07.04.1954
Efri deild: 79. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 547 í C-deild Alþingistíðinda. (2699)

125. mál, húsaleiga

Forseti (GíslJ):

Það eru nú 6 menn á mælendaskrá. Ég mun því fresta þessari umræðu. Mundi hæstv. ráðh. vilja doka við örlitla stund?

Á fundi í gærkvöld hér í deildinni mælti hæstv. félmrh. eftirfarandi orð til mín sem forseta:

„Ég vil gjarnan vera löghlýðinn maður, og þar sem hæstv. forseti þessarar d., sem virðist nú vera allmikill einræðisherra hér í Ed., mælti svo fyrir, að ekki skyldi fundur vera nema til kl. 12, þá vil ég að sjálfsögðu ekki brjóta þá reglu. En af því að ég er nú búinn að vera hér í 3 eða 4 klukkutíma í kvöld og hef hlustað á meira en klukkutíma ræðu hv. þm. Barð., þá finnst mér, að ég megi til að segja hér örfáar setningar, áður en þessum fundi er slitið í kvöld.“

Ég hef gert mér það að reglu hér sem forseti þessa stuttu stund, sem ég hef setið hér, að beita engri einræðisreglu hér í hv. Ed. og vísa um það til hv. dm. Ég hafði haldið hv. dm. hér á fundi frá kl. hálf tvö í gær til kl. 4, síðan frá kl. 5 til 7 og enn samkvæmt ósk hæstv. ríkisstj. frá kl. hálf níu til 12 og taldi þá, að vinnutími væri orðinn æði langur.

Ef hæstv. ráðh. telur, að ég hafi beitt hér einhverjum einræðisaðferðum til þess að fresta fundi á því tímabili, þá vonast ég til þess, að þegar hann athugar það mál, þá sjái hann, að það hafi ekki verið rétt að láta slík orð falla sem hér segir, ef það hefði verið út af þeim atriðum.

Hafi það hins vegar verið út af því, að ég hafi ekki viljað halda áfram þessu sérstaka máli, þá vil ég taka fram, að þessu máli er vísað til heilbr.- og félmn. þann 29/3, þ. e. a. s. í marz, og kemur úr n. 1/4, það er útbýtt þá áliti frá meiri hl. og þann 5/4 frá minni hl., þann 5/4 er málið tekið á dagskrá og 6/4 er málinu frestað. Á öllu þessu tímabili hafa verið tekin fyrir ýmis mál, eins og ég get látið hæstv. ráðh. í té lista yfir. Ég vil ekki tefja hæstv. d. á að fara yfir allan þann lista, en það eru flestallt mál hæstv. ríkisstj., sem urðu að ganga á undan þessu máli.

Ég vil því vænta, að hæstv. ráðh. líti svo á, að hann hafi sagt þessi orð til hæstv. forseta af athugunarleysi, en ekki af því, að hann hafi viljað láta þetta koma fram sem ásökun á forseta.