08.04.1954
Efri deild: 80. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 577 í C-deild Alþingistíðinda. (2709)

125. mál, húsaleiga

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Það er ástæðulaust að vera að karpa við hv. frsm. meiri hl., hv. þm. S-Þ., um það, hvort ég hafi skilið rétt ummæli hæstv. félmrh. eða ekki. Það mun sjást við samanburð á ræðum hans og minni, hvort ég gat misskilið þar nokkuð eða missagt, enda var það glöggt af ræðu hv. þm. S-Þ., að efnislega játaði hann, að ég hefði farið rétt með, þó að hann vildi klæða það í nokkuð annan búning og mildari að ytra áliti, en hið sama að efni og ég hafði haldið fram.

Þá taldi hv. þm., að ég hefði misskilið frv., ekki lesið það nógu glögglega. Það er rétt, að hv. þm. benti mér á í ræðu minni, að mér hafði yfirsézt viss orð í frv. Ég tók það þegar til greina, sem sjálfsagt var. En út af fyrir sig er það ekki óeðlilegt, þó að menn átti sig ekki til hlítar á svo löngum og vandasömum lagabálki, allra helzt þegar tekið er tillit til þess, að styðjendur frv. eru enn hér í Ed. að baksa við að koma frv. í það horf, sem þeir segja að það hafi átt að vera prentvillulaust. Þeir gátu ekki komið auga á þá prentvillu sjálfir fyrr en deilur voru hafnar út úr því atriði í Nd., og Nd. síðan samþykkti það, sem þeir nú segja að sé prentvilla.

En þegar hv. þm. fór að bera á móti því, að ég hefði skilið rétt 71. gr., þá fór hann algerlega með rangt mál, vegna þess að það er berum orðum fram tekið, að eldra húsnæði, sem losnar, eftir að húsaleigumiðstöðin tekur til starfa, er til ráðstöfunar fyrir þessa miðstöð, og það er til ráðstöfunar alveg eins þó að húseigandi hafi ágæta leigjendur til þess að taka við húsnæðinu strax og það losnar. Þetta er a. m. k. ótvírætt í frv., þó að margt annað sé þar ærið vafasamt, eins og tekið hefur verið fram sérstaklega greinilega bæði af hv. 10. landsk. þm. og 4. þm. Reykv., sem mér þó skilst að sé fylgjandi frv. í heild. En hv. 4. þm. Reykv. varð að játa, að mörg ákvæði frv. væru ákaflega óljós og þannig, að búast mætti við því, að málastapp yrði af. Sjálfur tók hann fram, að hann væri mjög efins um efnisákvæði það í hinum betri köflum frv., sem er eina verulega breytingin frá því, sem dómstólarnir nú þegar fylgja, en það er um viðhaldsskylduna. Þegar tekið er tillit til þess og svo þess, sem ég vakti athygli á í minni fyrri ræðu, að þessi ákvæði um viðhaldsskylduna og matið, sem henni á að vera samfara, eru ákaflega óljós, þá er fyllilega óumdeilanlegt, að þetta frv. er ekki þannig undirbúið eða liggur svo ljóst fyrir, að verjanlegt sé af Alþingi að taka nú afstöðu til málsins. Það verður þvert á móti að íhuga þetta allt betur og þá ekki sízt vegna þess, sem ég og vakti athygli á í minni fyrri ræðu að sveitarstjórnunum hefur ekki gefizt færi á að láta uppi umsögn sína um þá kafla frv., sem þær varðar þó ákaflega miklu, eða a. m. k. hefur frv. ekki verið sent til umsagnar þeirra, svo sem sjálfsagt væri. Af þessum sökum og að öðru leyti með tilvísun til fyrri ræðu minnar vil ég leyfa mér að bera fram svo hljóðandi rökstudda dagskrá:

Þar sem frv. þetta hefur í för með sér veigamiklar breytingar á gildandi réttarreglum og engan veginn er nægilega ljóst, hvað í hinum nýju réttarreglum felst, og þar eð frv. hefur ekki verið sent til umsagnar sveitarstjórnanna, sem málið varðar þó mjög, þá telur deildin ekki tímabært að afgreiða málið nú og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.“

Þessa rökstuddu dagskrá leyfi ég mér að afhenda hæstv. forseta.

Eins og ég gat um, eru mörg ákvæði í frv. ákaflega óljós, sem von er til. Bagamest er þó, að ákvæðin um viðhaldsskyldu og endurbótarétt og skyldu leigutaka á húsnæði, sem eru algert nýmæli, eru svo óglögg, að ákaflega er erfitt að átta sig á, hvað í þeim felst. Og það er eftirtektarvert, að hv. frsm., sem svaraði annars mjög ýtarlega í langri ræðu athugasemdum, sem fram höfðu komið, leiddi alveg hest sinn hjá því að skýra frekar þessi ákvæði, sem ég mæltist þó sérstaklega til að skýrð væru af hálfu styðjenda eða fylgismanna frv. Ég er sammála hv. 4. þm. Reykv., sem þó virðist styðja málið, að þessi ákvæði séu mjög varhugaverð, bæði efnislega og eins vegna þess, hversu óljós þau eru, enda munu þau verða uppspretta að eilífum deilum og illindum, ef ekki verður frekar að gert, auk þess sem ljóst er, að ef þau verða skilin svo sem hætt er við að verða muni, ef ekki fæst leiðrétting, þá munu þau mjög verulega draga úr byggingarstarfsemi hér í bænum og þess vegna verða til þess að auka húsnæðisvandræðin, öngþveiti og vandræði einmitt þeirra, sem verst eru staddir.

Ég tel alveg nauðsynlegt, að gerð sé tilraun til þess að gera þessi ákvæði ívið ljósari, og í því felst ekki, að ég verði ákvæðunum samþykkur, þó að mín tilraun yrði hér tekin til greina, en ég tel þó, að til verulegra bóta horfði, ef aftan við 34. gr. yrði bætt:

„Nú er húsnæði í betra ástandi en þegar leigutaki flutti í það, og skal leigusali þó ekki greiða bætur fyrir aðrar framkvæmdir leigutaka en þær, sem gerðar hafa verið vegna eðlilegs viðhalds íbúðarinnar.“

Ég vonast til þess, að allir, sem ekki vilja stefna húsnæðismálunum í algert öngþveiti, geti þó fallizt á að samþykkja þessa brtt.

Þá mun ég leggja til, að á 60. gr. frv. verði gerð sú breyting, að í stað 1. tölul., sem nú hljóðar svo: „Íbúðarhúsnæðis, sem er á sömu hæð og húseigandi býr á sjálfur og hefur sama ytridyrainngang“ komi: „Íbúðarhúsnæðis, sem er í því sama húsi og húseigandi býr í sjálfur“. Þetta er í samræmi við ákvæðin í 71. gr., og má þó ekki minna vera en frv. sé sér sæmilega samhljóða innbyrðis.

Loksins legg ég til, að fyrri málsgr. 71. gr. breytist svo, að upphafið: „Nú hefur húsaleigumiðstöð verði komið á fót samkv. 70. gr., og skal hún þá annast leigu“ — standi óbreytt, en að í stað þess, sem eftir kemur og hljóðar nú svo: „á öllu nýju húsnæði og eldra húsnæði, sem losnar eftir að húsaleigumiðstöðin tekur til starfa“ komi orðin: „á öllu húsnæði, sem óráðstafað er“, þannig að það sé þó ekki annað húsnæði, sem þessi miðstöð fær til ráðstöfunar, heldur en það, sem húseigendur hafa ekki ráðstafað.

Ég tel, að þessar brtt. séu fjarri því að gera málið aðgengilegt, en þær sníða þó af nokkra af þeim stærstu göllum, sem mundu standa eftir á frv., jafnvel þótt allar brtt. hv. þm. Barð. væru samþykktar, aðrar en þær auðvitað, sem fela í sér að fella þessar greinar niður, sem mínar brtt. eru við, og þess vegna var eðlilegt, að hann tæki þetta ekki upp í sínar brtt. En ef málið gengur til 3. umr., þá tel ég nauðsynlegt að gera á frv. margar frekari breyt. og mun athuga það undir þá umr., ef ég tel, að það hafi þýðingu.

Ég vil svo leyfa mér að afhenda forseta þessar skriflegu brtt.