08.04.1954
Efri deild: 80. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 571 í C-deild Alþingistíðinda. (2707)

125. mál, húsaleiga

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Þessar umr. hafa nú farið nokkuð á víð og dreif, og ég skal reyna að lengja ekki tímann með því að fara út í alla þá sálma, sem hér hefur verið vikið að, en get þó ekki látið þessa umr. fara svo fram, að ég segi ekki nokkur orð.

Hv. frsm. minni hl. flutti hér langa og stórorða ræðu við fyrri hl. þessarar umr. Ég skal ekki neitt blanda mér í orðaskipti hv. stjórnarflokka eða endurtaka neitt af þeim vinmælum og ekki vinmælum, sem þeirra fóru á milli, en hv. þm. Barð., frsm. (GíslJ), sem jafnframt er forseti þessarar hv. d., tók það mjög skörulega fram í nefndri ræðu sinni, að Framsfl. væri þetta mál ekki neitt áhugamál og mundi ekki líta á þetta sem mikilsvert þjóðmál, því að hann mundi vera reiðubúinn til hrossakaupa um að stöðva þetta mál, ef samkomulag gæti náðst um breytingar á öðru máli, sem væri til meðferðar hér á þinginu, án þess þó að nefna það. Hér er svo mikið sagt, að ég verð að óska þess, að hv. þm. geri nánari grein fyrir þessu, hver þessi verzlunarskipti hafi verið, sem hér er um að ræða, og hvernig þeim var háttað. Að blanda slíku inn í mál eins og þetta, án þess að gera fulla grein fyrir því, hvað við er átt, ber ekki að gera, og ég efa ekki, að hv. þm., sem er forseti þessarar d., geri sér þetta ljóst.

Hv. þm. vék einnig að mér í þessari fyrstu ræðu sinni, hafði talið líklegt, skildist mér, að ég mundi ekki vera fylgjandi þessu frv., en fengið þær óþægilegu upplýsingar hjá hv. frsm. meiri hl., að það væri þegar búið að merkja mig, eins og hv. þm. orðaði það. Vissulega er það rétt, að ég var búinn að segja frsm. meiri hl., að ég mundi fylgja þessu frv., þó að ég teldi, að það þyrfti talsvert mikillar athugunar við og væri engan veginn svo fullkomið sem ég hefði talið æskilegt.

Mig furðar á því, hversu lítið hefur verið rætt um það raunverulega tilefni þessa frv. í þeim löngu umr., sem hér hafa farið fram. Þó hygg ég, að öllum hv. dm. sé það fullkomlega ljóst. Höfuðorsök þess, að það er borið fram hér, vil ég vænta að sé sú, að húsnæðisástandið hér í bænum og á ýmsum öðrum stöðum á landinu er með öllu óviðunandi. Það er vitað, að þúsundir manna hér í Reykjavík einni búa í húsnæði, sem er ekki manneskjum boðlegt og í sumum tilfellum er beinlínis hættulegt fyrir heilsu þeirra, sem búa þar. Fjölgunin hér hefur verið það ör og húsbyggingar það litlar og svo misjafnt skammtað húsnæðið, að stór hluti af bæjarmönnum býr við algerlega ófullnægjandi húsnæði. Og því fer fjarri, að þetta ástand sé batnandi, það fer heldur versnandi. Þetta er sá bakgrunnur, sem aldrei má gleymast í sambandi við þessar umr. hér og afgreiðslu þessa máls. Allir telja tvímælalaust það ástand æskilegast, að ekki þyrfti að grípa til húsaleigulaga í þeim skilningi að leggja hömlur eða kvaðir á umráðarétt og afnotarétt manna á eigin húsum, en svo bágborið getur ástandið verið, að það sé réttlætanlegt og í sumum tilfellum jafnvel óhjákvæmilegt að gripa til einhverra slíkra ráðstafana. Í þessu sambandi má ég kannske minna á, að í nágrannalöndum okkar, eins og í Noregi, í sjálfri höfuðborginni þar, Osló, hafa um langan tíma gilt húsaleigulög, sem eru strangari en ákvæði þessara l., og það ekki eingöngu sem heimildarlög, heldur sem lög, sem skylt var að framkvæma, þar sem beinlínis var heimilt og gert að taka húsnæðið af mönnunum og setja fólk inn gegn vilja eigendanna. Þetta gerði enginn að gamni sínu, það segir sig nokkurn veginn sjálft. Það var gert af því, að það var engin leið önnur til að sjá húsnæðisleysingjunum fyrir þaki yfir höfuðið. Nú er ég ekki með þessu að segja, að ástandið sé slíkt hér, að til slíks sé brýn nauðsyn að grípa eins og stendur, ef aðrar ráðstafanir eru gerðar.

Það er ekki nein ný bóla, að hér á landi gildi húsaleigulög í einni mynd eða annarri. Það hefur verið vikið að því, að þau voru fyrst sett í fyrra stríði, aftur síðar og endurnýjuð í byrjun síðasta stríðs. Af hverju? Ekki af neinni löngun til þess að níðast á húseigendum, heldur vegna þess, að ástandið var þannig, að það var talið með réttu algerlega óhjákvæmilegt. Það liggur í augum uppi og hlutarins eðli, að slík löggjöf sem húsaleigulöggjöfin verður aldrei vinsæl af þeim mönnum, sem telja skertan sinn umráðarétt, meðferð sinna eigna, af slíkri löggjöf, en það er ekkert einsdæmi um þessa löggjöf, svo er um margar hverjar aðrar, sem nauðsyn ber til að setja.

Ég sagði áðan, að því gæti enginn neitað, að t. d. hér í Reykjavík væri mikill húsnæðisskortur, mikil húsnæðisvandræði. Af því leiðir einfaldlega það, að aðstaða þeirra tveggja aðila, sem um húsnæði og húsaleigu fjalla, þ. e. leigusala annars vegar og leigutaka hins vegar, er gersamlega ójöfn. Þegar húsnæðisleysi er mikið, þá er aðstaða leigutakanna alltaf miklu veikari í öllum slíkum viðskiptum og því veikari sem húsnæðisskorturinn er meiri; því sterkari er aftur á móti aðstaða húseigendanna, þeim mun strangari kosti, jafnvel afarkosti, geta þeir sett leigjendunum um leiguupphæð og þeim mun erfiðari kjör um leigumála yfirleitt. Þetta er staðreynd, sem er ekki til neins að loka augunum fyrir. Það er aðeins að blekkja sjálfan sig að reyna að gera slíkt. Þess vegna hlýtur einn meginþáttur húsaleigulöggjafar jafnan að vera sá að reyna að jafna þennan aðstöðumun á milli leigutaka annars vegar og leigusala hins vegar. Og það er rétt, sem kemur fram hjá andmælendum þessa frv. hér í d., að sú tilhneiging kemur fram í frv. að leggja áherzlu á að gæta réttar og aðstöðu leigutakans. Það er knýjandi nauðsyn vegna þess, hvernig ástandið er í þessum málum.

Því hefur verið haldið fram, að ef húsaleigulöggjöf lík og þessi, sem hér er um að ræða, væri sett, þá mundi það draga úr byggingum og verða þannig óbeint til þess að auka húsnæðisleysið, auka á vandræðin. Ég hygg, að þetta sé fyrirsláttur einn og tilbúningur. Ég vil benda á það, sem reyndar öllum er kunnugt, að húsnæðisskorturinn nú stafar engan veginn af því, að ekki hafa nægilega margir menn viljað byggja. Jafnvel þegar síðari húsaleigulögin frá 1941 og 1942 voru í gildi og framkvæmd, þá voru alltaf miklu fleiri, sem vildu byggja, heldur en gátu fengið leyfi eða fé til þess. Það er því hugarburður einn, að löggjöf sem þessi hafi orðið til þess eða muni verða til þess að draga úr byggingum. Og það skal viðurkennt, sem sagt hefur verið um það í þeim efnum, að sú eina trygga framtíðarlausn til að bæta úr húsnæðisskortinum er að auka byggingu íbúða, sérstaklega íbúða, sem menn sjálfir geta eignazt og átt umráð yfir.

Af hverju stafar þá húsnæðisskorturinn, úr því að hann stafar ekki af viljaleysi manna til að byggja, því að því hefur ekki verið til að dreifa?

Til þess að geta byggt þurfa menn enn í flestum tilfellum og hafa fram að þessu þurft í öllum tilfellum að fá sérstök leyfi, byggingarleyfi, innflutningsleyfi á nauðsynjum, fjárfestingar- og gjaldeyrisleyfi. Öll undanfarin ár hafa sífellt og ævinlega miklu, miklu fleiri sótt um þessi leyfi heldur en hafa fengið þau. Það sýnir augljóslega, að ekki hefur vantað viljann til að byggja, enda hefur reynslan orðið sú, að engir menn hafa betur tryggt fé sitt og komið því betur fyrir heldur en þeir, sem hafa komið því í íbúðarhús hér í bænum, og það hefur að sjálfsögðu verið hvöt til þess að byggja. Það eru aðrar ástæður, sem valda því, að ekki hefur verið byggt nægilega mikið. Það eru í fyrsta lagi þær hömlur, sem hafa verið á byggingarframkvæmdum og ég nefndi áðan. Í öðru lagi hefur gengið treglega að fá lóðir til þess að byggja, eins og allir vita. Og í þriðja lagi, og það ræður kannske ekki minnstu um, hafa bankarnir samkvæmt fyrirmælum stjórnarvaldanna gersamlega lokað fyrir allar lánveitingar til íbúðabygginga í bænum. Það er því hugarburður einn, að það sé vegna fyrri húsaleigulaga, að ekki hefur verið aukið húsrými með byggingum í bænum. Það er bein afleiðing af þeirri stjórnarstefnu, sem fylgt hefur verið undanfarið, og því fjárhagsástandi og mati á því, sem stjórnarvöld landsins hafa á það lagt. Þetta virðist mér nauðsynlegt að komi fram, þegar rætt er um þetta frv. hér og aðgerðir til þess að bæta úr ástandinu.

Þetta frv., sem hérna liggur fyrir, er að ýmsu leyti mjög ófullkomið, enda að verulegu leyti frumsmíð. Þegar húsaleigulögin frá 1949 voru afnumin, þá var að minni hyggju stórt spor stigið aftur á bak. Það er enginn vafi á því, að þó að þau l. þyrftu mikillar endurskoðunar og umbóta við, einnig með tilliti til húseigenda, þá hefur afleiðingin af því, að þau voru afnumin, orðið til þess að gera kjör leigjenda stórum verri en áður var og aukið erfiðleika þeirra með að fá húsnæði. Þetta er staðreynd, sem ekki er til neins að neita. Þau ákvæði, sem eru í gildandi lögum um húsaleigu, eru, eins og sagt var af formælendum þeirra, gersamlega gagnslaus. Ákvæðin um hámarksleigu eru að engu höfð, og húsaleigunefnd hefur ekki aðstöðu til þess að gera neitt. Það ber því vitni um nokkra yfirbótarviðleitni hjá þeim framsóknarmönnum, sem nú bera þetta frv. fram, en áður voru með því að fella hin fyrri húsaleigulög úr gildi. Þeir viðurkenna, að þá hafi verið skakkt spor stigið, og virðast vilja reyna nokkuð úr því bæta með þessu. En annað virðist einnig liggja þar á bak við. Samkvæmt fyrri húsaleigulögum var húsaleigunefndin skipuð af ríkisstj., og á ríkisstj. hvíldi sá vandi, sú ábyrgð og það vald að ákveða, hverjum ráðstöfunum skyldi beitt til að bæta úr húsnæðisleysinu eða bjarga mönnum frá vandræðum af þess sökum. Nú er þessi vandi og þessi ábyrgð flutt af ríkisstj. yfir á hlutaðeigandi sveitarfélög með þeim rökstuðningi, sem var gerð grein fyrir af hálfu hv. þm. S-Þ. (KK) í ræðu hans hér fyrr. Ég tel, að það sé vafasamt, hvort slík breyting sé til bóta frá því, sem áður var, en um annað virtist ekki vera að ræða, ef nokkur von var til að fá því frv. komið fram.

Að ýmsu leyti finnst mér þessi löggjöf ganga of skammt. Ég hefði heldur kosið, að það hefði verið eins og var í fyrri löggjöfinni, að ábyrgð og framkvæmdaaðild væru í höndum ríkisstj., í stað þess að veita þær heimildir, sem hér er um að ræða, en því verður ekki haggað, úr því sem komið er.

Hér hefur verið sýnt fram á það, að frv. er í tveimur meginþáttum. Annars vegar er sá almenni kafli aftur að og með IX. kapítula, sem fjallar um viðskipti leigusala og leigutaka almennt. Þetta er að miklu leyti frumsmíð, eins og hér hefur komið fram, og að sjálfsögðu verður maður að gera ráð fyrir því, að reynslan sýni, að þar þurfi ýmsu að breyta.

Hæstv. dómsmrh. vék nokkuð að þessum kafla í ræðu sinni hér fyrr og taldi, að á engan veg væri svo traustlega um hnútana búið, að ekki gætu þar mörg ágreiningsefni risið. Ég er honum sammála um það, en því má ekki gleyma, að sennilega á fáum sviðum ef nokkru eru nú uppi æ og ávallt fleiri eða víðtækari ágreiningsmál heldur en einmitt milli leigutaka og leigusala. Og ég hygg, að þó að þessar reglur hér í frv. séu ekki svo fullkomnar sem æskilegt væri og sjálfsagt megi standa til bóta, þá megi þó örugglega vænta þess, að þær verði til þess að gera þessi viðskipti greinilegri og draga úr málaflækjum, ágreiningi og málaferlum, en ekki til að auka á. Það verða að þessari löggjöf settri alveg tvímælalaust ýmis atriði, sem jafnan verður ágreiningur um og hljóta að ganga til dómstóla. Fram hjá því verður ekki stigið; það skal játað. En ég hygg, að líkur bendi til þess, að slík ágreiningsatriði yrðu færri að þessum kafla settum heldur en án hans.

Ég skal játa það, að ég hef verið í nokkrum vafa um það t. d.. hvort ástæða væri til þess að setja inn þau ákvæði, sem í frv. eru um viðhaldsskyldu leigjanda innanhúss á íbúð sinni og úttekt fyrir og eftir leigumála. Meðan húsaleigunni var haldið niðri með húsaleigulögum, þá færðist það mjög í vöxt, að leigjendur tækju að sér innanhússviðhald íbúðanna, eins og öllum, sem þekkja til hér í Reykjavík, er kunnugt um. Og almennt skoðað virðist mér ýmislegt mæla með því, að leigjendur taki að sér innanhússviðhald. Þá geta þeir nokkru um það ráðið sjálfir innan ramma þeirra ákvæða, sem um það fjalla, hversu mikið þeir leggja í það, að sjálfsögðu þó svo, að viðhaldsskyldunni sé fullnægt, og hafa þá við sjálfa sig að deila í þessu efni. Af þessu leiðir, eins og hv. 10. landsk. benti á, að að sjálfsögðu þurfa einhver ákvæði að vera í lögum um úttekt bæði við upphaf og lok leigumála. Hins vegar er þetta ekki rígbundið í lögunum, eins og virtist nú koma fram. Það er á valdi leigusala og leigutaka, ef um það er samkomulag, að hafa þetta á annan veg, og það er líka á þeirra valdi eftir brtt. þeirri, sem ég er aðili að og nú liggur fyrir, að þeir semji sín á milli um að gera úttektina sjálfir eða fá til þess menn og taka hana gilda, ef um semst. Og ég hygg, að í ákaflega mörgum tilfellum mundi lánast að koma sér saman um úttektina og jafnvel í fleiri tilfellum heldur en hinum, að til þyrfti að kveðja hina lögákveðnu menn. En sé hætt við því, að ágreiningur verði um meðferð leigðrar íbúðar og skil á henni að þessu frv. samþykktu, þá er enginn vafi á því, að ekki er minni ástæða til að gera ráð fyrir ágreiningi um þessi efni að óbreyttri löggjöf um þetta efni frá því, sem nú er, því að hver mun þar reyna að ota sínum tota, halda sínum málstað fram, sem eðlilegt er, en þegar gætt er þess munar í þessum efnum, sem vegna húsnæðisskortsins er á aðstöðu leigjendanna annars vegar og leigusala hins vegar, þá er leigutakinn alltaf veikari aðilinn í þeim viðskiptum eins og nú hagar til, vegna þess að hann á fárra kosta völ, ef upp úr slitnar og hann verður að yfirgefa íbúðina.

Um það, hvort grípa skuli til þeirrar heimildar, sem er í X. og XI. kafla frv., verður að því samþykktu hlutverk sveitarstjórnanna að kveða á um. Það er víst óhætt að segja það, að engin sveitarstjórn mun grípa til þessara ráðstafana, nema hún telji til þess hina brýnustu þörf, og ótti minn er nú frekar sá, að þær verði heldur seinlátar í þessu efni heldur en of harðar. Ég vil aðeins í því sambandi benda á það, sem kom hér fram við umr., — það var tekið fram í ræðu hæstv. dómsmrh., — að það er alls ekki skylda sveitarfélaganna að beita öllum heimildarákvæðum, sem upp eru tekin þar. Það er á þeirra valdi að segja til um það, hverjum skuli beitt og hverjum ekki, og af því leiðir, að sveitarstjórnir geta ráðið því sjálfar, í hve ríkum mæli eða í hve lítið ríkum mæli þær beita þessu ákvæði. En jafnvel þó að þessi ákvæði yrðu ekki beinlínis notuð nema þá að einhverju takmörkuðu leyti, þá minna þau á þá skyldu, sem hvilir á þessum aðilum í þessu efni og réttilega má krefjast að þeir taki tillit til og noti heimildirnar, ef ástandið er að dómi almennings í sveitarfélaginu þannig, að þörf er á að grípa til þeirra.