24.02.1954
Sameinað þing: 35. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 73 í D-deild Alþingistíðinda. (2943)

140. mál, landabréf í þágu atvinnuveganna

Flm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Í till. þeirri, sem ég hef flutt hér á þskj. 365, felst nokkur nýjung. Þar er lagt til, að ríkisstj. verði heimilað að verja allt að 20 þús. kr. til þess að hefja gerð hagrænna landabréfa. Þetta er að vísu mjög lág upphæð, en ég hygg samt, að fyrir hana sé hægt að hefja byrjunarframkvæmdir á þessu sviði.

Það er óþarfi að skýra þessa till. ýtarlega. Fyrir efni hennar er gerð grein í grg., sem fylgir henni. Ég vil aðeins benda á það, að okkur Íslendinga skortir margvíslegar hagrænar upplýsingar. Öll slík upplýsingaþjónusta í þjóðfélagi okkar má heita á bernskuskeiði. Hins vegar er það vitað, að því gleggri upplýsingar sem fyrir hendi liggja um efnahagsmál og einstaka þætti þeirra, því hægra er oft um vik að snúast við þeim vandamálum, sem að steðja.

Hagræn landabréf eru af mjög mismunandi gerðum, enda er þeim hagað mjög eftir breytilegum aðstæðum hinna ýmsu landa. Ég hygg, að það, sem helzt kæmi til greina hér á Íslandi að taka með í reikninginn í sambandi við gerð slíkra landabréfa, væri t. d. landslag, skipting landsins í undirlendi og heiðalönd, nýtilegt land, graslendi, tún og engi, flatarmál þess og staðsetning, byggð og þéttbýli, sveitir og bæir, samgöngur, vegir, flugvellir, viðkomustaðir skipa, sími, rafmagn o. s. frv.; enn fremur hlutfallsleg dreifing búpenings á landið, framleiðsla landbúnaðarafurða, sjávarafurða, iðnaðarvarnings o. s. frv.

Það er alls staðar reynslan, þar sem að því ráði hefur verið horfið að gera slík hagræn landabréf, að af þeim hefur orðið mjög mikið gagn. Og ég er sannfærður um það, að ef að því ráði yrði horfið hér, þá mundi gerð þeirra einnig verða íslenzkum atvinnuvegum og framleiðslustéttum ekki hvað sízt til mjög mikils gagns.

Ég vil leyfa mér að beina þeim tilmælum til þeirrar hv. n., sem þetta mál fær til athugunar, að það verði sent til álita t. d. hagstofustjóra og enn fremur til jarðfræðideildar náttúrugripasafnsins. Báðir þessir aðilar hljóta að hafa glöggan skilning á þýðingu þess máls, sem hér er um að ræða. Ég leyfi mér svo að óska þess, að málinu verði vísað til hv. fjvn.