskipti séu með góðri skipan og þar um gildi lög og skráðar reglur, sem hægt sé að styðjast við, tiltaki höfuðréttindi og skyldur á báðar hliðar, gefi heimildir til félagslegra úrræða, sem grípa megi til, ef í harðbakka ætlar að slá, eins og reynslan hefur sýnt að verða vill, t. d. á styrjaldarárum, sbr. tilraunir þær, sem gerðar voru með lagasetningu 1917 og aftur 1939, eins og ég gat um áðan.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir til umr. og afgreiðslu, er samið af stjórnskipaðri nefnd. Sú nefnd var skipuð 19. júní 1951. Er í frv. vitanlega fyrst og fremst byggt á þeirri reynslu, sem fengizt hefur af lagasetningu um þessi efni í landi okkar síðan 1917. Enn fremur segist nefndin í till. sínum hafa stuðzt við reynslu annarra þjóða og þá einkum Norðmanna og Dana. Má telja, að eðlilegt sé, að nefndin leitaði þangað fyrirmynda. Frv. er flutt eftir tilmælum félmrn. og má heita samhljóða frv., sem allshn. Nd. flutti 1951 fyrir tilmæli sama rn., en dagaði þá uppi. Vitanlega mæða vandræði fólks og ágreiningur í húsaleigumálum mjög á félmrn., meðan heildarlöggjöf um þau efni vantar, og eðlilegt er í alla staði, að það rn. beiti sér fyrir lagasetningunni, enda fullkomlega tímabært að setja ýtarleg ákvæði í íslenzk lög um þessi efni. Stefna frv. er að tryggja það, að samningar milli leigusala og leigutaka séu á hreinu, skilgreina skyldur og rétt þessara aðila sem skýrast, en hafa viðskiptin annars sem frjálsust til samninga, ef ekki er neyðarástand vegna húsnæðiseklu, en heimila sveitarstjórnum, ef neyðarástand skapast, íhlutun, meiri eða minni, eftir því sem sveitarstjórnirnar telja nauðsynlegt, en þó innan ákveðinna takmarka.

Heilbr.- og félmn. klofnaði í afstöðu til þessa máls, eins og nefndarálit bera með sér, er fram hafa verið lögð á þskj. 619 og 640. Við þrír, sem meiri hl. skipum, leggjum til, að frv. verði samþ. með tveim breytingum, sbr. þskj. 619.

Fyrri breytingin er við 35. gr. frv. Í 34. gr. er svo fyrir mælt, að hver íbúð, sem eldhús eða aðgangur að eldhúsi fylgir, skuli tekin út. Í 35. gr. er svo fyrir mælt, að úttektarmenn húsnæðis skuli vera þeir menn, er aukafast eignamat hafa með höndum á hverjum stað. Á sumum stöðum, svo sem í Reykjavík, hlýtur að vera, þegar aðalfardagar eru, ofverk fyrir fasteignamatsmenn að anna úttektum nógu hratt eða á svo stuttum tíma sem allir, sem flytjast í eða úr leiguíbúðum, hljóta að gera kröfu til samkvæmt lögunum, ef þetta ákvæði verður að lögum. Hins vegar sýnist ekki nauðsynlegt, að fasteignamatsmenn einir vinni þessi verk. Til þess að gera málið einfaldara og ódýrara í framkvæmd leggjum við meirihlutamennirnir til í fyrri till. okkar, að leigusali og leigutaki megi sjálfir velja sér menn til þess að framkvæma úttektina, ef þeir koma sér saman um það, eða framkvæma hana sjálfir, verði þeir ásáttir um það. En skrifleg sé úttektin jafnan til þess að skjalfesta þau atriði, sem meginmáli skipta. Eðlilegt er, að rn. gefi út eyðublöð undir úttektir, enda mun um það vera rætt og ákveðið í lögunum. Með samþykkt brtt., ef samþ. verður, eru úttektarákvæði frv. gerð auðveld og ódýr, ef hlutaðeigendur vilja hafa þau það.

Síðari brtt. okkar meirihlutamannanna er í raun og veru prentvilluleiðrétting á 59. gr., þ. e., að í stað orðsins „ríkissjóði“ í fyrri málsl. komi „sveitarsjóði“. Í handriti stóð þar „sveitarsjóði“, enda væri fjarstæða, að húsaleigunefndum þeirra sveitarfélaga, sem samþykkja kunna að láta X. kaflann koma til framkvæmda hjá sér, sé greitt fyrir störf sín úr ríkissjóði eftir ákvörðun sveitarstjórnanna. Það væri að gefa rétt til þess að rista þveng af annars skinni. Það er í alla staði eðlilegt, að hvert sveitarfélag kosti sína húsaleigunefnd, en kostnaður við yfirmatsnefndir sé aftur á móti greiddur úr ríkissjóði, enda gerir síðari málsl. 59. gr. frv. ráð fyrir því.

Hv. minni hl. heilbr.- og félmn. hefur lagt fram allmikið nál. Í því er ályktun frá fundi Fasteignaeigendafélagsins í Reykjavík, sem mótmælir lagasetningu um húsaleigu. Vitanlega kæra fasteignaeigendur, sem leigja út húsnæði, sig ekki um það, að sett séu lög um húsaleigu, á meðan skortur er á húsnæði og eftirspurn mikil eftir því, eins og nú er. Þeir hafa undir þeim kringumstæðum tögl og hagldir í húsaleigumálum. Auðvitað kærir sá sig aldrei um lagasetningu, sem getur, ef engin eru lögin, ráðið sjálfur, hvaða reglur gilda. Það er sá minni máttar, sem laganna þarfnast fyrst og fremst, sá, sem á undir högg að sækja, en ekki hinn, sem hefur ráðin í hendi sér. Minni hl. gerir fundarsamþykkt Fasteignaeigendafélagsins að kjarna síns nál. Þó segist hann ekki vilja leggja til, að frv. verði fellt beinlínis. En ég sé ekki betur en till. hans, að því leyti sem þær eru ekki þýðingarlausar, miðist við að ónýta frv., svo að telja mætti, ef þær yrðu samþ., að í raun og veru væri blóð og mergur úr frv. og það sama sem dautt. Brtt. minni hl. eru ekki færri en 23. Hinn afkastamikli sláttumaður, hv. þm. Barð., frsm. minni hl., hefur auðsæilega tekið stóra ljáinn, þegar hann gekk á þennan teig. En ekki hefur hann bitið í bezta lagi, því að ekki hefur tekið hreint úr og ekki er laust við ljátorfur í tillögumúganum. Ég hygg að réttast sé að láta ljána liggja.

Ég mæli með því fyrir hönd meiri hl. heilbr.- og félmn., að frv. verði samþ. með þeim tveim breytingum, sem hann leggur til. Ég fer ekki út í að ræða hverja einstaka brtt. minni hl. fyrr en hv. frsm. hans hefur gert grein fyrir till. og ég hef heyrt rök hans í einstökum efnum, en vissulega er létt að ræða margar þeirra við hann. Ég sé, að fram hafa komið brtt. frá tveim þm. á þskj. 644. Ég býst við, að þeir geri líka grein fyrir þeim, og læt bíða að ræða um þær, en sé hins vegar ekki betur en að þær beinlínis gangi þvert á móti þeirri síðari brtt., sem meiri hl. leggur til að gerð verði á frv., sem sé vilji beina kostnaðarhlið þessara mála inn á ríkissjóðinn, en gefa sveitarstjórnunum rétt til þess að ávísa til þeirra, sem fyrir málin vinna, gjaldi úr ríkissjóði.